Samfélagsmiðlar

Fegurð og þokki – eyðandi hrifning

Feneyjar eru einstök borg, fögur og sögurík, sem troðningstúrismi hefur gengið nærri. Flestir eru sammála um að bregðast verði við eyðandi ágangi og hrifningu gesta. Í húfi er tilvera íbúanna, öll mannvirki og sjálfur staðarandinn. TÚRISTI fór í vorferð til Feneyja og heillaðist af borginni - friðsældinni á kvöldin og notalegu viðmóti íbúa.

Stoltir Feneyingar

Stoltir gondolieri í Feneyjum. Ungi Alvise til vinstri

Enn hefur borgaryfirvöldum í Feneyjum ekki tekist að koma á innheimtu gjalds af öllum þeim milljónum gesta sem streyma til borgarinnar. Síðast var fyrirhugað að hefja gjaldtökuna 16. janúar síðastliðinn. Innheimta átti þrjár til sex evrur eftir árstíðum af hverjum þeim sem kæmi til borgarinnar. Gert var ráð fyrir að allir sem vildu til Feneyja þyrftu að skrá sig fyrirfram – hvort sem komið væri með almenningsfarartækjum eða á eigin farkosti.

Taxi í Feneyjum – MYND: ÓJ

Ekki tókst yfirvöldum í Feneyjum að koma þessu heim og saman í tæka tíð og frestuðu því gjaldtökunni um óákveðinn tíma. Óvíst er að nokkur verði rukkaður við komuna til borgarinnar á þessu ári. Hinsvegar er frágengið að allir farþegar sem fljúga frá Marco Polo-flugvelli við Feneyjar þurfa að greiða 2.50 evrur í  aukagjald við brottförina frá 1. apríl 2024. Ekki verður sagt að þessi gjaldtaka sé mikil en þó verður að taka með í reikninginn að þessir flugfarþegar hafa margir greitt áður sjö evru gistináttagjald fyrir hverja nótt sem þeir dvöldu á hóteli í Feneyjum.  

Verkamaður heldur heim á leið – MYND: ÓJ
Hreinsunarstarf á Markúsartorgi – MYND: ÓJ

Þessi gjöld sem þegar eru innheimt og önnur sem borgaryfirvöldin eru hikandi við að leggja á, hugsanlega vegna þess að þau vita ekki almennilega hvernig eigi að annast framkvæmdina, breyta í raun afar litlu um vanda Feneyja. Þessi töfrandi borg er og verður með mikið aðdráttarafl og mun á meðan hún stendur soga til sín fjölda gesta.

Ein leiðin til að takmarka fjöldann sem fer um götur og síki Feneyja væri að selja tiltekinn fjölda aðgöngumiða eins og gert er í skemmtigörðum. En með því væri viðurkennt að Feneyjar eru ekki lengur frjáls borg heldur lokaður garður. 

Kaupmaður í Feneyjum – MYND: ÓJ

Það er engin einföld lausn á vanda Feneyja: troðningstúrismanum sem hrakið hefur íbúana á brott, breytt venjulegum íbúðum í leigupláss fyrir túrista.

Svo eru það hallirnar og glæsihýsin þar sem vel megandi Feneyingar bjuggu áður. Ríkir Mílanó-búar eða útlendingar hafa keypt þessi hús hvert af öðru af því að það er svo ljómandi skemmtilegt að eiga hús við rómantísk síki Feneyja og gista þar í viku, tvær eða þrjár á ári, halda veislur fyrir ættingja og viðskiptavini. Allt stuðlar þetta að dauða Feneyja. Nú búa einungis um 55 þúsund manns í gömlu borginni en um 260 þúsund á öllu Veneto-svæðinu: í Padua, Treviso og Feneyjum. Ferðamenn á hverju ári teljast hinsvegar um 20 milljónir á venjulegu ári en gistinætur aðeins um 13 milljónir.

Þjónar spjalla á Markúsartorgi – MYND: ÓJ
Túristar á Markúsartorgi – MYND: ÓJ

Fólkið sem íbúarnir, borgaryfirvöldin og allir unnendur Feneyja hafa mestar áhyggjur af eru daggestir. Fólk sem kemur að morgni, röltir að Rialto-brúnni og þaðan á Markúsartorgið og svo til baka. Þessi gestir skilja mjög lítið eftir sig í peningum en þeir valda miklu álagi á alla innviði og tilvera þeirra spillir að einhverju leyti upplifun hvers og eins þeirra – og allra hinna. 

„Fylgið mér“ – MYND: ÓJ
Gettóið – MYND: ÓJ

Auðvitað liggur vandi Feneyja eins og svo margra annarra vinsælla áfangastaða túrista í því að flugmiðar hafa verið ódýrir. Fólk hefur getað farið í stuttar ferðir eiginlega hvert sem er – látið draumana rætast án mikils tilkostnaðar. Um 65 milljónir ferðamanna koma til Ítalíu á ári hverju. Túristarnir streyma frá Mílanó, Garda eða Como, Cinque Terre, Rimini, Flórens og jafnvel Róm – bara til að afgreiða Feneyjar. Fólk vill geta sagst hafa komið þangað. Það kemur með lest eða ekur þangað á bílaleigubílum eða í rútum. Svo er það heimafólkið, Ítalirnir sjálfir – flestir vilja heimsækja Feneyjar a.m.k. einu sinni. 

Ímynd og veruleiki í Feneyjum – MYND: ÓJ

Þegar líður á daginn fyllast göturnar, brýrnar og bakkarnir við sýkin og flóann. Þúsundir standa á Markúsartorgi, miklar raðir myndast fyrir framan Markúsarkirkjuna og Hertogahöllina, fólk streymir um aðliggjandi verslunargötur.

Feneyingar losuðu sig við skemmtiferðaskipin, sem gnæfðu yfir borgina þegar þau lögðu að. Þeir mótmæltu ákaft komum þessara risavöxnu skipa og stríðum straumi farþega úr þeim – fólks sem keypti kannski eina Gucci-tösku eða Prada-sólgleraugu en aðallega nokkra minjagripi og saup úr einu glasi á Florian á Markúsartorgi áður en farið var aftur um borð. Á endanum unnu íbúarnir sigur – varnarsigur.

Hressing á Florian – MYND: ÓJ

UNESCO beitti sér gegn komum skemmtiferðaskipa til Feneyja og ítölsk yfirvöld bönnuðu loks árið 2021 ferðir skipanna upp Guidecca-skurðinn, þaðan sem leiðin liggur að Markúsartorginu eftirsótta. Brotthvarf skemmtiferðaskipanna úr borgarmynd Feneyja dregur úr raskinu á tilveru íbúanna og bætir til muna upplifun gesta í borginni.

Það er hægt að stjórna straumi ferðafólks. Það er hægt að koma í veg fyrir að Feneyjar verði troðnar niður. 

Stöðugur straumur túrista inn í Feneyjar – MYND: ÓJ

Það átti að nota tímann í heimsfaraldrinum til að móta Feneyjum nýja framtíð í ferðaþjónustu, finna sjálfbærari leiðir – koma í veg fyrir að borgin yrði skemmtigarður þar sem ljósin væru slökkt á kvöldin. Þó Feneyingar sjálfir kvarti og kveini eðlilega undan þunga túrismans þá vita þeir vel að borgin getur ekki verið án túrista. Samgöngutækin eru kostuð af innkomunni frá túristum. Íbúarnir einir gætu ekki haldið þeim gangandi, En eitt af því sem stuðlað getur að meiri sjálfbærni ferðaþjónustunnar í Feneyjum er ef tekst að dreifa ferðafólkinu víðar, draga fleiri út í Lídó eða eyjarnar í lóninu fyrir utan.

Litskrúðug húsin í Burano – MYND: ÓJ
Eftir vel heppnaða siglingu út í eyjar í lóninu fyrir utan Feneyjar – MYND: ÓJ

Það er talað um að setja mörk á Airbnb-íbúðir og krefjast búsetu af þeim sem kaupa þarna íbúðir eða húseignir. Það virðist vilji til að bjarga Feneyjum og að peninga sé von úr sjóðum Ítalíu eða Evrópusambandsins til að skapa nýja og sjálfbærari framtíð í þessari fyrrum voldugu heimsborg. 

Sjálfa tekin á Rialto-brúnni. Baksviðið ómótstæðiegt – MYND: ÓJ

Tekst að verja stolt samfélag Feneyinga, sögulegar minjar, fegurð og þokka þessarar einstöku borgar, fyrir stöðugri áreitni og nærgöngulli hrifningu fólks úr öllum heimshornum? Það er stóra spurningin.

Segja má að fegurð og þokka Feneyja sé ógnað alla daga af eyðandi hrifningu gestanna.

Mannmergð um miðjan dag – MYND: ÓJ

Tíðindamaður Túrista kom fyrst til Feneyja í dagsferð 2009 – í bankahruninu – skannaði borgina á góðum degi, en var ákveðinn að snúa aftur, skoða betur – dvelja lengur. Sá draumur rættist í vor – á fyrsta eðlilega árinu eftir heimsfaraldur.

Gondólaræðarar á snjallsímaöld – MYND: ÓJ

Í fáum orðum sagt, þá ollu Feneyjar ekki vonbrigðum. Þetta er ótrúlega falleg og mögnuð borg. Íbúarnir og allir sem leita þurfti til um þjónustu og afgreiðslu voru vinsamlegir og hjálplegir. Það er allt önnur upplifun að gista í Feneyjum og hafa skipulagt ferðina þangað vel en koma í stutta dagsferð. Í stað þess að þola mikil þrengsl og raðir, fær næturgesturinn að njóta þess besta: friðarins sem færist yfir þegar stærstur hluti túrista og afgreiðslu- og þjónustufólks sem vinnur þarna er farinn yfir sundið á meginlandið.

Á ferð í gondóla um Canal Grande – MYND: ÓJ

Töfrar Feneyja í samanburði við aðrar borgir felast auðvitað ekki síst í því að þarna eru engir bílar, engin mótorhjól, engin mengun frá þessum farartækjum – hvorki hljóð né útblástur. Einn og einn Taxi-bátur siglir um síkin en aðallega þó gondólar, sem eru auðvitað dásamleg og rómantísk farartæki, oft stýrt af bráðskemmtilegum mönnum, eins og Alvise, sem er fimmta kynslóð gondolier. Mjúklega og af öryggi þræddi hann sýkin á glæstum gondóla með okkur farþegana í mjúkum sætum. Alvise og félagar hans fagna komu ferðamanna eftir mögur Covid-árin en bissnissinn er hægur í marsmánuði. 

Alvise beygir sig á leið undir síkisbrú – MYND: ÓJ

Það var fremur svalt þessa vordaga en oftast bjart: Frábær tími til að heimsækja Feneyjar, sigla út í eyjarnar Murano og Burano í lóninu utan borgarinnar, stökkva inn í Markúsarkirkjuna og Hertogahöllina á fyrirfram keyptum miðum á netinu. Ósköp var gott að þurfa ekki að standa í röðunum löngu fyrir utan þessar byggingar sem mikilvægt og gaman er að skoða.

Feneyskur skipstjóri bíður næstu ferðar – MYND: ÓJ
Túristar og skakki turninn í Burano – MYND: ÓJ

Það er líka upplagt að kaupa miða í ferjurnar sem flytja fólk milli borgarhluta. Útsýnið úr ferjunum er betra en maður á að venjast úr venjulegum strætóferðum. Það má alltaf finna hverfi, götur eða torg þar sem fáir eru á ferli, sjá íbúana sinna störfum sínum og daglegu vafstri.

Engir bílar, enginn hávaði. 

Þvottadagur í Feneyjum – MYND: ÓJ
Feneyingar spjalla á Via Garibaldi – MYND: ÓJ
Grænmeti og ávextir á Via Garibaldi – MYND: ÓJ

Feneyjar eru óendanlega dýrmætur staður, fögur og tilkomumikil borg, einstök í öllu tilliti. Það er nauðsynlegt að undirbúa sig vel fyrir heimsókn þangað: velja hótel af kostgæfni, kaupa miða inn í þær merku byggingar sem krefjast aðgangseyris, bóka og kaupa skoðunarferðir, setja niður einhver drög að því sem maður vill skoða og upplifa.

Tilbúin á ballið – MYND: ÓJ

Og svo þegar komið er á staðinn – til Feneyja – verður gesturinn að muna einfaldlega eftir því að anda rólega og njóta lífsins í hægum takti.  

Kvöld á Canal Grande – MYND: ÓJ
Smókpása – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …