Samfélagsmiðlar

Vísbendingar um að sumarvertíðin verði góð hjá Airbnb

Útleiga á íbúðahúsnæði til ferðamanna er áfram stór hluti af umsvifum ferðaþjónustunnar. Útlit er fyrir að bókunarstaðan sé nú þegar mjög góð fyrir sumarið hjá þeim sem leigja út hús og íbúðir í gegnum Airbnb.

Ferðamenn hér á landi í sumar verða líklega álíka margir og fyrir heimsfaraldur.

Gríðarleg umsvif Airbnb hér á landi voru ósjaldan til umræðu fyrir heimsfaraldur. Hækkun fasteignaverðs og skortur á íbúðum í langtímaleigu var rakinn til bandarísku gistimiðlunarinnar og víða kvörtuðu íbúar undan nýjum nágrönnum sem stundum komu og fóru á ókristilegum tímum.

Nú stefnir í að fjöldi ferðamanna hér á landi í sumar verði álíka og þegar mest var á árunum 2017 til 2019. Framboð á hótelgistingu hefur þó ekki aukist mikið nema þá helst á Suðurnesjum. Á Austurlandi voru hótelherbergin sl. sumar álíka mörg og yfir sumarmánuðina 2018 og 2019 eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það má því gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna muni í sumar leita í heimagistingu líkt og gerðist á árum áður. Samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar var framboðið hjá Airbnb í febrúar sl. álíka og á sama tíma fyrir fjórum og fimm árum síðan eða á bilinu 3.700 til 3.900 íbúðir eða hús. Til viðbótar bætast herbergi sem fólk leigir út.

Framboðið er því í takt við það sem var þegar ferðamannastraumurinn var hvað mestur. Og það er ekki annað að sjá en eftirspurn eftir Airbnb gistingu sé mikil. Þannig getur ferðamaður á leið til Íslands eftir fjórar vikur valið úr rúmlega 700 íbúðum eða húsum í Reykjavík, hátt 200 eignum á Akureyri og nágrenni og framboðið á Suðurlandi er álíka mikið. Sá sem leitar að gistingu um miðjan júlí hefur úr mun minna að moða. Þá er úrvalið um 25 til 40 prósentum minna í Reykjavík og Akureyri en á Suðurlandi er framboðið rétt um fjórðungar af því sem nú er.

Gera má ráð fyrir að skýringin á þessu liggi í fyrst og fremst í fjölda þeirra bókana sem nú þegar hafa verið gerðar. Ekki skal þó útiloka að fasteignaeigendur ætli að nota húsin sín sjálfir í sumar eða hafi fullnýtt þá daga sem þeir hafa til að leigja út til ferðamanna.

Svörin við þessu er ekki hægt að fá frá Airbnb því upplýsingagjöf fyrirtækisins hefur ávallt verið takmörkuð. Þannig byggja fyrrnefndar upplýsingar Ferðamálastofu um umsvif Airbnb ekki á gögnum frá fyrirtækinu sjálfu heldur greiningafyrirtækinu Airdna. Hagstofa Íslands gerir svo sitt eigið mat til að reyna að finna út úr umsvifum Airbnb.

Það liggur því ekki fyrir nákvæmlega hversu stór markaðurinn er fyrir heimagistingu hér á landi en Airbnb upplýsti eitt sinn að tekjur íslenskra leigusala væru miklu hærri en annars staðar tíðkaðist líkt og Túristi fór yfir á sínum tíma.

Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …