Samfélagsmiðlar

„Þetta gengur alls ekki nógu hratt“

N1 ætlar að fjölga verulega hraðhleðslustöðvum sínum á næstu mánuðum. Þær verða 53 í stað 23. Fyrstu hraðhleðslustöðvar N1 í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri verða að veruleika. Einar Sigursteinn Bergþórsson, forstöðumaður orkusviðs N1, segir þó að rafvæðingin sé ekki nógu hröð, innviðir mæti ekki þörfum markaðarins.

Einar Sigursteinn Bergþórsson, N1

Einar Sigursteinn Bergþórsson

Bensínstöðvar minna okkur á að enn þarf stór hluti bílaflota okkar bensín eða dísilolíu. Að tæpum sjö árum liðnum, eða 2030, verða nýskráningar bensín- og dísilbíla bannaðar. Þeir ættu því flestir að hverfa af götunum á áratugnum þar á eftir. 

N1 stendur á gömlum grunni í sölu jarðefnaeldsneytis Íslandi og býr að víðtæku söluneti sem Olíufélagið hf. hafði byggt upp, bensínstöðvar sem í daglegu tali voru kenndar við Esso. En hvernig gengur gömlum bensín- og olíusala að bregðast við rafvæðingu bílaflotans? TÚRISTI hitti Einar Sigurstein Bergþórsson, forstöðumann orkusviðs N1, í höfuðstöðvum móðurfélagsins, Festi hf. í Kópavogi:

„Það gengur bara vel. Við búum að nokkurra ára reynslu á þessum markaði, settum fyrst upp fyrir fjórum til fimm árum nokkrar hraðhleðslustöðar úti á landi í samstarfi við ON. Þær eru sumar komnar á tíma núna, með búnað sem er að verða úreltur. Það hefur safnast upp mikil reynsla á þessum tíma. Þetta er ný tækni og verið er að þróa búnaðinn sem fylgir.

Allir eru að taka sín fyrstu skref í þessu. Við erum á sama stað og aðrir: Að laga okkur að þróuninni, þreifa okkur áfram og þróast með tækninni. Breyta hefðbundnum bensín- og olíustöðvum í fjölorkustöðvar.”

Mun þetta alltaf fara saman – að rafbílar verði hlaðnir á þessum þjónustustöðvum sem byggst hafa upp vegna sölu á bensíni og olíu?

Hefðbundin bensínstöð sem brátt verður fjölorkustöð – MYND: ÓJ

„Við sjáum fyrir okkur að á meðan þörf er á hvorutveggja, jarðefnaeldsneyti og rafmagni á bíla, þá verði fyrirkomulagið svona. Við seljum líka mat á þessum stöðvum og getum þjónustað fólk á ferð um landið með margvíslegum hætti, ferðamenn og aðra. Hagur okkar liggur í því að bjóða fjölbreytta þjónustu á einum stað. Lóðirnar eigum við og sjáum fyrir okkur meiri uppbyggingu á þeim.”

Gömlu bensínstöðvarnar hafa þá breyst í þjónustumiðstöðvar.

„Það sem við höfum umfram aðra sem eru að setja upp hraðhleðslustöðvar er að við getum boðið viðskiptavininum upp á meiri þjónustu. Þetta eru ekki bara staurar einhvers staðar úti á víðavangi heldur mannaðar stöðvar sem veita mikla þjónustu. Þú getur fengið þér að borða eða notið afþreyingar á meðan þú bíður eftir því að bíllinn hlaði sig. Það getur tekið 30 til 40 mínútur.”

Fjölorkustöðin við Staðarskála – MYND: N1

Sjálft raforkuflutningskerfið setur ykkur eins og öðrum ákveðin mörk. Það er ekki hægt að setja upp hraðhleðslustöð hvar sem er.

„Þetta hefur gert það af verkum að það hefur tekið lengri tíma en við áætluðum að byggja upp hraðhleðslunetið. Við höfum sett okkur að fjölga stöðvunum um 30. Þær eru 23 í dag – á 11 stöðum hringinn í kringum landið. Ætlunin er að styrkja hleðsluinnviði á þessum stöðum og fjölga stöðvum. Við ætlum að setja upp hraðhleðslustöðvar á Akureyri í sumar og fjölga þeim á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir rafbílarnir eru. Við erum með eina stöð í Háholti í Mosfellsbæ. Þar ætlum við að fjölga stöðvum eins og í Borgarnesi og Vík. Þá ætlum við setja upp nýja hraðhleðslustöð við Ártúnshöfða vestanverðan og aðra við nýjan þjónustukjarna í Reykjanesbæ, sem nýst getur bílaleigum og öðrum fyrirtækjum í grenndinni.”

Þið eruð því að hefja uppbyggingu hraðhleðslustöðva í Reykjavík, á Akureyri og í Reykjanesbæ en eruð með stöðvar í Mosfellsbæ og í Kópavogi. Af hverju veljið þið að hefja þessa þjónustu í úthverfum höfuðborgarsvæðisins?

„Það er margt sem þarf til að þetta gangi upp. Á sumum stöðum hafa verið vandamál varðandi byggingarleyfi, ýmis vandkvæði í borgarskipulagi gagnvart okkur hafa tafið uppbygginguna töluvert. Svo hefur tekið sinn tíma að fá veitufyrirtæki til að útvega nýjar heimtaugar. Biðtími eftir þeim getur verið eitt ár eða lengri tími. Við sjáum auðvitað að þörfin er mikil í Reykjavík og þess vegna ráðumst við í að setja upp nýjar hraðhleðslustöðvar fyrir aftan núverandi þjónustustöð N1 við Ártúnshöfða.

Ný hraðhleðslustöð verður sett upp á Ártúnshöfða í sumar – MYND: ÓJ

Þarna hafa verið bílastæði en á þessum stað verða settar upp hleðslustöðvar með góðu aðgengi. Við leggjum áherslu á að hægt sé að hafa gegnumakstur við þær stöðvar sem settar eru upp – eins og er við bensíndælurnar. Við erum með 30 þjónustustöðvar um allt land og stefnt er að því að þær verði fjölorkustöðvar ef hægt er að koma því við. Óvíst er að skipulag leyfi sumstaðar að settar verði upp hraðhleðslustöðvar.”

Víða um landið er takmörkuð geta í flutningi rafmagns, t.d. á milli Egilsstaða og Akureyrar. Hvernig ætlið þið að bregðast við því?

„Það eru aðrir kostir í stöðunni á þeim svæðum þar sem ekki er aðgangur að nægilegu afli í gegnum flutningskerfið. Þá er hægt að nýta þá innviði sem fyrir eru og setja upp rafhlöður.”

Bíll í hleðslu – MYND: N1

Rafmagnið verður ekki framleitt með því að brenna dísilolíu?

„Nei, það myndum við aldrei gera, enda ekkert vit í því. Það er yfirlýst stefna N1 að færa sig yfir í græna orkugjafa.”

Er trúverðugt að fyrirtæki sem hefur miklar tekjur af því að selja jarðefnaeldsneyti segist stefna að því að hætta þeim viðskiptum – útrýma því – en taka í staðinn upp sölu á rafmagni?

„Þetta skiptir höfuðmáli fyrir okkur öll sem manneskjur – að brugðist sé við loftslagsvandanum. Við vitum öll að þetta er sú leið sem við þurfum að fara, hversu hratt sem það gerist. Við ætlum að nota okkar þekkingu, viðskiptasambönd, dreifileiðir og annað til að styðja og vera leiðandi í þessari þróun. Sala á raforku verður tekjustoð fyrirtækisins þegar olíusalan hverfur.”

Núverandi net hraðhleðslustöðva N1 – MYND: N1

Eigendur rafbíla eru óþolinmóðir, vilja geta hlaðið þá víðar og með auðveldari hætti. Gengur þetta of hægt?

„Þetta gengur alls ekki nógu hratt, fylgir ekki þróuninni nógu vel. Hætta er á að innviðir verði eftir á og dragi þar með úr hraða þessara umskipta yfir í rafmagn. Það vill enginn. Við viljum auðvitað frekar að uppbygging innviða leiði þróunina og að það verði hvetjandi fyrir þá sem eru að hugsa um að skipta yfir í rafmagn. Margir veigra sér við að kaupa rafbíl af því að þeir treysta því ekki að hægt verði að ferðast um landið. Auðvitað viljum við ekki að þetta sé þannig. Stjórnvöld setja markmið í orkuskiptunum en það vantar nákvæmari áætlun um það hvernig eigi að ná markmiðinu. Það verður að huga betur að því hvernig staðið er að uppbyggingunni. Það er ekki skynsamlegt að eyða miklu í innviði sem nýtast illa – að setja upp hleðslustöðvar einhvers staðar á víðavangi á meðan að þörf er á miklu fleiri stöðvum á höfuðborgarsvæðinu og í helstu þéttbýliskjörnum landsins. Það er erfitt að fara hringinn núna og treysta þvi að þessar stöku stöðvar séu lausar og starfhæfar þegar þú kemur.

Þetta er ekki jafn einfalt og bensíndælur – sem flytja vökva úr einum geymi í annan. Það er um að ræða tvær tölvur sem tala saman og upp geta komið samskipta– og netvandamál. Listinn af því sem getur komið upp á er langur. Það er margt sem getur einnig bilað sem krefst tæknilegrar aðstoðar. Stundum liggur vandinn hjá notandanum sjálfum. Við reynum að leysa úr málum í þjónustuveri okkar.”

Hraðhleðslustöðvar N1 við Krónuna og Elko í Kópavogi – MYND: N1

Er samkeppnisumhverfið heilbrigt?

„Nei, það vantar mjög mikið upp á það. Þó að við séum stórt fyrirtæki þá er það lítið á þessum markaði. Við finnum vel fyrir því að samkeppnisaðilar okkar sem eru oftast raforkufyrirtæki ætla að taka á þessu af krafti með áherslu á raforkusöluna. Við stefnum hinsvegar að auknu þjónustuframboði. Það hangir ekki allt á orkusölunni. Styrkur okkar í samkeppninni er þjónustunetið á landinu og reynsla af því að þjónusta almenna viðskiptavini og fyrirtæki. N1 er fyrirtæki sem er á markaði til að keppa í þjónustu og verði á henni. Áður en einkaaðilar stigu inn á markað í sölu á raforku bar verðlagning þar þau merki að engin samkeppni ríkti.”

Sérðu fyrir þér að sveitarfélög, hótel og gististaðir, stíga inn og bjóða upp á rafhleðslu bíla til að stykja þjónustu við ferðafólk?

„Það er ekki á færi hvers sem er að reka hleðslustöðvar. Reksturinn krefst ákveðinnar þekkingar. Við munum að sjálfsögðu ásamt samkeppnisaðilum þjónusta ferðafólk sem fer um landið.”

Einar Sigursteinn Bergþórsson: „Styrkur okkar í samkeppninni er þjónustunetið á landinu– MYND: ÓJ

Hvar verður N1 statt í hraðhleðslumálum að fimm árum liðnum?

„Þá verðum við komin með hraðhleðslu á öllum okkar þjónustustöðvum og fyrir utan afgreiðslustaði Krónunnar og Elko, systurfélaga okkar. Það verða fleiri en ein hleðslustöð á hverjum stað. Það er mikilvægt í þessari þróun að ekki sé verið á reiða sig á eina stöð. Svo erum við með 50 umboðsmenn um allt land. Við sjáum fyrir okkur að byggja upp rafhleðslu á afskekktari stöðum – minni stöðvar sem þurfa lengri tíma til að hlaða bílinn en dugar til að skila honum á næsta stað.”

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …