Samfélagsmiðlar

Metnaðarfull áform Volkswagen

Undirritaðir hafa verið samningar milli Volkswagen og ríkisstjórnar Kanada um byggingu risastórrar verksmiðju sem á að geta framleitt rafhlöður í milljón bíla á ári. Samningurinn styrkir verulega stöðu Kanadamanna í bílaiðnaði og verður stærsta rafhlöðuverksmiðja Volkswagen, sem á dögunum kynnti nýjan langdrægan rafbíl: ID.7.

VW ID.7

VW ID.7

Stjórnendur þýska bílaframleiðandans Volkswagen eru stoltir af nýjasta afkvæmi rafbílavæðingarinnar ID.7 og vonast til að þessi bíll sem fer í sölu síðar á árinu veiti Tesla, BMW, Mercedes og Polestar samkeppni um hylli kröfuharðra kaupenda. Bíllinn er kynntur til sögunnar á sama tíma og samkeppnin hefur harðnað verulega og fólk almennt er gætið í bílakaupum. 

VW ID.7 að innan – MYND: Volkswagen

Þegar ID.7 var frumsýndur í nokkrum borgum nýverið kom skýrt fram að þessi nýi rafbíll yrði fánaberi Volkswagen og kæmi á göturnar í Evrópu og Kína í haust en í Bandaríkjunum á næsta ári. Þjóðverjarnir eru stoltir af þessum nýja bíl.

Um væri að ræða glæsibíl með mikla drægni og vandaða innréttingu. Hann er að grunni til svipaður forverum sínum ID.3 og ID.4 en er með nýjan 210kW rafmótor og afkastamikið framhjóladrif. Volkswagen segir að ID.7 eigi að geta komist um 700 km á fullri hleðslu en þar ræður veður og aksturslag auðvitað miklu. 

ID.7 kynntur til sögunnar – MYND: Volkswagen

Volkswagen stefnir ótrautt að því marki að framleiða eingöngu rafbíla. Fyrirtækið seldi 600 þúsund rafbíla á síðasta ári en þessi stærsti bílaframleiðandi Evrópu er þó enn aðeins hálfdrættingur á við Tesla í sölu rafbíla. Hjá Volkswagen ríkir bjartsýni og ætlar fyrirtækið sér ná 80 prósentum af evrópska rafbílamarkðanum árið 2030. Aðeins þremur árum síðar, 2033, mun Volkswagen einungis framleiða rafbíla. Á næstu þremur árum er fyrirhugað að framleiða 10 nýjar tegundir rafbíla. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra, ásamt fulltrúum Ontario og PowerCo SE við undirritun á föstudag – MYND: Volkswagen

Ef einhver efaðist um metnaðarfullar áætlanir Volkswagen um að verða meðal þeirra sem leiða rafbílavæðingu heimsins hefur sá hinn sami kannski sannfærst þegar tilkynnt var í gær um samning þýska bílaframleiðandans við alríkisstjórn Kanada um að reisa risastóra verksmiðju PowerCo SE, rafhlöðuframleiðanda VW, í bænum St. Thomas í Ontario-fylki sem framleiða á rafhlöður. Heildarfjárfestingin nemur um 20 milljörðum Kanadadollara og leggur Volkswagen til um 7 milljarða til uppbyggingarinnar. Þetta verður stærsta rafhlöðuverksmiðja þýska bílaframleiðandans. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra, segir að með þessu sé verið að treysta til muna framleiðslukeðjuna í landinu tengda rafbílum. Væntanleg verksmiðja í Ontario eigi eftir að framleiða milljónir rafhlaðna sem nýtist í bílaframleiðslu Kanadamanna og fjárfesting ríkisins muni á aðeins fimm árum skila sér í auknum efnahagsumsvifum.

Fyrirhuguð rafhlöðuverksmiðja PowerCo SE í St.Thomas í Ontario – MYND: Volkswagen

Ontario er fjölmennasta fylki Kanada og þar eru mestu efnahagslegu umsvifin. Stærstu borgirnar eru Toronto og Ottawa. Í St.Thomas búa hinsvegar aðeins rúmlega 40 þúsund manns. Bæjarstjórinn þar segir að framtíðin sé tryggð með komu fyrirhugaðrar rafhlöðuverksmiðju Volkswagen en hún á eftir að veita um 3.000 ný störf. Verksmiðjan verður í aðeins um 200 km fjarlægð frá bílaborginni Detroit, handan landamæranna, og verður sú stærsta í Kanada þegar hún verður komin í fullan gang. Verksmiðjan á að geta framleitt rafhlöður í allt að milljón rafbíla á ári og mun njóta bandarískra framleiðslustyrkja til vistvænnar framleiðslu, samkvæmd lögum sem Biden-stjórnin fékk samþykkt sem ráðstöfun gegn verðbólgu í landinu. 

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …