Samfélagsmiðlar

Stefnt að því að styrkja núverandi kerfi

„Orka náttúrunnar hefur lagt mesta áherslu á að koma á hleðslu þar sem bílar standa óhreyfðir - við heimili, úti í íbúðahverfum og við vinnustaði. Að fólk þurfi ekki að stoppa til að hlaða - heldur hlaði þegar það stoppar. Þessi hluti kerfisins hefur stækkað mest undanfarin tvö ár," segir Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hleðsluþjónustu ON, í viðtali við TÚRISTA.

Guðjón Hugberg Björnsson

Afgerandi þáttur í hraða rafbílavæðingar er hversu þéttriðið net hleðslustöðva er á landinu. Ef kostur er á heimahleðslu dugar hún til hversdagsnota, annars þarf að styðjast við uppsettar hleðslustöðvar í nærumhverfi. Ef aka á milli landshluta þarf að vera fullvissa um að komast í hleðslu í tæka tíð. Á heimasíðu FÍB er kort sem sýnir hvar hleðslustöðvar er að finna á landinu. 

Orka náttúrunnar (ON), dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, er umsvifamesti seljandi raforku á ökutæki og starfrækir hleðslustöðvar um allt land. Túristi hitti Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóra hleðsluþjónustu ON, í aðalstöðvunum Orkuveitunnar uppi á Bæjarhálsi, en þar er að finna hraðhleðslustöðvar sem stöðugt eru í notkun. 

„ON leggur mikla áherslu á þennan þátt viðskipta í sínu markaðsstarfi gagnvart fyrirtækjum, einstaklingum og ferðafólki,” segir Guðjón aðspurður um hversu mikla áherslu fyrirtækið leggi á þennan hluta starfseminnar.

Fólk er óþolinmótt, vill sjá hraða uppbyggingu hleðslustöðva á landinu. Þið eruð þá í eilífu kapphlaupi við að mæta eftirspurninni?

„Það má ekki byggja of hratt upp. Þá verður búnaðurinn orðinn of gamall þegar bílarnir koma. Á síðasta ári varð mjög mikill stígandi í fjölgun rafbíla en innviðir uxu ekki alveg jafnhliða.

Hraðhleðsla á Bæjarhálsi – MYND: ÓJ

Hinsvegar er hleðsla nýju bílanna betri en þeirra eldri. Þeir nýta því innviðina betur. Það hjálpaði mikið. Eldri bílar gátu þurft að nýta margar hleðslustöðvar milli Reykjavíkur og Akureyrar en þeir nýrri þurfa kannski að stöðva einu sinni til að hlaða.”

Hvernig horfir sumarið við ykkur?

„Við erum búin að styrkja þær hleðslustöðvar sem fyrir eru – þar sem heimtaugar leyfa það og hægt er að auka orkuflutning. Ég held að mest reyni á kerfið um ferðahelgarnar fyrir almenn sumarfrí. Þegar flestir eru farnir í sumarfrí verður þetta þægilegra. Hleðslan dreifist miklu meira. Fólk ferðast þá alla daga vikunnar og lendir síður í röðum við hleðslustöðvarnar. Það er hinsvegar alltaf hætta á því að raðir myndist síðdegis á föstudögum og sunnudögum.”

Hkeðslustöðvar ON – MYND: ON

Verður hleðslustöðum við þjóðveginn fjölgað?

„Nei, við erum aðallega að vinna að því að fjölga tengjum á þeim stöðum þar sem við erum fyrir. ON á þó eftir að byggja upp nokkra staði til viðbótar, sérstaklega á Suðurlandi, en það verður ekki fyrir komandi ferðasumar. Ljúka þarf skipulagsvinnu, sækja um heimtaugar, setja upp spennustöðvar og ganga frá ýmsu áður en ný hleðslustöð verður sett upp.”

Menn sjá þá ekki miklar breytingar hleðslustöðvakerfi ON á næstu mánuðum?

„Við stefnum að því að styrkja kerfið eins og við getum fyrir sumarið, bæta við hleðslustöðvum – þar sem eitthvert svigrúm er í heimtaugum og við getum sótt meira rafmagn.”

Þetta er ekki jafn einfalt og að stinga hraðsuðukatli í samband. Hleðslustöð fyrir bíla þarf öflugar tengingar við orkuflutningskerfið.

„Já, bæði öflugar og dýrar tengingar. Reksturinn er líka kostnaðarsamur. Ein hraðhleðslustöð nýtir um hálft megavatt og nýting getur verið u.þ.b. 20 prósent. Það þarf því mikla innviði fyrir litla nýtingu. Þetta er langhlaup. Það þarf þolinmæði. Við erum að horfa fram í tímann og sjáum fyrir okkur að þessi fjárfesting skili sér. Vanda verður til verka svo það gerist og gæta þess að fara ekki of geyst í fjárfestingar.”

Hleðsla í íbúðahverfi – MYND: ON

Tengingum við heimahús fjölgar stöðugt og það hlýtur að minnka álagið á hraðhleðslustöðvum.

„ON hefur lagt mesta áherslu á að koma á hleðslu þar sem bílar standa óhreyfðir – við heimili, úti í íbúðahverfum og við vinnustaði. Að fólk þurfi ekki að stoppa til að hlaða – heldur hlaði þegar það stoppar. Þessi hluti kerfisins hefur stækkað mest undanfarin tvö ár.”

Það er flókið verkefni og dýrt að að setja upp hraðhleðslustöð einhvers staðar við þjóðveginn – segjum í Vatnsdal eða Öxarfirði?

„Það er ekki hægt að ganga að því vísu að rafmagn sé fyrir hendi hvarvetna við alla þjóðvegi en það er nokkuð gott hér á landi. Sá hluti þjóðvegarins sem er með síst aðgengi er leiðin frá Mývatni að Egilsstöðum. Ekki er aðgangur að rafmagni á þeirri leið nema einfasa tengingar í Jökuldalnum.

Þegar fólk er óþolinmótt, bíður tengingar, þá verður að að velta fyrir sér heildarmyndinni.

„Ég held að á heildina litið hafi dreifiveiturnar staðið sig mjög vel – veitt þeim þjónustu sem beðið hafa um tengingar. Þetta er ekki alveg sjálfsagt – en gengur ágætlega. Neytendur taka öllu vel sem gert er, nýta stöðvarnar vel. Eru mjög þakklátir.”

Hraðhleðsla á bensínstöð við Miklubraut – MYND: ÓJ

Hvernig sérðu fyrir þér þróunina næstu fimm til tíu árin?

„Tengjum á eftir að fjölga gríðarlega. Stöðvarnar verði með mörg tengi, 4 til 16, og ráði mjög vel við álagstoppa. Flestir ættu að komast hratt að í hleðslu.”

Algengt er að rafbílar sem fólk kaupir í dag komist 300-400 km á fullri hleðslu, einhverjir lengra. Miklar framfarir í rafhlöðum og á hleðsluhraða geta þá væntanega breytt mikið stöðu þessara mála. 

„Ég held að allt sem gert er í dag muni borga sig. Við erum svo stutt á veg komin, erum enn í byrjunarfasanum. Við erum rétt að byrja. Rafhlöðurnar í bílunum eiga eftir að stækka eitthvað en þær mega ekki verða þyngri. Rafhlöður eiga vonandi eftir að léttast og verða ódýrari. Rafhlöður í símum voru stærri fyrir þremur árum en í dag. Fólk þurfti hinsvegar ekki svo stórar rafhlöður og því hættu framleiðendur að setja þær í símana.”

En maður ímyndar sér að allir bílar eigi eftir að komast léttilega á einni hleðslu milli Reykjavíkur og Akureyrar.

„Já, eða að það taki mjög skamman tíma að hlaða bílana. Þeir komist 200 km en hægt verði að endurhlaða þá á mjög skömmum tíma, 15 mínútum eða svo. Þá verður nóg að tengingum og margir að veita þjónustu. Ef bilun er á einum stað ferðu annað. Þegar drægnikvíðinn er horfinn verður fólk tilbúið í málamiðlanir á þessu sviði af því að bíllinn er léttari og ódýrari – og umhverfisvænni.”

Við veltum mikið fyrir okkur þróun rafbílanna en hleðslustöðvarnar þróast líka?

„Stóra breytingin varð með nýjustu stöðvunum okkar frá 2020, sem eru háspenntar, 1000V, geta hlaðið trukka og rútur. Eldri stöðvarnar eru 500V og duga smærri bílum. Við erum farin að sjá stóra trukka nota okkar hleðslunet. Hér fyrir utan stóð í gær mjög stór dráttarbíll í hleðslu. Þeir þurfa mikið rafmagn, taka álíka í einni hleðslu og venjulegur bíll þarf á einum mánuði.”

Það er þrýst á þessari uppbyggingu fyrir rafbíla verði hraðað og flýtt fyrir brotthvarfi bílanna sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Þessi þrýstingur á eftir að vaxa ár frá ári.

„Já og við fögnum því og höfum alltaf gert. Við leiddum lengi framan af uppbyggingu innviða. Það er okkar markmið að rafbílar leysi bensín- og dísilbíla af hólmi – þar sem það er hægt og er skynsamlegt.”

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …