Samfélagsmiðlar

Bjartar horfur í suðrinu

Löndin í Suður-Evrópu sem hafa verið háð tekjum af ferðaþjónustu hrósa nú happi vegna þess að neytendur virðast taka ferðalög fram yfir kaup á ýmsum iðnvarningi á tímum þegar þrengir að kaupgetu vegna verðhækkana og hárra vaxta. Bókunarstaðan fyrir sumarið í ferðaþjónustu Miðjarðarhafslandanna er mjög góð.

Júlíus Sesar myndaður í Forum Romanum

Ferðaþjónusta vegur þungt í efnahag Suður-Evrópulanda. Í þeim eins og víðar hefur efnahagur versnað eftir heimsfaraldur, skuldir vaxið og verð á nauðsynjavörum hækkað. Nú er treyst á að ferðaþjónustan skili sínu, bæti upp tekjumissi síðustu ára og létti róðurinn inn í framtiðina. Margt bendir til að þessar óskir rætist. Ferðafólk frá norðlægari slóðum þyrstir í sumar og sól í sunnanverðri Evrópu eftir grámyglu Covid-áranna og tekur það að ferðast fram yfir margt annað sem greiða þarf fyrir.

Tóm glös í Portó – MYND: ÓJ

Þó að margir hafi áhyggjur af því að sumrin séu að verða of kæfandi heit um hásumarið í Suður-Evrópu og við Miðjarðarhaf þá virðist sú umhverfisógn ekki enn draga úr ferðavilja fjöldans. Það sýna bókunartölur frá Spáni, Portúgal, Ítalíu og Grikklandi. Fréttir berast líka af því að eftirspurnin sé mest í hæstu gæðaflokkum þjónustu. 

Vísbendingar komu fram um það strax á fyrstu mánuðum ársins að ferðaárið 2023 yrði mjög gott á Ítalíu  – gæti jafnast á við síðustu tvö árin fyrir Covid. Nú í sumarbyrjun hafa þær vonir ekki dvínað hjá forráðamönnum ítölsku ferðaþjónustunnar. Það stefnir raunar í að ferðamannafjöldinn á Ítalíu 2023 verði álíka eða jafnvel meiri en árið 2019. Þá er bæði átt við innlenda og erlenda ferðamenn.

Leiðsögumaður leiðir hóp í gegnum Forum Romanum – MYND: ÓJ

Samkvæmt upplýsingum frá markaðsrannsóknafyrirtækinu Demoskopika má vænta þess að ferðamenn í landinu á þessu ári verði rúmum 12 prósentum fleiri en 2022 og að komufarþegar verði 127 milljónir (voru 128 milljónir 2018 og 131 milljón 2019). Þar af verði 61 milljón erlendra ferðamanna sem kaupi 215 milljónir gistinátta. Tölur frá öðrum fyrirtækjum og stofnunum segja svipaða sögu: Bókunarstaðan er góð og eyðsla hefur aukist meira en búist var við. Það munar um minna á Ítalíu þar sem rekja má um 13 prósent þjóðarframleiðslunnar til ferðaþjónustunnar, þegar tekjur af tengdum greinum eru teknar með í reikninginn.

Hver fer til Ítalíu án þess að borða oft og vel?

Þjónar á Markúsartorgi í Feneyjum ráða ráðum sínum – MYND: ÓJ

Svipaða sögu er að segja frá öðrum Suður-Evrópulöndum. Á Grikklandi vegur ferðaþjónustan enn þyngra en á Ítalíu í þjóðarbúskapnum. Um fimmtung þjóðarframleiðslunnar á Grikklandi má rekja til ferðaþjónustu. Á ráðstefnu um ráðstefnuferðamennsku í Grikklandi, sem haldin var í mars, spáði  ferðamálaráðherrann þáverandi, Vasilis Kikilias, því að ferðaárið 2023 yrði mjög gott. Þar undirstrikaði hann að ferðaþjónustan væri traustasta stoð grísks efnahags. Án hennar yrði enginn vöxtur.

Lagði ráðherrann sérstaka áherslu á mikilvægi viðskiptaferða og ráðstefnuhalds sem gætu lagt af mörkum drjúgan skerf af heildartekjum ferðaþjónustu í landinu. En það er ekki nóg að tala um möguleikana. Ráðherrann var hvattur til að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu innviða í Aþenu, m.a. að byggð yrði ný alþjóðleg ráðstefnumiðstöð í borginni. Sagðist ráðherrann hafa lagt fram tillögu þess efnis í ríkisstjórn. Eins og kunnugt er þá eru þingkosningar nýafstaðnar í Grikklandi og eftir er að sjá hvort hugmyndir um ráðstefnuhöll og aðra innviði til að treysta stöðu Aþenu sem ráðstefnuborgar verða að veruleika. Hvað sem kemur út úr pólitískri ólgu í landinu, þá lokkar Grikkland til sín ferðamenn. Bókanir fyrstu mánuði ársins lofuðu mjög góðu. 

Aþena – MYND: Unsplash/Christos Papandreou

Vaxtartölur á Spáni og í Portúgal eru líka allar upp á við. Erlendum ferðamönnum á Spáni fjölgaði um rúm 40 prósent á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma 2022. Tæplega 14 milljónir komu til landsins frá janúar til marsloka, um þremur og hálfu prósenti færri en sömu mánuði 2019. Í nágrannalandinu Portúgal voru hinsvegar slegin met með heimsóknum nærri þriggja milljóna erlendra ferðamanna þessa fyrstu mánuði ársins.

Það blæs sem sagt byrlega í ferðaþjónustu í sunnanverðri Evrópu og fréttir af góðri afkomu í greininni koma úr ýmsum áttum. Flugfélögin finna fyrir mikilli sókn í suðræna sól og makindalíf, bókunarstaðan fyrir sumarið er góð og pantaðar eru nýjar flugvélar frá framleiðendum. Á sama tíma og samdráttur er í mörgum hagkerfum vegna minni minnkandi spurnar eftir framleiðsluvörum vegna hækkandi verðlags þá horfa þau lönd sem laða að flestu ferðamennina fram á vöxt frekar en samdrátt. Ferðaviljinn er dálítill birtugjafi á tímum verðbólgu og vaxtahækkana.

Staðan eftir heimsfaraldurinn er einfaldlega sú að fólk tekur ferðalög fram yfir endurnýjun á bílnum, eldavélinni eða símanum: Vonandi bilar fjölskyldubíllinn ekki á næstunni, gamla eldavélin er alveg nógu góð og síminn dugar eitthvað lengur. Ég verð að komast í sumarfrí!

Pása í Portó – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …