Samfélagsmiðlar

Erlendu flugfélögin standa í stað á Keflavíkurflugvelli en þau íslensku setja allt á fullt

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast sjá meiri tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu en stjórnendur erlendra flugfélaga. Án mikils framboðs á heimagistingu gætu Icelandair og Play ekki sótt eins stíft á þau mið sem gefa þeim mest. Ekkert heyrist af vinnu stjórnarráðsins við mótun íslenskrar ferðaþjónustu.

Ferðamenn við Reykjavíkurhöfn

Á sama tíma og það stefnir í metfjölda skemmtiferðaskipa þá hefur framboð ferða hingað á vegum erlendra flugfélaga staðið í stað. Icelandair og Play eru því með bróðurpart markaðarins.

Forsvarsfólk Icelandair og Play bendir reglulega á þá staðreynd að hingað til lands fljúgi um 20 erlend flugfélög og vilja þá meina að samkeppnin á íslenska markaðnum sé mikil. Íslensku félögin eiga þó fyrst og fremst í innbyrðis samkeppni sem er harðari en á þeim tíma sem Wow Air var jafnstórt og Play er í dag.

Leiðakerfi félaganna líkjast hvoru öðru æ meira með degi hverjum.

Play eltir Icelandair til Washington, Glasgow, Stokkhólms og fleiri borga á meðan Icelandair fer á eftir sínum helsta keppinaut til Prag og Barcelona.

Á sama tíma hefur lítil sem engin breyting orðið á heildarumsvifum erlendra flugfélaga hér á landi. Áætlanir flestra eru í föstum skorðum en í brottförum talið þá dragast umsvif þeirra saman um tíund í sumar frá því sem var árið 2018 þegar umferðin um Keflavíkurflugvöll var mest.

Yfir sumarmánuðina þrjá í ár verða því 77 af hverjum 100 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli á vegum Icelandair og Play samkvæmt talningum Túrista. Hlutfallið síðastliðið sumar var 74 prósent þannig að íslensku félögin hafa náð stærri hluta af markaðnum til sín.

Allir vilja ferðamennina

Þegar Play gerði upp síðustu sumarvertíð þá var tapið meira en lagt var upp með og skellti forstjóri félagsins þá skuldinni á skort á bílaleigubílum og hótelum hér á landi. Félagið hafi þurft að færa fókusinn yfir á tengifarþega en Play hefur minni tekjur af þeim en ferðamönnunum samkvæmt skýringum forstjórans.

Reikna má með að fjöldi ferðamanna muni keyra um landið með rúmið í skottinu. Mynd: ÓJ

Vegna þessa hafa stjórnendur Play lagt áherslu á að ná túristum á leið til Íslands frá Icelandair en þar á bæ hefur hlutfall tengifarþega engu að síður verið óvenju lágt. Icelandair flytur hlutfallslega fleiri ferðamenn til landsins en áður einnig hefur áherslan á sólarlandaflug Íslendinga aukist hjá félaginu eins og mjög tíðar ferðir til Tenerife eru skýrt dæmi um.

Erlendu flugfélögin sem hingað fljúga horfa eingöngu til sinna heimamarkaða og auglýsa nær aldrei þjónustu sína í íslenskum fjölmiðlum. Áherslan er á fólk sem ætlar að ferðast til Íslands en ekki Íslendinga á leið út í heim.

Heimagistingin þarf að taka við

Þessi áhersla á erlendu ferðamennina hjá flugfélögunum, bæði þeim íslensku og erlendu, setur pressu á afköstin í ferðaþjónustunni. Framboð á hótelherbergjum hefur lítið aukist frá því fyrir heimsfaraldur ef höfuðborgin er tekin út fyrir sviga. Ófáir stórir ferðaskipuleggjendur hér á landi eru því fyrir þó nokkru síðan farnir að beina viðskiptavinum sínum inn á sumarið 2024 vegna skorts á gistingu við hringveginn.

Heimagistingin þarf því að taka við álíka mörgum og metsumarið 2018 þegar hingað komu 800 þúsund ferðamenn. Spá Isavia fyrir komandi sumar gerir ráð fyrir litlu færri ferðamönnun en þá og Ferðamálastofa reiknar með metsumri. Bókunarstaðan hjá Airbnb virðist líka góð fyrir sumarið.

Ferðamenn á leið í heimagistingu í Reykjavík – MYND: ÓJ

Skemmtiferðaskipin setja stefnuna hingað

Þó stjórnendur erlendra flugfélaga sjái ekki hag í því að fjölga ferðunum til Íslands þá horfir málið öðruvísi við þeim sem skipuleggja ferðir skemmtiferðaskipa. Það stefnir nefnilega í metár í skipakomum. Búist er við 269 skipum til Reykjavíkur í sumar með 280 þúsund farþega og suma daga verða þrjú skip í einu í Sundahöfn og tvö í gömlu höfninni. Þar er undirbúningur á fullu við að bæta aðstöðuna enda vantaði þar töluvert upp á í fyrra líkt og Túristi hefur fjallað um. Á Akureyri og Ísafirði er líka búist við stríðum straumi skipa og hafnarstjórnir víðar um land horfa til aukinnar umferðar á næstu árum.

Nýjar merkingar á Skarfabakka eiga að bæta flutning á farþegum sem koma með skemmtiferðaskipum. Mynd: ÓJ

Á sama tíma og fyrirtækin sem flytja fólk til landsins eru á fullum afköstum þá heyrist lítið af vinnu stjórnvalda við að móta stefnu íslenskrar ferðaþjónustu til framtíðar. Nú í byrjun mánaðar stóð til að kynna mannaskipan í stýrihópum sem binda eiga lokahnútinn á þá vinnu en ráðuneyti ferðamála svarar ekki fyrirspurnum Túrista um gang mála. Í ráðuneytinu hefur sérfræðingum í málefnum ferðaþjónustu líka fækkað töluvert frá því sem áður var.

Þessi grein byggir á gögnum sem Túristi hefur safnað um flugumferð síðastliðinn áratug. Ekki eru ekki til nein opinber gögn um flugumferð hér á landi.

Nýtt efni

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …