Samfélagsmiðlar

Miklu ódýrara þotueldsneyti en lækkunin skilar sér ekki öll til flugfélaganna

Olíuverð hefur lækkað hratt að undanförnu en kaup á þotueldsneyti eru annar af tveimur stærstu kostnaðarliðunum í rekstri flugfélaga.

Þegar olíuverðið rauk upp í fyrra þá hækkuðu Icelandair og Play svokallað eldsneytisálag. Sú viðbót hefur ekki verið dregin tilbaka.

Icelandair borgaði 8,9 milljarða króna fyrir eldsneyti á þoturnar fyrstu þrjá mánuði ársins og hjá Play hljóðaði reikningurinn upp á 2 milljarða. Þennan fyrsta fjórðung ársins var markaðsverð á þotueldsneyti hátt í 1.100 dollarar að jafnaði.

Í dag er verðið 715 dollarar og hefur það ekki verið lægra síðan í nóvember árið 2021.

Flugfélögin njóta þó ekki þessarar verðlækkunar að öllu leyti þessa dagana því stjórnendur þeirra hafa gert framvirka samninga um kaup á eldsneyti fyrir næstu mánuði. Þannig hefur Icelandair fest verðið á helmingi olíunotkunarinnar á yfirstandandi ársfjórðungi, apríl til júní, á 897 dollara. Play borgar að jafnaði 919 dollara fyrir 45 prósent af sinni eldsneytisþörf á þessu tímabili.

Á þriðja ársfjórðungi, júlí til september, hefur Icelandair skuldbundið sig til að greiða 878 dollara fyrir helming af eldsneytinu en Play 922 dollara fyrir 4 af hverjum 10 tonnum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Sem fyrr segir þá er stór hluti af kostnaði flugrekenda bundinn kaupum á eldsneyti og til að draga úr sveiflum í rekstrinum þá gera flugfélög oft samninga um kaup á eldsneyti á ákveðnu verði fram í tímann. Þannig er komið í veg fyrir að umtalsverðar verðhækkanir á olíu hafi mikil áhrif á reksturinn með stuttum fyrirvara.

Wow Air var aldrei með svona varnir en Icelandair hefur hins vegar lengi haft þann háttinn á að kaupa alla vega helmingin af notkuninni langt fram í tímann. Festi félagið þá vanalega verðið á 54 prósentum af eldsneytisþörfinni til næstu 12 mánaða og 10 prósent af notkuninni fyrir næstu sex mánuði þar á eftir. Þessi stefna var lögð til hliðar í heimsfaraldrinum og hlutföllin því önnur í dag eins og sjá má hér fyrir ofan.

Greiddu yfirverð í ársbyrjun

Svona eldsneytisvarnir eru í raun veðmál milli flugfélaga og mótaðila, annar tapar og hinn græðir allt eftir því hvernig heimsmarkaðsverðið sveiflast. Og miðað við uppgjör Icelandair og Play fyrir fyrsta fjórðung borguðu félögin yfirverð að einhverju leyti vegna þessara samninga. Hjá Play var bókfært tap vegna olíuvarna 344 milljónir kr. en 284 milljónir hjá Icelandair.

Spár gerðu ráð fyrir miklu lægra verði

Það er erfitt og jafnvel ómögulegt að sjá fyrir þróun á olíuverði því stríðsátök og ákvarðanir einræðisherra geta haft gríðarleg áhrif. Heimsmarkaðsverðið rauk til að mynda upp í fyrra þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Verðið í fyrra var því miklu hærra en gert hafði verið ráð fyrir í spám sem sérfræðingar Icelandair og Play gáfu út í tengslum við hlutafjárútboð félaganna á sínum tíma.

Í kynningargögnum á útboði Play sumarið 2021 var miðað við að verð á tonni af þotueldsneyti gæti farið upp í 660 dollara sem á þeim tímapunkti var tíu prósent hærra en markaðsverðið. Í útboði Icelandair haustið 2020 var kynnt spá um að meðalverð á þessu ári yrði 466 dollarar.

Ekki algilt að verðið hækki yfir sumarið

Sem fyrr segir er verðið í dag 715 dollarar en á árunum 2016 til 2018 hækkaði það vanalega yfir sumarmánuðina þegar eftirspurnin var mest. Árið 2019 tók verðið dýfu í maí og hélst svo lægra yfir sumarvertíðina en það hafði verið á fyrsta ársfjórðungi þess árs.

Hvort það gerist aftur í ár er þó ómögulegt að segja til um en ljóst er að bæði Icelandair og Play munu borga hátt í 900 dollara fyrir helming af sínu eldsneyti í sumar.

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …