Samfélagsmiðlar

Fegurð og þokki – eyðandi hrifning

Feneyjar eru einstök borg, fögur og sögurík, sem troðningstúrismi hefur gengið nærri. Flestir eru sammála um að bregðast verði við eyðandi ágangi og hrifningu gesta. Í húfi er tilvera íbúanna, öll mannvirki og sjálfur staðarandinn. TÚRISTI fór í vorferð til Feneyja og heillaðist af borginni - friðsældinni á kvöldin og notalegu viðmóti íbúa.

Stoltir Feneyingar

Stoltir gondolieri í Feneyjum. Ungi Alvise til vinstri

Enn hefur borgaryfirvöldum í Feneyjum ekki tekist að koma á innheimtu gjalds af öllum þeim milljónum gesta sem streyma til borgarinnar. Síðast var fyrirhugað að hefja gjaldtökuna 16. janúar síðastliðinn. Innheimta átti þrjár til sex evrur eftir árstíðum af hverjum þeim sem kæmi til borgarinnar. Gert var ráð fyrir að allir sem vildu til Feneyja þyrftu að skrá sig fyrirfram – hvort sem komið væri með almenningsfarartækjum eða á eigin farkosti.

Taxi í Feneyjum – MYND: ÓJ

Ekki tókst yfirvöldum í Feneyjum að koma þessu heim og saman í tæka tíð og frestuðu því gjaldtökunni um óákveðinn tíma. Óvíst er að nokkur verði rukkaður við komuna til borgarinnar á þessu ári. Hinsvegar er frágengið að allir farþegar sem fljúga frá Marco Polo-flugvelli við Feneyjar þurfa að greiða 2.50 evrur í  aukagjald við brottförina frá 1. apríl 2024. Ekki verður sagt að þessi gjaldtaka sé mikil en þó verður að taka með í reikninginn að þessir flugfarþegar hafa margir greitt áður sjö evru gistináttagjald fyrir hverja nótt sem þeir dvöldu á hóteli í Feneyjum.  

Verkamaður heldur heim á leið – MYND: ÓJ
Hreinsunarstarf á Markúsartorgi – MYND: ÓJ

Þessi gjöld sem þegar eru innheimt og önnur sem borgaryfirvöldin eru hikandi við að leggja á, hugsanlega vegna þess að þau vita ekki almennilega hvernig eigi að annast framkvæmdina, breyta í raun afar litlu um vanda Feneyja. Þessi töfrandi borg er og verður með mikið aðdráttarafl og mun á meðan hún stendur soga til sín fjölda gesta.

Ein leiðin til að takmarka fjöldann sem fer um götur og síki Feneyja væri að selja tiltekinn fjölda aðgöngumiða eins og gert er í skemmtigörðum. En með því væri viðurkennt að Feneyjar eru ekki lengur frjáls borg heldur lokaður garður. 

Kaupmaður í Feneyjum – MYND: ÓJ

Það er engin einföld lausn á vanda Feneyja: troðningstúrismanum sem hrakið hefur íbúana á brott, breytt venjulegum íbúðum í leigupláss fyrir túrista.

Svo eru það hallirnar og glæsihýsin þar sem vel megandi Feneyingar bjuggu áður. Ríkir Mílanó-búar eða útlendingar hafa keypt þessi hús hvert af öðru af því að það er svo ljómandi skemmtilegt að eiga hús við rómantísk síki Feneyja og gista þar í viku, tvær eða þrjár á ári, halda veislur fyrir ættingja og viðskiptavini. Allt stuðlar þetta að dauða Feneyja. Nú búa einungis um 55 þúsund manns í gömlu borginni en um 260 þúsund á öllu Veneto-svæðinu: í Padua, Treviso og Feneyjum. Ferðamenn á hverju ári teljast hinsvegar um 20 milljónir á venjulegu ári en gistinætur aðeins um 13 milljónir.

Þjónar spjalla á Markúsartorgi – MYND: ÓJ
Túristar á Markúsartorgi – MYND: ÓJ

Fólkið sem íbúarnir, borgaryfirvöldin og allir unnendur Feneyja hafa mestar áhyggjur af eru daggestir. Fólk sem kemur að morgni, röltir að Rialto-brúnni og þaðan á Markúsartorgið og svo til baka. Þessi gestir skilja mjög lítið eftir sig í peningum en þeir valda miklu álagi á alla innviði og tilvera þeirra spillir að einhverju leyti upplifun hvers og eins þeirra – og allra hinna. 

„Fylgið mér“ – MYND: ÓJ
Gettóið – MYND: ÓJ

Auðvitað liggur vandi Feneyja eins og svo margra annarra vinsælla áfangastaða túrista í því að flugmiðar hafa verið ódýrir. Fólk hefur getað farið í stuttar ferðir eiginlega hvert sem er – látið draumana rætast án mikils tilkostnaðar. Um 65 milljónir ferðamanna koma til Ítalíu á ári hverju. Túristarnir streyma frá Mílanó, Garda eða Como, Cinque Terre, Rimini, Flórens og jafnvel Róm – bara til að afgreiða Feneyjar. Fólk vill geta sagst hafa komið þangað. Það kemur með lest eða ekur þangað á bílaleigubílum eða í rútum. Svo er það heimafólkið, Ítalirnir sjálfir – flestir vilja heimsækja Feneyjar a.m.k. einu sinni. 

Ímynd og veruleiki í Feneyjum – MYND: ÓJ

Þegar líður á daginn fyllast göturnar, brýrnar og bakkarnir við sýkin og flóann. Þúsundir standa á Markúsartorgi, miklar raðir myndast fyrir framan Markúsarkirkjuna og Hertogahöllina, fólk streymir um aðliggjandi verslunargötur.

Feneyingar losuðu sig við skemmtiferðaskipin, sem gnæfðu yfir borgina þegar þau lögðu að. Þeir mótmæltu ákaft komum þessara risavöxnu skipa og stríðum straumi farþega úr þeim – fólks sem keypti kannski eina Gucci-tösku eða Prada-sólgleraugu en aðallega nokkra minjagripi og saup úr einu glasi á Florian á Markúsartorgi áður en farið var aftur um borð. Á endanum unnu íbúarnir sigur – varnarsigur.

Hressing á Florian – MYND: ÓJ

UNESCO beitti sér gegn komum skemmtiferðaskipa til Feneyja og ítölsk yfirvöld bönnuðu loks árið 2021 ferðir skipanna upp Guidecca-skurðinn, þaðan sem leiðin liggur að Markúsartorginu eftirsótta. Brotthvarf skemmtiferðaskipanna úr borgarmynd Feneyja dregur úr raskinu á tilveru íbúanna og bætir til muna upplifun gesta í borginni.

Það er hægt að stjórna straumi ferðafólks. Það er hægt að koma í veg fyrir að Feneyjar verði troðnar niður. 

Stöðugur straumur túrista inn í Feneyjar – MYND: ÓJ

Það átti að nota tímann í heimsfaraldrinum til að móta Feneyjum nýja framtíð í ferðaþjónustu, finna sjálfbærari leiðir – koma í veg fyrir að borgin yrði skemmtigarður þar sem ljósin væru slökkt á kvöldin. Þó Feneyingar sjálfir kvarti og kveini eðlilega undan þunga túrismans þá vita þeir vel að borgin getur ekki verið án túrista. Samgöngutækin eru kostuð af innkomunni frá túristum. Íbúarnir einir gætu ekki haldið þeim gangandi, En eitt af því sem stuðlað getur að meiri sjálfbærni ferðaþjónustunnar í Feneyjum er ef tekst að dreifa ferðafólkinu víðar, draga fleiri út í Lídó eða eyjarnar í lóninu fyrir utan.

Litskrúðug húsin í Burano – MYND: ÓJ
Eftir vel heppnaða siglingu út í eyjar í lóninu fyrir utan Feneyjar – MYND: ÓJ

Það er talað um að setja mörk á Airbnb-íbúðir og krefjast búsetu af þeim sem kaupa þarna íbúðir eða húseignir. Það virðist vilji til að bjarga Feneyjum og að peninga sé von úr sjóðum Ítalíu eða Evrópusambandsins til að skapa nýja og sjálfbærari framtíð í þessari fyrrum voldugu heimsborg. 

Sjálfa tekin á Rialto-brúnni. Baksviðið ómótstæðiegt – MYND: ÓJ

Tekst að verja stolt samfélag Feneyinga, sögulegar minjar, fegurð og þokka þessarar einstöku borgar, fyrir stöðugri áreitni og nærgöngulli hrifningu fólks úr öllum heimshornum? Það er stóra spurningin.

Segja má að fegurð og þokka Feneyja sé ógnað alla daga af eyðandi hrifningu gestanna.

Mannmergð um miðjan dag – MYND: ÓJ

Tíðindamaður Túrista kom fyrst til Feneyja í dagsferð 2009 – í bankahruninu – skannaði borgina á góðum degi, en var ákveðinn að snúa aftur, skoða betur – dvelja lengur. Sá draumur rættist í vor – á fyrsta eðlilega árinu eftir heimsfaraldur.

Gondólaræðarar á snjallsímaöld – MYND: ÓJ

Í fáum orðum sagt, þá ollu Feneyjar ekki vonbrigðum. Þetta er ótrúlega falleg og mögnuð borg. Íbúarnir og allir sem leita þurfti til um þjónustu og afgreiðslu voru vinsamlegir og hjálplegir. Það er allt önnur upplifun að gista í Feneyjum og hafa skipulagt ferðina þangað vel en koma í stutta dagsferð. Í stað þess að þola mikil þrengsl og raðir, fær næturgesturinn að njóta þess besta: friðarins sem færist yfir þegar stærstur hluti túrista og afgreiðslu- og þjónustufólks sem vinnur þarna er farinn yfir sundið á meginlandið.

Á ferð í gondóla um Canal Grande – MYND: ÓJ

Töfrar Feneyja í samanburði við aðrar borgir felast auðvitað ekki síst í því að þarna eru engir bílar, engin mótorhjól, engin mengun frá þessum farartækjum – hvorki hljóð né útblástur. Einn og einn Taxi-bátur siglir um síkin en aðallega þó gondólar, sem eru auðvitað dásamleg og rómantísk farartæki, oft stýrt af bráðskemmtilegum mönnum, eins og Alvise, sem er fimmta kynslóð gondolier. Mjúklega og af öryggi þræddi hann sýkin á glæstum gondóla með okkur farþegana í mjúkum sætum. Alvise og félagar hans fagna komu ferðamanna eftir mögur Covid-árin en bissnissinn er hægur í marsmánuði. 

Alvise beygir sig á leið undir síkisbrú – MYND: ÓJ

Það var fremur svalt þessa vordaga en oftast bjart: Frábær tími til að heimsækja Feneyjar, sigla út í eyjarnar Murano og Burano í lóninu utan borgarinnar, stökkva inn í Markúsarkirkjuna og Hertogahöllina á fyrirfram keyptum miðum á netinu. Ósköp var gott að þurfa ekki að standa í röðunum löngu fyrir utan þessar byggingar sem mikilvægt og gaman er að skoða.

Feneyskur skipstjóri bíður næstu ferðar – MYND: ÓJ
Túristar og skakki turninn í Burano – MYND: ÓJ

Það er líka upplagt að kaupa miða í ferjurnar sem flytja fólk milli borgarhluta. Útsýnið úr ferjunum er betra en maður á að venjast úr venjulegum strætóferðum. Það má alltaf finna hverfi, götur eða torg þar sem fáir eru á ferli, sjá íbúana sinna störfum sínum og daglegu vafstri.

Engir bílar, enginn hávaði. 

Þvottadagur í Feneyjum – MYND: ÓJ
Feneyingar spjalla á Via Garibaldi – MYND: ÓJ
Grænmeti og ávextir á Via Garibaldi – MYND: ÓJ

Feneyjar eru óendanlega dýrmætur staður, fögur og tilkomumikil borg, einstök í öllu tilliti. Það er nauðsynlegt að undirbúa sig vel fyrir heimsókn þangað: velja hótel af kostgæfni, kaupa miða inn í þær merku byggingar sem krefjast aðgangseyris, bóka og kaupa skoðunarferðir, setja niður einhver drög að því sem maður vill skoða og upplifa.

Tilbúin á ballið – MYND: ÓJ

Og svo þegar komið er á staðinn – til Feneyja – verður gesturinn að muna einfaldlega eftir því að anda rólega og njóta lífsins í hægum takti.  

Kvöld á Canal Grande – MYND: ÓJ
Smókpása – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …