Samfélagsmiðlar

Endurreisnin á Blönduósi

Fyrstu gestirnir á endurnýjuðu Hótel Blönduósi banka bráðum upp á. Lokaspretturinn í frágangi er hafinn. TÚRISTI ók af þjóðveginum og niður með ósnum til að kynna sér metnaðarfull áform um endurreisa ljóma gamla bæjarhlutans og bjóða þar upp á fyrsta flokks gistingu, veitingar og afþreyingu í skemmtilegu umhverfi.

Hótel Blönduós

Horft upp Aðalgötuna

Þegar morgunrúta Norðurleiðar kom við á Blönduósi í gamla daga á leið frá Akureyri til Reykjavíkur var ekið niður að Hótel Blönduósi þar sem farþegar stigu út og snæddu síðan nýsoðinn lax úr Blöndu með kartöflum og smjöri áður en för var haldið áfram. Með betri vegum jókst ferðahraðinn og bensínsjoppumenningin ruddi í burt gamalgrónu veitingaþjónustunni sem sniðin var að öðrum tíma og þörfum.

TÚRISTI velti þessu fyrir sér um leið og hann ók af þjóðvegi eitt sem leið liggur niður í gamla bæinn á Blönduós. Þar er allt að vakna upp á nýtt.

Aðalgatan. Fremst til vinstri er Helgafell við hlið hótelsins. Þróunarfélagið á tvær hæðir í því húsi – MYND: ÓJ

Rekstur Hótel Blönduós hófst fyrst í Sýslumannshúsinu gamla við Aðalgötu árið 1943. Viðbygging bættist við 1960. Hótelrekstur hefur verið þarna í 80 ár og nú er blásið til nýrrar sóknar. Endurnýjað hótel með 19 herbergjum af ýmsum gerðum verður opnað 15. maí.

Þegar maður horfir í kringum sig í þessum húsakynnunum rúmum hálfum mánuði fyrir opnun er erfitt að trúa því að tímaáætlun standist. En Húnvetningar eru göldróttir og eiga góða að víða. Á bókunarsíðum má þegar tryggja sér herbergi í sumar á Hótel Blönduósi.

Unnið er á fullu við endurreisn Hótel Blönduós. Hér sér út um glugga á Sýslumannshúsinu – MYNDIR: ÓJ

Tveir gamlir Blönduósingar, Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, og Bjarni Gaukur Sigurðsson, einn stofnenda LS Retail, tóku sig saman og stofnuðu þróunarfélagið Gamla bæinn, keyptu hótelið og fleiri húseignir nærri og vilja stuðla að endurreisn gamla bæjarins. Þeir félagar eru fullvissir um að það sé hægt að lokka fólk af þjóðveginum og þarna niður eftir.

TÚRISTI sannfærðist sjálfur eftir stutta viðdvöl á staðnum um að þarna við ósa Blöndu fælust ónýtt tækifæri. En verður virkilega örugglega allt tilbúið 15. maí?

Einar hótelstjóri – MYND: ÓJ

„Það verður allt tilbúið,“ segir Einar S. Valdimarsson, hótelstjóri, sem gefur sér dálitla stund til að spjalla við blaðamann. Einar stýrði áður Hótel Blöndu í sömu húsakynnum í fjögur ár.

Í kringum okkur eru verkfæri, listar sem bíða þess að vera settir á sinn stað, húsgögn og húsmunir undir plasti. Það á enn eftir að ljúka ótal handtökum. Þetta hefur verið töluvert verk – mikil vinna, viðurkennir Einar:

„Þetta byrjaði um miðjan nóvember. Framkvæmdatíminn er því ekki ýkja langur. Gæfa þessa verkefnis felst í því hverjir eru eigendur, að til okkar hafa sópast frábærir iðnaðarmenn, gott fólk sem hefur hjálpað til – og að hafa notið mikillar velvildar á Blönduósi.“

Það skiptir miklu að hafa fólkið í bænum með sér.

„Öll svona verkefni ganga betur ef velvild er til staðar. Blönduósingar fagna því að verið sé að gera eitthvað. Gamli bærinn stendur hjarta þeirra nærri. Hér gengur hver maður undir annars hönd við að leysa þau vandamál sem upp koma. Það gleðjast allir yfir þessu.“

Lobbíið og salurinn – MYNDIR: ÓJ

Hvernig var ástand húsanna?

„Í grunnin voru húsin góð. Gamla sýslumannshúsið var hroðalegt að utan, með forsköluðu timbri. Ákvörðun var tekin um að brjóta gömlu klæðninguna af og setja upp nýja. Þetta heppnaðist ótrúlega vel. Við tókum líka klæðningar úr lofti í salnum niðri og allar pípulagnir voru endurnýjaðar.

Einar ræðir handtökin sem eftir eru – MYND: ÓJ

Þá rættist draumur hótelmannsins á Blönduósi um að losna við lyktsterkt hitaveituvatnið úr krönunum. Settur var upp forhitari sem hitar hreint vatn. Við það einfaldast þrifin mikið af því að enginn kísill fellur á gler og blöndunartæki.“

Þegar þú stýrðir Hótel Blöndu sástu alltaf fyrir þér að hvaða möguleikar fælust hér?

„Já, ég sá möguleika en nýju eigendurnir sáu lengra og að verkefninu kom hönnuður, Finnur Arnar Arnarson, myndlistarmaður. Það er sumt sem fær mig til að spyrja sjálfan mig að núna: Hvað var að mér að sjá þetta ekki? Nú verður t.d. hægt að ganga úr veitingasalnum út á pall fyrir aftan hús. Gullið er nefnilega útsýnið. Túristunum er alveg sama þó þeir gisti ekki í stórum herbergjum því að þegar dregið er frá glugganum blasir við geggjað útsýni.“

Horft út um glugga – MYNDIR: ÓJ

Fyrirgefið Blönduósingar, en fyrir þorra landsmanna er Blönduós bara staður þar sem þú tekur bensín og færð þér pylsu. En aðeins spölkörn frá sér maður þennan fjársjóð í gömlum húsum, sem mörg hver hafa drabbast niður. Þessu viljið þið breyta.

„Þetta er sérkennilega samsett byggð og sem betur fer hefur hún fengið að halda sér. Það má ekki breyta öllu. Margt má enn laga. Það er auðvitað frábær hugmynd hjá eigendum að taka yfir húsnæði brauðgerðarinnar Krútt og bjóða þar upp á afþreyingu. Stundum spurðu gestir hvað hægt væri að hafa fyrir stafni hérna. Þá gat maður helst bent því á að ganga niður í fjöru og horfa á ána og hafið berjast,

Horft upp með ánni og út á flóann – MYNDIR: ÓJ

fylgjast með gæsunum – fara í rómantíska gönguferð með ströndinni. Nú eru uppi hugmyndir um að bjóða upp á enn fleira, þannig að gestir notið fjölbreyttari afþreyingar.“

Maður gerir ráð fyrir að hótelgestir verði að stórum hluta útlendingar en þið viljið draga Blönduósinga og aðra landsmenn hingað líka.

„Hér niðri verður veitingahús, sem hótelgestir og fólk úr annarri gistingu hér í kring getur notað sér, en þeim Íslendingum fjölgar stöðugt sem hafa uppgötvað að það munar litlu á verði hvort þú borðar á veitingastað eða í vegasjoppu, sem eru góðar til síns brúks. Við fengum töluvert að Íslendingum hingað í mat og þeim á eftir að fjölga.“

Sjáið þið fyrir ykkur að reksturinn verði samfelldur árið um kring. Það verði hér gestagangur á öllum árstímum?

„Það er ætlunin. Ég geri þó ráð fyrir því að á veturna fáum við frekar Íslendinga, ekki síst í kringum einhverja viðburði. Það var hér alltaf rennerí á veturna en auðvitað komu steindauðir dagar á milli. Ef veður versnaði og heiðarnar lokuðust þá fylltist hér allt.“

Hemmertshús og gamla pakkhús Höephnersverslunar, síðar Pétursborg, séð út um glugga hótelsins – MYNDIR: ÓJ

Með þessari endurnýjun þarf væntanlega aðra strategíu í markaðssetningu og sölu?

„Við ætlum að fara upp á við í gæðum og verði. Það hefur verið lögð áhersla á alúð í þjónustunni – að hafa þetta manneskjulegt – og þannig verður það áfram. Í sumar langar mig til að hafa Happy Hour á barnum þar sem erlendum gestum býðst að hita og spjalla við Íslendinga. Útlendingarnir fá ekkert endilega mörg tækifæri til þess.“

Pétur við einn herbergisgluggann – MYND: ÓJ

Gisting á Hótel Blönduósi er þegar komin í sölu á bókunarsíðum. Pétur Oddbergur Heimisson er með markaðs- og kynningarmál á sinni könnu:

„Við ætlum að reyna að höfða bæði til erlendra ferðamanna og Íslendinga. Hér eru glæsileg herbergi og flottur aðbúnaður. Nú þegar sjáum við að margir Ítalir hafa bókað herbergi, líka ferðafólk frá Bandaríkjunum, Ísrael og Kína. Ég ímynda mér að Bandaríkjamenn gætu orðið stærsti kúnnahópurinn.“

Svipmyndir af efri hæðinni – MYNDIR: ÓJ

Flestir hótelgestanna koma núorðið á bílaleigubílum. Margir fara hringferð um landið, sumir bæta við hring um Vestfirði eða Snæfellsnes. Fyrir þessa hringfara hentar vel að koma við á Blönduósi.

„Við eigum samskipti við innlendar og erlendar ferðaskrifstofur, sem senda til okkar hópa ferðafólks af ýmsum stærðum. Hótel Blönduós er að finna á Booking og Expedia – og svo má auðvitað bóka í gegnum heimasíðuna, sem er ódýrast. Við verðum smám saman sýnilegri.“

Pétur, þú þekktir ekki vel til á Blönduósi áður en þú byrjaðir að vinna hérna, en fékkstu strax trú á þessu verkefni?

„Þegar ég tók mið af því teymi sem var að vinna að þessu fannst mér þetta ekki geta klikkað. Síðan hef ég kynnst nokkrum Blönduósingum og það er yndislegt fólk. Það er mikill stuðningur í bænum. Ég kynntist svona rekstri þegar ég vann út í Flatey. Hér er svipuð stemmning: gömul hús, kyrrð og ró.

Fagurt veggfóðrið – MYND: ÓJ

Við viljum að fólk komi hingað niður í gamla bæinn og kíki á okkur. Við tökum Krúttið, gömlu brauðgerðina, í notkun í sumar. Þar verða haldnir tónleikar, aðrir viðburðir, og boðið upp á veitingar, reynt

Krúttið að innan – MYNDIR: ÓJ

að tengjast ýmsum hátíðum í bænum, eins og Prjónagleðinni og Húnavöku. Við ætlum að hafa þetta fjölbreytt. Síðan bætist við gamla kirkjan. Þar verður hægt að fá gistingu.“

Einar, þú lofar því að hótelið verði opnað gestum 15. maí?

Pétur og Einar – MYND: ÓJ

„Já, það verður opnað. Ég ætla ekki að standa í dyrunum og segja: Því miður! Ég held að það sé búið að fylla öll herbergi fyrstu helgina. Hér eru allir á fullu og verða fram að opnun. Ég er líka að missa smið og pípara, tvo bændur sem fara í sauðburðinn.“

Jóhann Sigurðsson, kokkur – MYND: ÓJ

Niðri í salnum sem bráðum verður fínn var Jóhann Sigurðsson, framtíðarkokkurinn á Hótel Blönduósi, í heimsókn. Hvað ætlar hann að bjóða upp á í veitingasalnum?

„Við ætlum að reyna að vinna úr hráefni úr héraðinu: kjöt af lambi og kind, lax og bleikju, veganrétti. Þetta verður ekki stór matseðill. Meiri áhersla verður lögð á gæði en að keppast við að bjóða marga rétti. Svo verða nokkrir góðir eftirréttir.“

Það verða húnveskir þræðir í þessu.

„Ég ætla að hafa stóran bakka, sem ég kalla Blöndubakka, með gröfnum laxi og kindafillé, osta úr Skagafirði (ekki segja neinum frá því). Ég verð að gera það, þeir eru mjög góðir. Rækjur og ýmislegt annað góðgæti verður þarna í boði. Þetta verður klassi.

Hótel Blönduós 26.apríl 2023 – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …