Samfélagsmiðlar

Gefið eftir í grænu byltingunni

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur neyðst til að gefa eftir í metnaðarfullri áætlun um lagasetningu til að bregðast við loftslagsvánni. Íhaldsmenn á Evrópuþinginu hafa mótmælt hraðri meðferð mála vegna pólitískrar ókyrrðar víða í aðildarríkjum rúmu ári fyrir næstu Evrópuþingskosningar.

Ursula von der Leyen á ráðstefnunni Beyond Growth í Evrópuþinghúsinu í Brussel

Ein helsta frétt gærdagsins á Íslandi var að Evrópusambandið hefði fallist á að auðvelda íslenskum flugfélögum aðlögunina að breyttu viðskiptakerfi um losunarheimildir. Þau fá auknar heimildir til losunar árin 2025 og 2026 en eftir er að útfæra þetta nánar. Fríar losunarheimildir heyra sögunni til 2027 og þá þurfa öll flugfélög sem fljúga um evrópska lofthelgi að standa skil á sinni losun, nema um annað verði samið fyrir þann tíma. Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvort Íslendingar fái einhverja frekari sérmeðferð.

Atkvæðagreiðsla á Evrópuþinginu – MYND: Evrópuþingið

Afslátturinn frá fyrri stefnu sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti fjölmiðlafólki í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær var í rauninni eins og hluti af afsláttarpakkanum sem verið er að ganga frá í Brussel í aðdraganda Evrópuþingskosninganna að ári. Það hefur slegið í bakseglin hjá Framkvæmdastjórninni. Aðildarríkin treysta sér ekki pólitískt til að keyra í gegn metnaðarfull áformin í loftslagsmálum. Ursula von der Leyen hefur orðið að viðurkenna að aðildarríki sambandsins þurfi aðeins meira svigrúm til að setja í lög öll þau fjölmörgu lagaákvæði sem í farvatninu eru í grænu byltingu Evrópusambandsins.

Evrópusambandið hafði engu að síður náð gríðarlegum árangri í að treysta græna löggjöf sína á öllum sviðum efnahagslífsins til að markmiðinu um kolefnishlutleysi árið 2050 verði náð. Financial Times bendir á að í byrjun júní 2024 fari fram Evrópuþingskosningar. Við þingmönnum blasi vaxandi pólitískir erfiðleikar heima fyrir um leið og þeir eru undir miklum þrýstingi um að samþykkja aðgerðir til að bregðast við loftslagsvandanum og verja evrópska náttúru og umhverfi til framtíðar.  

Evrópusambandsfánanum veifað á opnum degi á þinginu – MYND: Evrópuþingið

Íhaldsmenn í Lýðflokknum, stærsta flokki Evrópuþingsins og Ráðherraráðsins, hafa látið undan megnri óánægju bænda og staðið gegn tillögum á þinginu um að endurheimta villta náttúru á afræktuðu, uppblásnu eða spilltu landi og á sjávarbotni – og draga úr notkun skordýraeyðis. Ursula von der Leyen tilheyrir flokki íhaldsmanna í Evrópusamstarfinu en bæverskur félagi hennar, Manfred Weber, formaður Lýðflokksins á Evrópuþinginu, fagnaði einmitt undanlátssemi Framkvæmdastjórnarinnar, sem fæli í sér að fara ætti betur yfir málin: „Ef loftslagið vinnur en samfélagið tapar næst ekkert kolefnishlutleysi,” er haft eftir Weber í Financial Times.  

Manfred Weber, leiðtogi íhaldsmanna á Evrópuþinginu – MYND: Twitter

Fjöldi tillagna um loftslagsaðgerðir Evrópusambandsins bíða afgreiðslu, bæði um losun gróðurhúsalofttegunda, meðferð umbúða, aðgerðir gegn örplasti í umhverfi og hvernig endurheimta megi jarðvegsgæði. Þá eru enn miklar umræður um hvernig standa eigi að banni við sprengihreyflum í bíla. Þar eru bæði Þjóðverjar og Ítalir tregir í taumi, vilja verja rétt sinn til að framleiða kraftmikla bíla. Þá eru öflugir þrýstihópar bænda og iðnaðarins í Evrópu andsnúnir mörgu því sem lagt er til í grænni byltingu Evrópusambandsins vegna samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðlegum mörkuðum. Boðaðar umhverfisreglur þrengi svigrúm og dragi úr afkastagetu. 

Á sama tíma og öll togstreita fer fram á vettvangi Evrópusamvinnunnar er haldin ráðstefna á vegum Evrópuþingsins í samvinnu við fjölmörg samtök og hagaðila í atvinnulífinu um sjálfbærnimál og hvað taka eigi við að loknu vaxtarskeiðinu sem valdið hefur umverfistjóninu sem stjórnmálamenn og almenningur þurfa nú að kljást við. Ráðstefnan heitir Beyond Growth 2023 og er haldin í húsi Evrópuþingsins í Brussel.

Ursula von der Leyen setti ráðstefnuna en flaug svo til Íslands til fundar við evrópska leiðtoga.

Ursula von der Leyen flytur ávarp við upphaf ráðstefnunnar Beyond Growth – MYND: Evrópuþingið
Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …