Samfélagsmiðlar

Gáttin hinum megin á landinu

„Möguleikarnir og fjárfestingatækifærin eru um allt svæðið. Við þurfum líka að þora að sækjast eftir því að fólk komi með okkur í þessa vegferð - að byggja upp á svæðinu,” segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, um ferðaþjónustuna á Austurlandi.

Regnbogagatan (Norðurgata) á Seyðisfirði er fræg um allan heim

Jóna Árný Þórðardóttir hefur á síðustu árum verið meðal þeirra sem unnið hafa að því að fá erlend flugfélög til að fljúga beint til Egilsstaða. Það virtist í höfn þegar þýska Condor-flugfélagið lýsti áformum um að hefja flug frá Frankfurt til Egilsstaða og Akureyrar nú í maí 2023. Það voru öllum sem komið höfðu að verkefninu mikil vonbrigði að félagið hætti við áformin.

Jóna Árný Þórðardóttir – MYND: Austurbrú

Það má eiginlega segja að Jóna Árný hafi tekið sér það hlutverk að stappa stálinu í sitt fólk á málþinginu um fjárfestingar í ferðaþjónustu á Austurlandi, sem haldið var á Hótel Valaskjálf. Hún minnti fundarfólk á það hversu mikið Austurland hefði að bjóða og hversu mikilvæg uppbygging í ferðaþjónustu væri fyrir landshlutann. Hún segist bjartsýn á að það takist að koma á beinu millilandaflugi til Egilsstaða og fjárfestar sjái tækifærin sem þar felast.

Erlendur ferðamaður yfirgefur Hótel Snæfell á Seyðisfirði. Norræna bíður næstu farþega – MYND: ÓJ

Nýi bæjarstjórinn í Fjarðabyggð sagði að með því að efla ferðaþjónustuna mætti bæta lífsgæði íbúa á Austurlandi og gera samfélagið meira aðlaðandi fyrir þá sem gætu hugsað sér að flytjast þangað – með meiri þjónustu og afþreyingu, fleiri veitingahúsum og tengingum út í heim. Nægt er rýmið og tækifærin mörg. 

Steiktur steinbítur á Nielsen á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Á Austurlandi búa um 11.200 manns á nærri 16 þúsund ferkílómetra svæði. Flest ferðaþjónustufyrirtækin eru rekin af fjölskyldum. Fáar keðjur eru með starfsemi, samanborið við aðra landshluta. Uppbygging ferðaþjónustu á Austurlandi er og verður mjög háð aðfluttu vinnuafli. „Á Austurlandi er samheldið fjölmenningarsamfélag með lífsgæði í forgrunni,“ sagði Jóna Árný í Valaskjálf. Hún vill laða að fleira fólk.

MYND: Austurbrú

Töluvert framboð er af gistingu en eins og Jóna Árný segir þá vantar enn upp á að ferðaþjónustan á Austurlandi sé traust heilsársgrein. 

Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði – MYND: ÓJ

„Við erum að tala um landshluta sem gæti verið nýr útgangspunktur á landinu – ef við værum með beint millilandaflug til Egilsstaða til viðbótar við millilandaferjuna á Seyðisfirði. Þá gæti fólk allt eins komið til Egilsstaða, ferðast um Austurland eða Norðausturland, farið suður og þaðan heim. Við erum staðsett akkúrat hinum megin á landinu frá helstu gáttinni – Keflavíkurflugvelli. Við höfum þess vegna í mörg ár unnið ötullega að því að fá beint millilandaflug til Egilsstaðaflugvallar.

Stóra myndin – Framtíðarsýnin – MYND: Austurbrú

Við vorum komin skrambi nálægt því núna í vor. Því miður gekk það ekki í þessari umferð en það er svo sannarlega komin sprunga í glerþakið. Nú er það okkar allra að sýna fram á að áfangastaðurinn sé tilbúinn fyrir næstu atrennu.”

Miklar vonir eru bundnar við að Stuðlagil verði einn fjölsóttasti áfangastaður landsins – MYND: Austurbrú

Jóna Árný segir að eitt af því sem fram hafi komið sé að á háönninni fyrir austan skorti innviði. Þess vegna þurfi að auka fjárfestingar til að geta haldið úti þjónustu allt árið.

„Hvort kemur á undan, hænan eða eggið? Við reyndum að fá hænuna og komumst langt. Nú erum við að tala um eggið. Þetta er ekki spurningin hvort, heldur hvenær – og hversu hratt við komumst. Möguleikarnir og fjárfestingatækifærin eru um allt svæðið. Við þurfum líka að þora að sækjast eftir því að fólk komi með okkur í þessa vegferð – að byggja upp á svæðinu.”

Egg skógarþrastarins á Djúpavogi – MYND: ÓJ

Jóna Árný nefndi að unnið væri að miðbæjarskipulagi margra bæjanna á Austurlandi en Seyðisfjörður með öll sín gömlu hús og sögu væri þegar orðinn áfangastaður fólks. Metnaður og áhugi væri í mörgum byggðalögum fyrir austan til byggja ofan á öfluga kjarnastarfsemi sem fyrir væri í atvinnulífi þeirra, búa til upplifun og lím til að samfélög héldu áfram að vaxa. Hugsanlega gæti ferðaþjónustan eflt trúna á framtíðina. 

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …