Samfélagsmiðlar

Hlutfall tengifarþega hefur dregist verulega saman hjá Icelandair

Á sama tíma og íslenskir ráðamenn reyna að efla skilning Evrópusambandsins á mikilvægi tengiflugs um Ísland þá hefur vægi tengifarþega lækkað verulega hjá Icelandair. Það á líka við Keflavíkurflugvöll almennt.

Íslenskir farþegar sitja nú í fleiri sætum en áður var í þotum Icelandair.

Það var við fall Wow Air sem stjórnendur Icelandair fóru að upplýsa mánaðarlega hvernig farþegahópurinn skiptist eftir því hvort um er að ræða fólk búsett á Íslandi, ferðamenn á leið til Íslands eða farþega sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli, svokallaðir tengifarþegar. Áður voru þessar upplýsingar aðeins birtar í ársfjórðungslegum uppgjörum.

Fyrstu flutningatölurnar eftir gjaldþrot helsta keppinautarins, fyrir mars 2019, innihéldu þessa þrískiptingu en vegna heimsfaraldursins var lítið gagn í upplýsingunum fyrir fyrsta ársfjórðung árin 2020 til 2022.

Núna er ástandið hins vegar orðið eðlilegt á ný og út frá flutningatölum fyrsta ársfjórðungs má sjá að samtals nýttu 602 þúsund farþegar sér millilandaflug Icelandair. Af þeim voru tengifarþegarnir 176 þúsund eða rétt um 29 prósent af heildinni.

Þetta er mun lægra hlutfall en áður. Á árunum 2015 til 2017, þegar rekstur Icelandair gekk best, þá var hlutfallið 34 til 42 prósent eins og hér má sjá.

Mikil eftirspurn vestanhafs

Aðspurður um þessar breytingar segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, að þær skrifist helst á mikla eftirspurn eftir Íslandsferðum í Norður-Ameríku.

„Styrkur Icelandair liggur helst í því að leiðakerfið og uppsetning sölunnar gerir okkur kleift að aðlaga okkur að eftirspurn hverju sinni. Nú er til dæmis sterk eftirspurn eftir flugi til Íslands frá Norður-Ameríku, sem skýrist meðal annars af sterku gengi Bandaríkjadals. Þetta er helsta ástæðan fyrir því að tengifarþegar eru færri en á því tímabili sem þú vísar til en salan til Íslands meiri,“ segir Guðni.

Miklu fleiri Íslendingar

Til viðbótar við ofannefndan meðbyr á bandaríska markaðnum þá er óhætt að fullyrða að Icelandair leggi í dag miklu meiri áherslu á að fljúga Íslendingum út í heim en gert var áður. Tíðar ferðir til Tenerife og Alicante eru dæmi um slíkt en á fyrsta fjórðungi þessa árs var vægi farþega, sem búsettir eru á Íslandi, 23 prósent. Svo hátt þetta hlutfall aldrei á síðasta áratug, það var til að mynda aðeins 12 prósent á fyrsta ársfjórðung árið 2017 en þá skilaði Icelandair síðast hagnaði.

Ráðherrar í tímapressu vegna tengiflugs

Á sama tíma og þessar breytingar hafa orðið þá vinna íslenskir ráðamenn að því að sannfæra Evrópusambandið um að Ísland verði að fá undanþágur frá nýjum og hertari reglum um losunarheimildir. Ef reglurnar verða teknar óbreyttar upp á EES-svæðinu þá er það mat stjórnenda Icelandair og Play að millilending á Íslandi verði of dýr kostur þegar ferðast er milli Evrópu og Norður-Ameríku. Og án tengifarþega geta félögin ekki boðið Íslendingum og erlendum ferðamönnum upp á eins tíðar ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli.

Líka fækkun í Leifsstöð

Wow Air gerði líka út á þessa tengifarþega á sínum tíma en þar sem flugfélag Skúla Mogensen var ekki skráð á hlutabréfamarkað þá þurfti það ekki að upplýsa um gang mála með sama hætti og Play gerir.

Það getur verið þröngt á þingi í Leifsstöð á háannatíma. – Mynd: ÓJ

Það sést þó á farþegatölum Isavia að vægi tengifarþega í Leifsstöð er mun lægra í dag en það var á árum áður.

Tökum sem dæmi fyrsta ársfjórðung árið 2016 en þá var Wow Air álíka stórt og Play er í dag. Þá var hlutfall tengifarþega 21 prósent fyrstu þrjá mánuðina en núna er hlutfallið aðeins 17 prósent. Ef við horfum til metársins 2018 þá voru tengifarþegarnir 28 prósent af heildinni á fyrsta ársfjórðungi.

Hvort Icelandair og Play ætli að sækja meira inn á tengiflugsmarkaðinn í vor og sumar á eftir að koma í ljós en takmörkuð afkastagesta íslenskrar ferðaþjónustu neyðir í raun félögin til að breyta áherslunni. Forstjóri Play gaf það reyndar út eftir síðustu sumarvertíð að hlutfall tengifarþega yrði að fara niður á við. Það hafi verið of hátt sl. sumar og því hafi tekjuáætlun félagsins ekki staðist.

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …