Samfélagsmiðlar

Gáttin hinum megin á landinu

„Möguleikarnir og fjárfestingatækifærin eru um allt svæðið. Við þurfum líka að þora að sækjast eftir því að fólk komi með okkur í þessa vegferð - að byggja upp á svæðinu,” segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, um ferðaþjónustuna á Austurlandi.

Regnbogagatan (Norðurgata) á Seyðisfirði er fræg um allan heim

Jóna Árný Þórðardóttir hefur á síðustu árum verið meðal þeirra sem unnið hafa að því að fá erlend flugfélög til að fljúga beint til Egilsstaða. Það virtist í höfn þegar þýska Condor-flugfélagið lýsti áformum um að hefja flug frá Frankfurt til Egilsstaða og Akureyrar nú í maí 2023. Það voru öllum sem komið höfðu að verkefninu mikil vonbrigði að félagið hætti við áformin.

Jóna Árný Þórðardóttir – MYND: Austurbrú

Það má eiginlega segja að Jóna Árný hafi tekið sér það hlutverk að stappa stálinu í sitt fólk á málþinginu um fjárfestingar í ferðaþjónustu á Austurlandi, sem haldið var á Hótel Valaskjálf. Hún minnti fundarfólk á það hversu mikið Austurland hefði að bjóða og hversu mikilvæg uppbygging í ferðaþjónustu væri fyrir landshlutann. Hún segist bjartsýn á að það takist að koma á beinu millilandaflugi til Egilsstaða og fjárfestar sjái tækifærin sem þar felast.

Erlendur ferðamaður yfirgefur Hótel Snæfell á Seyðisfirði. Norræna bíður næstu farþega – MYND: ÓJ

Nýi bæjarstjórinn í Fjarðabyggð sagði að með því að efla ferðaþjónustuna mætti bæta lífsgæði íbúa á Austurlandi og gera samfélagið meira aðlaðandi fyrir þá sem gætu hugsað sér að flytjast þangað – með meiri þjónustu og afþreyingu, fleiri veitingahúsum og tengingum út í heim. Nægt er rýmið og tækifærin mörg. 

Steiktur steinbítur á Nielsen á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Á Austurlandi búa um 11.200 manns á nærri 16 þúsund ferkílómetra svæði. Flest ferðaþjónustufyrirtækin eru rekin af fjölskyldum. Fáar keðjur eru með starfsemi, samanborið við aðra landshluta. Uppbygging ferðaþjónustu á Austurlandi er og verður mjög háð aðfluttu vinnuafli. „Á Austurlandi er samheldið fjölmenningarsamfélag með lífsgæði í forgrunni,“ sagði Jóna Árný í Valaskjálf. Hún vill laða að fleira fólk.

MYND: Austurbrú

Töluvert framboð er af gistingu en eins og Jóna Árný segir þá vantar enn upp á að ferðaþjónustan á Austurlandi sé traust heilsársgrein. 

Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði – MYND: ÓJ

„Við erum að tala um landshluta sem gæti verið nýr útgangspunktur á landinu – ef við værum með beint millilandaflug til Egilsstaða til viðbótar við millilandaferjuna á Seyðisfirði. Þá gæti fólk allt eins komið til Egilsstaða, ferðast um Austurland eða Norðausturland, farið suður og þaðan heim. Við erum staðsett akkúrat hinum megin á landinu frá helstu gáttinni – Keflavíkurflugvelli. Við höfum þess vegna í mörg ár unnið ötullega að því að fá beint millilandaflug til Egilsstaðaflugvallar.

Stóra myndin – Framtíðarsýnin – MYND: Austurbrú

Við vorum komin skrambi nálægt því núna í vor. Því miður gekk það ekki í þessari umferð en það er svo sannarlega komin sprunga í glerþakið. Nú er það okkar allra að sýna fram á að áfangastaðurinn sé tilbúinn fyrir næstu atrennu.”

Miklar vonir eru bundnar við að Stuðlagil verði einn fjölsóttasti áfangastaður landsins – MYND: Austurbrú

Jóna Árný segir að eitt af því sem fram hafi komið sé að á háönninni fyrir austan skorti innviði. Þess vegna þurfi að auka fjárfestingar til að geta haldið úti þjónustu allt árið.

„Hvort kemur á undan, hænan eða eggið? Við reyndum að fá hænuna og komumst langt. Nú erum við að tala um eggið. Þetta er ekki spurningin hvort, heldur hvenær – og hversu hratt við komumst. Möguleikarnir og fjárfestingatækifærin eru um allt svæðið. Við þurfum líka að þora að sækjast eftir því að fólk komi með okkur í þessa vegferð – að byggja upp á svæðinu.”

Egg skógarþrastarins á Djúpavogi – MYND: ÓJ

Jóna Árný nefndi að unnið væri að miðbæjarskipulagi margra bæjanna á Austurlandi en Seyðisfjörður með öll sín gömlu hús og sögu væri þegar orðinn áfangastaður fólks. Metnaður og áhugi væri í mörgum byggðalögum fyrir austan til byggja ofan á öfluga kjarnastarfsemi sem fyrir væri í atvinnulífi þeirra, búa til upplifun og lím til að samfélög héldu áfram að vaxa. Hugsanlega gæti ferðaþjónustan eflt trúna á framtíðina. 

Nýtt efni

Um 90% af öllum úrgangi sem fellur til á Íslandi, bæði frá heimilum og rekstri, ratar í einhvers konar endurvinnslu eða endurnýtingu. Þetta sýna nýjar úrgangstölur frá Umhverfisstofnun, fyrir árið 2022.  Það er fróðlegt að rýna í þessar tölur og fá þar með yfirsýn yfir neyslu Íslendinga, en Íslendingar eru á meðal mestu neysluþjóða í heimi. Magn …

Kínverjar eru leiðandi í smíði rafbíla, sem taldir eru mikilvægir vegna nauðsynlegra orkuskipta í samgöngum. Hinsvegar er Kína enn mjög háð brennslu kola, nærri 60% rafmagns í landinu er framleitt með kolum og það er enn verið að auka kolanám í landinu. Auk þess sem flutt er inn mikið af olíu og gasi. Jafnhliða er …

Það vour 1.299 bílar skráðir nýir á götuna hér á landi fyrstu þrjár vikurnar í júní og þar af 986 á vegum bílaleiga. Það jafngildir því að 24 prósent nýrra ökutækja fór til einstaklinga en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 38 prósent samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins sem ná til 23. júní. Þessar fyrstu þrjár …

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …