Samfélagsmiðlar

Ríkisstuðningur við flugfélög getur gefið góða ávöxtun

Farin var önnur leið í fjárhagslegri aðstoð við flugrekstur á Íslandi en í Noregi og Þýskalandi, þar sem stuðningur var tengdur eignarhlut eða rétti til hlutafjárkaupa.

Norska ríkið fær nú kost á að breyta lánum sínum til Norwegian í hlutafé. Gengi hlutabréfanna hefur hækkað um fjórðung síðustu vikur.

Þegar heimsfaraldurinn hófst og botninn datt úr rekstri flugfélaga fengu mörg þeirra myndarlegan stuðning frá hinu opinbera. Fyrirkomulagið á þessum styrkjum var með ýmsum hætti og í sumum tilvikum eignaðist ríkissjóður umtalsverðan hlut í flugfélögunum.

Þýsk stjórnvöld fóru þá leið þegar Lufthansa var rétt hjálparhönd í upphafi kórónuveirufaraldursins með 9 milljarða evru innspýtingu. Ríkissjóður eignaðist um leið fimmtungshlut í þessari stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu en hlutabréfin voru seld í fyrra og hagnaðist þýska ríkið um 760 milljónir evra á viðskiptunum.

Þotur Lufthansa í Frankfurt sem er helsta starfsstöð félagsins. -Mynd: Lufthansa

Sú upphæð jafngildir um 115 milljörðum íslenskra króna í dag en til samanburðar er markaðsvirði Icelandair 74 milljarðar króna.

Bréfin rokið upp síðustu daga

Nú er röðin komin að norskum stjórnvöldum að innleysa hagnað af stuðningi sínum við Norwegian. Um mánaðamótin hefur norska ríkið nefnilega kost á því að breyta lánum sínum til flugfélagsins í hlutafé. Lánsupphæðin nemur 1,2 milljörðum norskra króna og svo lengi sem gengi hlutabréfanna í Norwegian er hærra en 9,39 krónur á hlut þá kemur norski ríkissjóðurinn út í plús, ef láninu verður breytt í hlutabréf og þau seld.

Gengi hlutabréfa í Norwegian hefur hækkað um 24 prósent síðastliðinn mánuð og er í dag 12,68 krónur.

Fá líka hlut í SAS

Til viðbótar við fyrrnefnt lán þá fékk Norwegian einnig almenna opinbera styrki í heimsfaraldrinum og þarf gengi hlutabréfa í flugfélaginu að fara upp í 13,5 krónur á hlut ef norska ríkið ætlar að fá allan stuðning sinn við Norwegian, á árunum 2020 og 2021, tilbaka samkvæmt frétt Dagens Næringsliv.

Þotur keppinautanna Norwegian og SAS við Gardermoen í Ósló. -Mynd: Avinor

Það er hins vegar útlit fyrir að ríkisstuðningurinn til SAS muni ekki skila sér í nánustu framtíð. Norskir ráðamenn hafa þó gefið út að lánveitingum til flugfélagsins verður breytt í eignarhlut í boðuðu hlutafjárútboði flugfélagsins síðar á þessu ári.

ASÍ lagði til að ríkið fengi veð í hlutafé

Icelandair Group var það fyrirtæki hér á landi sem fékk langhæstu uppsagnarstyrkina í heimsfaraldrinum eða hátt í fjóra milljarða króna. Til viðbótar samþykkti Alþingi að veita flugfélaginu ríkisábyrgð á láni upp á um 15 milljarða króna gegn veði í vörumerki, bókunarkerfi og lendingaleyfum. Í umsögn sinni benti Ríkisendurskoðun á að afar ósennilegt væri að þessar eignir myndu standa undir kröfum sem numið gætu allt að 15 milljörðum kr.

„Annar möguleiki í stöðunni væri að ríkissjóður eignaðist hlut í félaginu ef gengið yrði á ábyrgðir eða hreinlega tæki rekstur þess yfir með það fyrir augum að finna síðar mögulega eigendur,“ sagði jafnframt í umsögn Ríkisendurskoðunar.

Þarna var bara horft til þess að íslenska ríkið eignaðist hlut í Icelandair ef allt færi á versta veg. Í umsögn ASÍ um opinberu lánalínuna til Icelandair var aftur á móti nefndur sá kostur að ríkið eignaðist hlut í Icelandair sem hefði þá verið í takt við þá leið sem Norðmenn og Þjóðverjar fóru.

Bandarísk fjárfesting í stað íslenskrar lánalínu

Icelandair nýtti aldrei þessa lánalínu þó tilvist hennar hafi komið félaginu vel, til að mynda í hlutafjárútboði haustið 2020 líkt og Ríkisendurskoðun benti á.

Stærsti hluthafinn í Icelandair í dag er bandarískur fjárfestingasjóður. Mynd: ÓJ

Ein skýringin á því að flugfélagið þurfti ekki á fjármagninu að halda er sú staðreynd að í sumarbyrjun 2021 fékk félagið inn 8 milljarða króna með útgáfu á nýju hlutafé til bandaríska lánasjóðsins Bain Capital Credit í byrjun sumars 2021. Um leið þynntist hlutur þáverandi hluthafa um 16 prósent. Þessi fjárfesting Bain Capital hefur í dag hækkað um 26 prósent.

Icelandair afsalaði sér hinni opinberu lánalínu í febrúar í fyrra og tveimur dögum síðar var nýtt bónuskerfi fyrir stjórnendur kynnt. En eins og Túristi fór yfir á sínum tíma þá hefði það verið erfitt fyrir stjórn Icelandair að leggja til þessar kjarabætur ef lánalínan hefði verið virk því það hefði mögulega stangast á við hluta af skilmálum lánveitingarinnar. Einnig hefði umræðan um kjarabæturnar mögulega ratað inn á Alþingi í framhaldinu.

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …