Samfélagsmiðlar

Fyrsti viðkomustaðurinn í Íslandsferðinni

Grindavík er ekki stórt pláss en þar er að finna marga veitingastaði. Hjá Höllu við Víkurbraut er einn þeirra. Halla María Svansdóttir hefur lagt mikið af mörkum við að þróa matarmenningu í heimabæ sínum. Auk veitingastaða í Grindavik og í Leifsstöð starfrækir hún umsvifamikla fyrirtækja- og veisluþjónustu.

Halla María Svansdóttir, veitingamaður í Grindavík

Það var hlýtt og notalegt á veitingastaðnum Hjá Höllu í Grindavík þegar TÚRISTA bar að garði einn rigningardaginn. Ferðamenn sátu við flest borðin og nutu matarins, einhverjir höfðu vafalaust áður gengið að nýja hrauninu við Fagradalsfjall, aðrir baðað sig í Bláa lóninu – eða voru bara nýkomnir til landsins og ákváðu að koma fyrst við í Grindavík og kynnast góðum íslenskum mat.

Horft inn fyrir – MYND: ÓJ

Stemmningin þarna inni var afslöppuð þó að augljóslega væri nóg að gera hjá starfsfólkinu. Eigandinn, Halla María Svansdóttir, gaf sér þó tíma til að setjast niður stutta stund og spjalla dálítið um reksturinn.

Halla María og Sigurpáll Jóhannsson, maður hennar, reka tvo veitingastaði undir þessu nafni: Hjá Höllu, í Grindavík og í suðurbyggingu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, og sinna líka fyrirtækja- og veisluþjónustu.

Grámyglulegur dagur. Gott að fá sér að borða – MYND: ÓJ

Grindvíkingar kunna vel að meta framlag Höllu Maríu til matarmenningar í bænum og voru henni veitt Menningarverðlaun Grindavíkur árið 2019. Síðustu 10 árin hefur hún stuðlað að bættri matarmenningu og sinnt veitingarekstri í þessu góða plássi. Í upphafi voru það námskeiðspakkar sem hún seldi fólki heiman frá sér, svokallaða námskeiðspoka, sem í var matarréttir, safar, þeytingar, te, millimál – og leiðbeiningar um mataræði. Næsta skref var rekstur útrétta-staðar (take-away) við gömlu hafnarvigtina. Svo í byrjun árs 2016 var opnaður nýr veitingastaður, Hjá Höllu, í húsinu við Víkurbraut 62. Þangað eiga margir erindi: Bæjarskrifstofur Grindavíkur og heilsugæslan eru undir sama þaki, líka Lyfja og Vínbúðin. Hárgreiðslustofa er við hlið veitingastaðarins og fyrir kemur að konur með blautan lit í hári skreppi yfir til Höllu og fái sér einn kaldan.

„Við vorum alls ekki viss um að svona stað vantaði í Grindavík,“ 

segir Halla María. En þetta gekk vel. Viðtökur voru framar vonum.

Við afgreiðsluna – MYND: ÓJ

„Við höfum aldrei tekið á móti stærri hópum en 20 manns í hádeginu. Rútufyrirtækin hafa viljað bóka stærri hópa en við höfum ekki gert það. Fólk á að geta gengið að því sem vísu að hér sé hægt að setjast niður og fá að borða. Ég held að þetta hafi bjargað okkur í gegnum Covid-19. Rúturnar voru farnar og við hefðum verið verkefnalaus. En gestirnir komu áfram til okkar af því að við höfðum aldrei lokað á þá. Viðskiptavinirnir studdu vel við okkur. Við höfðum opið á kvöldin og vorum með útrétta-þjónustu (take-away).“

Erlendir ferðamenn sem ákváðu að fá sér hádegismat í Grindavík – MYND: ÓJ

Árið 2018 opnaði Hjá Höllu í suðurbyggingu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Halla María segir að þau hafi viljað æfa sig fyrir stóra sviðið – taka þátt í að auka veitingaþjónustu í stækkandi flugstöð. Hún segir þó að mikil binding felist í að reka núverandi stað á Keflavíkurflugvelli. Isavia hafi krafist ákveðinnar viðveru á Covid-19-tímanum þó ekkert væri að gera. Frekar dauflegt sé á köflum um háveturinn en svo fari allt á hraðan snúning yfir sumarið. Íslendingar sæki mjög staðinn fyrir flug. 

„Maðurinn minn fór fyrir klukkan fjögur í morgun í flugstöðina með 400 samlokur.“

Hjá Höllu á Keflavíkurflugvelli – MYND: Hjá Höllu

Hjá Höllu er orðið nokkuð umsvifamikið í veitingarekstri með um 40 manns í vinnu. Og nú þarf reksturinn meira rými.

„Við höfum keypt húsnæði fyrir framleiðslueldhús, þar sem við munum gera samlokurnar, grautana og fleira. Nýja húsnæðið fáum við afhent í ágúst. Þar var áður fiskvinnsla með góðum kælum og frystum, sem eru okkur mikilvægir. Álagið er orðið mikið í eldhúsinu hjá okkur á Víkurbraut. Hér er unnið frá klukkan sex á morgnana til klukkan eitt um nóttina. Við þurfum að baka seinnipartinn og smyrja á kvöldin. Það verður að hagræða í rekstrinum og vinna sem mest í dagvinnu. Það er auðveldara að fá fólk í dagvinnu en í kvöld- og helgarvinnu.“

Halla María, þetta er langur vinnudagur.

„Já, þetta er langur vinnudagur. Ég er þreytt. Var að til klukkan eitt í nótt.“

Þú ert aðallega með fólk héðan úr Grindavík í vinnu. Hér vinna ekki margir útlendingar.

„Nei. Það er ekki af því að við viljum þá ekki. Við höfum bara verið svo heppin að hafa getað mannað störfin að mestu með heimafólki. Margt af því hefur verið hjá okkur í 10 ár. Það er alveg ótrúlegt.“

Nýr matseðill í hverri viku – MYND: ÓJ

Hver er stefnan í matargerðinni á þessum stað, Hjá Höllu?

„Við erum alltaf með nýjan matseðil í hverri viku. Fiskurinn og gellurnar eru alltaf til staðar en til viðbótar er ný súpa í hverri viku, nýtt salat, nýr grænmetisréttur, nýir kjöt- og kjúklingaréttir – og veganréttur.“

Þetta er langur og fjölbreyttur matseðill. Því fylgir væntanlega mikið álag í eldhúsinu.

„Já, þessu fylgir mikill undirbúningur og ýmislegt annað. En fjölbreytnin kemur sér vel af því að við sinnum veitingaþjónustu fyrir starfsfólk í Play-flugvélunum, útbúum um 150 skammta á dag. Það er gott að geta boðið starfsfólkinu fjölbreyttan mat. Við erum með önnur stór fyrirtæki í viðskiptum, flest í Reykjavík en líka á Suðurnesjum.“

Kaffisopi eftir matinn – MYNDIR: ÓJ

Þið flytjið í nýtt framleiðslueldhús í haust en eigið eftir að kaupa tæki í það. Hér á Víkurbraut ætlið þið að vera áfram – og líka suður á velli. Hafa lánastofnanir skilning á þörfum ykkar fyrir fjármagn til fjárfestinga? Er erfitt að sannfæra þær um að þið séuð lánshæf?

„Já, það hefur alltaf verið þannig. Þetta hefur verið vesen alveg frá byrjun. Þetta er krefjandi. Ég get ekki alltaf sýnt mjög fallegar tölur. Við þurftum að kveðja Landsbankann af því að hann vildi ekki lána okkur. Það var erfitt að komast í gegnum áramótin vegna verðhækkana sem tóku við af Covid-19. Ég var ekki viss um að ég vildi komast í gegnum þetta og langaði að loka. Verð á hinu og þessu hækkar stöðugt og það er erfitt að fá það til baka.“

Hvernig er viðskiptamannahópur ykkar?

„Fólk á öllum aldri – af ólíku þjóðerni. Eldgosið var happdrættisvinningur fyrir okkur. Fólk er enn að ganga þarna upp eftir og skoða nýtt hraunið. Það kemur svo við hjá okkur og borðar. Við opnum snemma. Fólk getur komið hingað strax klukkan átta og fengið morgunmat. Margir koma beint úr flugi til okkar, borða morgunmat og fara svo í Bláa lónið eða aka hring á Reykjanesskaganum.“

Hádegismatur Hjá Höllu – MYND: ÓJ

Eru túristarnir búnir að kanna vel áður hvað er í boði – vita þeir af ykkur fyrirfram?

„Já, mér sýnist það. Svo á laugardögum er alltaf smekkfullt hérna af fólki úr Reykjavík og annars staðar að á helgarrúntinum. Það kemur hingað og fær sér að borða og ekur svo áfram.“

Grindavík er fræg að fornu og nýju fyrir fiskinn. Er hann ekki vinsælastur á matseðlinum?

„Jú, hjá útlendingunum sérstaklega. Íslendingar biðja reyndar frekar um annan mat, borða fiskinn heima. Annars er fólk líka hrifið af því að taka með sér fisk heim í bökkum og hita upp heima.“

Við göngum yfir í eldhúsið. Þar er líf og fjör. 

Þær hafa margar unnið lengi saman – MYND: ÓJ

Ertu bara með konur í vinnu, Halla María?

„Það vill enginn karl vinna með okkur. Við erum komnar á þann aldur að við erum mjög erfiðar og hreinskilnar!“

segir Halla María og skellir upp úr. 

Kíkt inn í eldhús – MYND: ÓJ

Allt á fullu – MYND: ÓJ

Túrista er bent á að nokkrar kvennanna sem vinna á þessum vinsæla veitingastað hafi byrjað saman í beitningu. Þær vöndust því að vinna í akkorði .

Túristi er farinn að þvælast fyrir starfsfólki og gestum, lætur sig því hverfa út í rigninguna og þokuna sem grúfir yfir plássinu.

Eftir að hafa lokið öðrum verkefnum í Grindavík laumast Túristi aftur inn á þennan góða stað þegar dálítið hefur róast, kemur sér fyrir í horni við gluggann og pantar djúpsteiktar gellur með sætkartöfluflögum. Diskurinn sem skömmu síðar var lagður á borðið reyndist vera himnasending á þessum grámyglulega degi. 

Gellur – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Kínverjar eru leiðandi í smíði rafbíla, sem taldir eru mikilvægir vegna nauðsynlegra orkuskipta í samgöngum. Hinsvegar er Kína enn mjög háð brennslu kola, nærri 60% rafmagns í landinu er framleitt með kolum og það er enn verið að auka kolanám í landinu. Auk þess sem flutt er inn mikið af olíu og gasi. Jafnhliða er …

Það vour 1.299 bílar skráðir nýir á götuna hér á landi fyrstu þrjár vikurnar í júní og þar af 986 á vegum bílaleiga. Það jafngildir því að 24 prósent nýrra ökutækja fór til einstaklinga en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 38 prósent samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins sem ná til 23. júní. Þessar fyrstu þrjár …

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …