Samfélagsmiðlar

Fimm stjörnu veisla í Flatey á Skjálfanda

Flogið var með erlenda gesti í fjórum þyrlum út í Flatey á Skjálfanda í gærkvöld þar sem þeirra beið glæsileg veisla sem starfsfólk Gentle Giants á Húsavík hafði undirbúið. Stefán Guðmundsson, skipstjóri og eigandi Gentle Giants, segist bjartsýnn á að sumarið verði gott fyrir norðan.

Hús Gentle Giants í Flatey á Skjálfanda

„Þetta var náttúrulega bráðskemmtilegt. Við erum auðvitað ánægð þegar fólk er tilbúið að fara út í þessa paradís og njóta þess sem við höfum þar upp á að bjóða,“ segir Stefán Guðmundsson og er mjög sáttur með hvernig til tókst í Flatey í gær.

Stefán (lengst til vinstri á myndinni) ásamt félögum við Flatey í gærkvöld – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

„Við fengum pöntun með tiltölulega stuttum fyrirvara frá aðila sem við höfum unnið töluvert með um Flateyjarferð þennan dag. Þetta kemur upp óvenju snemma árs. En þegar leysa þarf eitthvert verkefni þá gerum við það með sóma. Fyrst stóð til að farþegar flygju til Húsavíkur og færu með okkur í bátum út í eyna en við fögnuðum því þegar planinu var breytt. Það hefur verið nístingskalt á Skjálfanda síðustu daga.

Ein þyrlanna í Flatey – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Úr varð að um 20 gestir okkar voru fluttir með fjórum þyrlum á tilteknum tíma út í Flatey. Síðan fóru þyrlurnar aftur til Akureyrar að sækja eldsneyti og sóttu síðan gestina síðar um kvöldið og flugu með þá burt.“

Hvað beið þessara gesta í Flatey?

„Við fórum út í Flatey snemma í gærmorgun á tveimur bátum, sem óskað hafði verið eftir: trébátnum Faldi ÞH og einum RIB-bátnum okkar, Ömmu Helgu ÞH. Þetta voru 10 manns, áhafnir bátanna, kokkar og þjónar, starfsfólk Gentle Giants. Við gerðum allt klárt.

Allt klárt fyrir gestina – og nikkan þanin á hlaðinu – MYNDIR: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Þegar gestirnir svo komu var haft ofan fyrir þeim og síðan gengið til veislu. Eftir matinn var farið í sjóstangaveiði í logninu við Flatey. Allir fóru með bros á vör til baka.“

Umræddir gestir eru á ferð um Ísland, fara á vel valda staði, gjarnan í þyrlum, og njóta margs þess besta sem ferðaþjónustan hefur að bjóða. Stefán hjá Gentle Giants orðar það snyrtilega þegar hann segir að þessir gestir séu úr „efri hillum“ í efnalegu tilliti.

„Eins og fólk veit í þessum bransa þá eru hillurnar nokkuð margar. Undanfarna áratugi hef ég alltaf sagt að við þurfum á öllum hillunum að halda – öllum tegundum ferðamanna. Þarna vorum við að vinna með fólki úr efstu hillu og það er auðvitað bæði mjög skemmtilegt og sérstaklega krefjandi. En við gerum okkar besta eins og alltaf.“

Þú ert sáttur hvernig til tókst í gærkvöld?

„Þetta gekk eins og í sögu og skýrist af því að mannskapurinn hefur gert þetta í mörg ár. Við vitum hvernig umgjörðin á að vera og hvernig halda skal á málum.“

Kokkar og þjónar bíða gesta – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Veislan í gærkvöld fór fram í húsi í Flatey þar sem áður var járnsmiðja langafa Stefáns og sambyggt lifrarsamlag. Stefán og félagar endurbyggðu þessi hús og voru þau tekin í notkun fyrir einu ári.

„Húsin voru einmitt hugsuð þannig að hægt væri að taka á móti hópum fólks sem vill gera sér dagamun í Flatey og njóta þar veitinga. Síðasta sumar bauð veðrið ekki upp á að margir færu þangað en nú erum við vongóð. Þegar hafa nokkrir hópar bókað Flateyjarferð í sumar til að njóta þess sem við höfum þar að bjóða, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn.“

Gentle Giants hafa um árabil sinnt hvalaskoðun og skoðunarferðum á Skjálfanda en Stefán er með skýra sýn hvað varðar ferðaþjónustu í Flatey.

„Við viljum ekki að í Flatey verði fjöldasamkomur, heldur hafa þetta allt í minni sniðum en víða tíðkast núorðið.“

Móttökuhúsið í Flatey – MYND: Stefán Guðmundsson/Gentle Giants

Hvernig horfir sumarið við ykkur? Hafa margir bókað ferðir í hvalaskoðun frá Húsavík?

„Bókanir fyrir sumarið líta vel út. Svo verður auðvitað tíðarfarið að ráða hvernig vinnst úr því. En við erum tiltölulega bjartsýn – og alveg í skýjunum með það að geta aukið víddina í okkar starfi með þessu nýja húsi í Flatey og þeirri aðstöðu sem það býður upp á.“

Nýtt efni
Kauphöllin

Hlutabréfavísatalan Stoxx Europe 600 náði sína hæsta gilda á föstudaginn og hefur þá hækkað um nærri 70 prósent frá því mars 2020 þegar vísitala fór lægst í upphafi heimsfaraldursins. Vísitala Bloomberg sem fylgist með gengi evrópskra flugfélaga hefur á sama tíma hækkað um 23 prósent. Af stóru evrópsku flugfélögunum er Ryanair það eina þar sem …

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …