Samfélagsmiðlar

Viltu hitta nágranna þína í sumarfríinu?

Í sumarfríinu viltu ekkert endilega hitta nágranna þína eða heyra kunnuglegt skvaldrið í löndum þínum hvar sem þú kemur. TÚRISTI velti þessu fyrir sér eftir að hafa lesið að bandarískir ferðamenn vilja ekki hitta of marga sína líka í fríinu.

Við Trevi-brunninn

Mannfjöldi við Trevi-brunninn í Róm

Mjög margir kunna því vel að ferðast með löndum sínum, verja fríinu með þeim í sundlaugargarðinum, á ströndinni eða í skoðunarferðum. Aðrir eru ekki jafn spenntir fyrir þessu, vilja ekki hafa heimahagana með í farteskinu – vera stöðugt minntir á upprunann og allt sem honum fylgir. Einhverjir kjósa báðar þessar stíltegundir ferðalaga, fara á víxl um slóðir sem fáir landar þeirra þekkja og svo þangað sem fullvíst má telja að margir þeirra séu þar fyrir á fleti. Nepal eða Tenerife? Þar liggur efinn.

Navigli-hverfið í Mílanó – MYND: ÓJ

Bandaríkjamenn eru mikilvægasti ferðamannahópurinn í Evrópu – líka á Íslandi. Þeir streyma til Evrópulanda eftir að heimsfaraldrinum lauk með umtalsverða kaupgetu vegna hás gengis dollarsins – sólgnir í nýja og spennandi reynslu eftir innilokun og leiðindi covid-áranna.

„Hvers vilja Bandaríkjamenn njóta í Evrópufríinu? Færri Bandaríkjamanna,” sagði í fyrirsögn greinar í ferðadálki The Wall Street Journal. Spurning og svar. Fyrirsögnininni fylgdi ekki mikil úttekt eða greining á þessu. Þarna var frekar verið að enduróma þá tilfinningu ýmissa í ferðabransanum að þegar eftirsóknarverðustu staðirnir yfirfyllast af bandarískum ferðamönnum sækist æ fleiri þeirra eftir því að fara eitthvert allt annað. 

Signa
Á brú yfir Signu – MYND: ÓJ

Eins og alkunna er ferðuðust Bandaríkjamenn mikið á síðasta ári og nú er útlit fyrir að þeir ferðist enn meira árið 2023. Bókunartölur eru allar upp á við. Sala á Evrópuferðum er um átta prósentum meiri en síðasta sumar og í síðustu viku var haft eftir forstjóra Delta Air Lines að þegar væri búið að bóka 75 prósent af sætum í fyrirhuguðu Evrópuflugi sumarsins. Ferðaleitarvélar eins og Skyscanner sýna mikinn áhuga á kunnuglegum áfangastöðum eins og Mílanó og London en líka stóraukna forvitni um staði sem Bandaríkjamenn hafa ekki horft mikið til, eins og Split í Króatíu og Tírana í Albaníu. Lækkun á gengi norsku krónunnar hefur líklega haft þau áhrif að hástökkvarinn í leitarvél Skyscanner er Ósló. Áhuginn á höfuðborg Noregs er þrefaldur á við það sem hann var í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Skyscanner

Sumar í Lissabon – MYND: ÓJ

Þó að dollarinn sé sterkur þá eru bandarískir ferðamenn auðvitað ekki ónæmir fyrir verðhækkunum. Verðið á farmiðunum hefur hækkað – og allt hefur hækkað á áfangastöðunum í Evrópu. Það getur orðið þrautinni þyngra að finna hótelherbergi á viðráðanlegu verði í vinsælustu borgunum: París, London, Barselóna, Róm – eða bara í Reykjavík og undir Vatnajökli. Og ef þú hefur hvort eð er komið áður til frægu borganna og vinsælustu staðanna á samfélagsmiðlunum er þá ekki réttast að fara eitthvert annað? Þegar svo bætist við að á vinsælu stöðunum hittir þú aðallega fyrir landa þína, aðra Ameríkana, þá er líklega best að setja stefnuna á nýjar slóðir. 

Við Spænsku tröppurnar í Róm – MYND: ÓJ

The Wall Street Journal hefur eftir eiganda ferðaskrifstofu í New York að fólk sem fór til Evrópu síðasta sumar ryðji nú brautina að nýjum áfangastöðum. Þegar það gat loks ferðast eftir faraldurinn urðu viðurkenndir áfangastaðir fyrir valinu, staðir sem fólkið vissi fyrirfram að væru eftirsóknarverðir – hátt skrifaðir í huga fjöldans. Mannfjöldi á þessum slóðum hræddi ekki, eins og margir höfðu búist við. Fólk var óhrætt við að lenda í dálítilli kös. Gríman var þó höfð til taks. Öðru máli hafi gegnt um samsetningu manngrúans. Á mörgum helstu ferðamannaslóðum Evrópu hafi bandaríski ferðamaðurinn verið umkringdur af öðrum bandarískum ferðamönnum. Blaðið hefur eftir 31 árs gamallli konu sem býr í Brooklyn í New York að hún hafi kosið að fara til Lissabon í sína fyrstu Evrópuferð í fyrrasumar vegna fullvissu um að þar myndi henni líða vel við kunnuglegar aðstæður. Nú segist hún vilja fara til einhvers staðar þar sem landar hennar eru ekki á hverju götuhorni. Hún setji því stefnuna á Tiblísi í Georgíu, vilji ferðast um landið, koma við á víngerðarhúsum og skoða klaustur. 

Á vínekru – MYND: ÓJ

Ein tilhneigingin er, samkvæmt The Wall Street Journal, að fólk leitar áfangastaða sem á einhvern hátt eru áþekkir vinsælustu stöðunum. Blaðið hefur eftir ferðaskipuleggjendum að þannig beinist sjónir æ fleiri að Albaníu í stað Króatíu. Fólk hugleiði að fara frekar til Slóveníu en Ítalíu – eða leggi leið sína til Norður-Grikklands eða Tyrklands í stað þess að halda út í margrómaðar grísku eyjarnar.

En svo er vandinn sá að áfangastaðir sem ekki hafa lent á ratsjá ferðafólks gera það svo snögglega og verða ógnar vinsælir. Þannig var bandarískum ferðamönnum gjarnan beint til Sikileyjar í fyrrasumar vegna þrengslanna á Amalfíströndinni og í Feneyjum. Hinsvegar er svo komið að Sikiley er mjög eftirsótt af ferðamönnum í sumar.

„Nú mæli ég frekar með Korsíku og Sardiníu eða héruðum á meginlandinu eins og Puglia,” segir einn ferðaskipuleggjandinn. 

Hvað með strandferð til Flæmingjalands? – MYND: ÓJ

Hafa ber í huga að það er þó ekki jafn einfalt – og ekki endilega ódýrara – að halda á fáfarnari slóðir. Þrautreyndustu ferðamannastaðirnir búa að öflugu samgönguneti, mikilli reynslu af þjónustu og meiri tungumálahæfni fólks í þjónustustörfum. Fleiri tala ensku. Ekki er endilega ódýrt eða einfalt að komast til Rúmeníu eða Möltu vegna skorts á flugtengingum og tímans sem það tekur. Og það er líklegra að þjóninn í París tali ensku en starfsfélagi hans í Tíblísi. Hinsvegar er varla nokkur vafi á því á hvorum staðnum hótelgistingin er ódýrari, vínglasið og kvöldmaturinn.

Hjá kjötkaupmanni í Madríd – MYND: ÓJ

Góðar flugtengingar við Ísland eru auðvitað megin skýringin á vinsældum landsins meðal bandarískra ferðamanna. Þriðjungur ferðamanna á Íslandi fyrir faraldurinn kom frá Bandaríkjunum. Bandarískir ferðamenn eru áberandi á götum Reykjavíkur og á vinsælustu ferðamannastöðunum á Suðurlandi. Enn vilja margir Bandaríkjamenn ferðast til Íslands. Delta-flugfélagið fann fyrir þessum áhuga og ákvað að hefja Íslandsflug fyrr á árinu en það hefur gert.

Þegar skoðaðar eru tölur um gistinætur á síðustu árunum fyrir faraldur sést hversu góðir viðskiptavinir bandarískir ferðamenn eru á Íslandi. TÚRISTI flettir upp í tölum frá hagstofum Íslands og Danmerkur – til að fá samanburð. Árið 2018 voru gistinætur bandarískra ferðamanna í Danmörku 690 þúsund en 1,3 milljónir á Íslandi. Árið 2019 voru bandarísku gistinæturnar 760 þúsund í Danmörku en 1,2 milljónir á Íslandi. Þessi samanburður talar sínu máli. Ísland er hátt á óskalista bandaríska ferðamannsins – allavega ennþá.

Í ferðamannaverslun á Íslandi – MYND: ÓJ

Verður Bandaríkjamaðurinn þreyttur á því að hitta endalaust landa sína á ferð um Ísland – á Þingvöllum, í Reynisfjöru, við Geysi eða á Húsavík? Það vitum við ekki. Þó má ætla að framansögðu að mikilvægur hluti ferðalags í huga þeirra sem telja eftirsóknarvert að ferðast sé að kanna hið óþekkta, kynnast einhverju nýju, heyra eitthvað nýtt – ekki bara skvaldrið að heiman. Íslenskir ferðafrömuðir eru líklegir til að taka mið af þessu – enda margt að sjá og margs njóta í Dölunum, norður á Ströndum, í Húnaþingi, í Öxarfirði, á Melrakkasléttu, á Langanesi, austur á Héraði – og á öllum hinum fáfarnari ferðaslóðum Íslands.

Nýtt efni

Margir sem eru að basla í ferðaþjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu horfa öfundaraugum til Suðurlands, sem nýtur nálægðar við Keflavíkurflugvöll og Reykjavík - og státar af áfangastöðum sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja og hafa verið mjög vel kynntir síðustu áratugi.   Það er stöðugur straumur ferðamanna um Suðurland, meðfram „gullströndinni,“ sem hótelhaldarinn fyrir austan nefndi svo - …

Löngu áður en hið svokallaða „Bulletproof“ kaffi leit dagsins ljós settu Tíbetar smjörklípu út í morgunteið sitt til að byrja daginn á rjúkandi og næringarríkan hátt. Í köldu háfjallalofti Himalaja-fjallanna hefur þessi salti, rjómakenndi og hitaeiningaríki drykkur orðið að daglegri hefð sem er ómissandi í matarmenningu þjóðarinnar.Á máli heimamanna nefnist drykkurinn „po cha,“ sem einfaldlega …

Í nærri fimmtán hafa Icelandair og bandaríska flugfélagið Jetblue átt í samstarfi sem gerir viðskiptavinum þeirra kleift að kaupa tengiflug með hinu félaginu á einum miða og innrita farangur alla leið. Þannig getur farþegi sem ætlar héðan til Orlando í sumar keypt farið alla leið hjá Icelandair þó flogið sé með Jetblue seinni legginn, frá …

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …