Samfélagsmiðlar

Óvissa til sölu

„Er hægt að markaðssetja óvissuna sem vetrarmánuðurnir skapa? Er hægt að gera þessa óvissu aðlaðandi?” Þannig spurði Hildur Sveinbjörnsdóttir, fyrirtækjaráðgjafi hjá Arctica Finance, á málþingi um fjárfestingarmöguleika í ferðaþjónustu á Austurlandi. Mikil árstíðasveifla einkennir ferðaþjónustuna eystra. Tækifærin felast í því að laða fleiri að yfir vetrartímann.

Hildur Sveinbjörnsdóttir, fyrirtækjaráðgjafi hjá Arctica Finance

Arctica Finance hefur komið að ýmsum stórum fjármögnunarverkefnum í ferðaþjónustu á síðustu árum. Fyrirtækið veitti þremur lífeyrissjóðum ráðgjöf í hlutabréfaútboði Icelandair, vann með Travel Connect við kaup á Terra Nova og Iceland Travel, sá um hlutabréfaútboð Play og skráningu á First North, veitti Landhotel ráðgjöf við fjárhagslega endurskipulagningu og aðstoðaði við samruna Kynnisferða og Eldeyjar í Icelandia og við kaupin á Actice. 

Nú er spurningin hvort einhver stórverkefni birtist fyrir austan.

Við Gufufoss í Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Hildur Sveinbjörnsdóttir, fyrirtækjaráðgjafi hjá Arctica Finance, ræddi á málþingi á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum í vikunni möguleikana í fjárfestingum í ferðaþjónustu á Austurlandi. Hún byrjaði á hinum árþúsunda gömlu vangaveltum um það hvort komi á undan hænan eða eggið í því skyni að meta hvort fyrst ætti að sækja fjármagn og byggja upp innviði ferðaþjónustu á Austurlandi – og laða síðan að ferðamenn, eða hvort ætti sækjast eftir því að fá sem flesta ferðamenn til að fjárfestar sjái og sannfærist um að fjárfesting þeirra geti verið arðbær. 

Gömul hús á Fáskrúðsfirði – MYND: ÓJ

Hvort kemur á undan – hænan eða eggið? Á Djúpavogi – MYND: ÓJ

Suðurland dregur til sín flesta ferðamenn. Þangað streyma þeir beint frá Keflavíkurflugvelli eða frá gististað í Reykjavík allt austur í Reynisfjöru eða að Jökulsárlóni, fram og til baka á einum degi, eða aka Gullna hringinn. Allt eru þetta staðir sem eru vel og rækilega markaðssettir. Staðan á Austurlandi er allt önnur – í þeim landshluta sem fjærstur er alþjóðaflugvellinum.

MYND: Arctica Finance

Á meðan 70-80 prósent erlendra ferðamanna fara um Suðurland fær Austurland aðeins 20-30 prósent þeirra. Árstíðasveiflan er lítil á Suðurlandi, umferðin nokkuð jöfn árið um kring, en til Austurlands kemur þorri ferðamanna á tímabilinu frá apríl og fram í október. Lægsta hlutfall heimsókna á Suðurlandi er um 70 prósent en 8 prósent á Austurlandi. Þarna er himinn og haf á milli, eins og fram kom í máli Hildar Sveinbjörnsdóttur.

Stuðlagil – MYND: Austurbrú

Borgarfjörður eystri. Fremst Hafnarhólmi – MYND: Austurbrú

Það er enginn skortur á seglum á Suðurlandi til að draga að ferðafólk, sem getur séð þá flesta á einum eða tveimur dögum. Austurland á líka sína segla. Hildur nefndi Stuðlagil, Hafnarhólma og Hengifoss. „Austurland á dýrmætar perlur en það þarf að markaðssetja þær enn frekar til þess að draga fleiri ferðamenn að – sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Gott væri ef markaðssetningin væri samspil hins opinbera, sveitarfélaga og hagaðila á svæðinu,” sagði Hildur. Starfsfólk Austurbrúar í salnum lyftu hugsanlega brúnum. Austurbrú er einmitt vettvangur þessa markaðsstarfs. 

MYND: Arctica Finance

Það er varla hægt að bera saman 1.000 heimsóknir ferðamanna í Stuðlagil í ágúst við aðeins 10 manns á dag í desember og fram í janúar – og kalla það sveiflu. Það er eiginlega nær að segja að nánast enginn fari í Stuðlagil á veturna. Þar er bergið í klakaböndum og óvíst hvort aðdráttaraflið sé það sama og á sumardegi. Þetta er líka auðvitað spurning um aðgengi og öryggi, eins og Hildur nefndi. „Mögulega eru ákveðnir áfangastaðir óraunhæfir yfir vetrarmánuðina. Eru þá aðrir sem henta betur og hægt er að markaðssetja? Er hægt að markaðssetja óvissuna sem vetrarmánuðurnir skapa? Er hægt að gera þessa óvissu aðlaðandi?”

Stórt er spurt. 

Á Fjarðarheiði – MYND: ÓJ

MYND: Arctica Finance

Fram kom í erindinu að umferð á Austurlandi er fjórum sinnum meiri í ágúst en í janúar. Hildur segir óraunhæft að búast við að umferðin verði álíka í þessum tveimur mánuðum, tækifærin felist í að fjölga skipulögðum ferðum frekar en að draga að fólk í bílaleigubílum við vetraraðstæður. Hún telur að ferðaþjónustufólk fyrir austan gæti sameinast um að skapa aðstæður fyrir skipulagðar óvissu- og ævintýraferðir á veturna. Til að byrja með mætti setja af stað tilraunaverkefni af þessu tagi i samstarfi við rútufyrirtæki. „Ef óvissan er markaðssett með aðstoð opinberra aðila og ferðamönnum fjölgar yfir vetrarmánuðina þá ættu fjárfestar að sjá aukin tækifæri til fjárfestinga á svæðinu.“ 

Ein ævintýraleiðin liggur um Öxi – MYND: ÓJ

MYND: Arctica Finance

Það hafa helst verið Byggðastofnun og sparisjóðir heimamanna, frekar en stóru bankarnir, sem lánað hafa fé til uppbyggingar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni, sagði Hildur, og benti á hið augljósa að það þarf að laða að fleiri fjárfesta að verkefnum. „Með markaðssetningu á náttúruperlum Austurlands, samstarfi hagsmunaaðila og uppbyggingu á óvissuferðum yfir vetrarmánuðina – og samstarfi við fjárfesta á svæðinu – ætti ferðamönnum að fjölga yfir vetrarmánuðina. Um leið og axlarmánuðirnir eru farnir að skila frekari tekjum þá verður fjárfestingin arðbærari fyrir nýja fjárfesta, og aðgengi að fjármagni í uppbyggingu yrði aðgengilegra.“ 

Hreindýr í ætisleit – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …