Samfélagsmiðlar

Stækkunaráformin óbreytt

Þotunum hjá Play mun áfram fjölga næstu ár.

Þó afkoma Play hafi ekki verið í takt við það sem lagt var upp með þá hafa áætlanir félagsins um stækkun flugflotans ekki breyst. Fyrsta sumarið var félagið með þrjár þotur og aðrar þrjár bættust við fyrir síðustu sumarvertíð.

Nú í sumar mun floti Play samanstanda af 10 nýlegum Airbus þotum og er þetta í takt við þá áætlun sem kynnt var fjárfestum í tengslum við hlutafjárútboð fyrir tveimur árum síðan. Þar söfnuðust rúmlega 10 milljarðar króna en eftirspurnin eftir hlutabréfum í félaginu var langtum meiri en framboðið.

Í fyrrnefndri fjárfestingakynningu sagði að félagið gerði ráð fyrir að vera með tólf þotur árið 2024 og fimmtán árið 2025. Spurður um þessi áform þá segir Birgir Olgeirsson, talsmaður Play, að flotaplanið sé óbreytt.

Ekki fást svör um hversu langt félagið er komið í að leigja nýjar þotur en ljóst má vera að leiguverðið í dag er mun hærra en það var árið 2021 þegar Play var að fara í loftið. Þá buðu flugvélaleigur óvenju góð kjör vegna ástandsins sem Covid-19 hafði valdið. Forsvarsfólk Play kom því líka reglulega á framfæri að félagið þyrfti aðeins að borga fyrir þoturnar þegar þær væru í notkun.

Af þessum sökum flaug Play aldrei á miðvikudögum fyrsta sumarið þar sem eftirspurn eftir flugi á þeim degi var minni en aðra daga.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Birgir Jónsson, forstjóri Play, þegar hlutabréf flugfélagsins voru skráð á markað í júlí 2021.

Sem fyrr segir hefur tapið hjá Play verið mun meira en reiknað var með þegar flugfélagið fór í loftið. Rekstrartapið (Ebit) í fyrra nam til að mynda 44 milljónum dollara en í fjárfestakynningunni árið áður var spáð rekstrarhagnaði upp á 11 milljónir dollara. Í heildina tapaði Play 14 milljörðum króna frá ársbyrjun 2021 og fram í lok fyrsta fjórðungs 2023 en skýringin liggur meðal annars í óvenju háu olíuverði.

Stærstu hluthafar félagsins lögðu rúmlega tvo milljarða til viðbótar í reksturinn undir lok síðasta árs og nýttu sumir hluthafar þessa aukningu til að stækka hlut sinn í Play, þar á meðal lífeyrissjóðurinn Birta og sjóðir á vegum Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka.

Kjartan Smári Höskuldsson er framkvæmdastjóri Íslandssjóða. Mynd: Íslandssjóðir

„Að koma flugfélagi á laggirnar er kostnaðarsamt verkefni og mikil áskorun að skila góðri afkomu í upphafi rekstrar. Á sama tíma hefur félagið lent í erfiðum ytri aðstæðum og hefur einungis nýverið náð þeim skala sem þarf til að geta skilað góðri rekstrarniðurstöðu. Fjárfesting okkar í Play er hugsuð til lengri tíma. Trú okkar á viðskiptalíkani félagsins hefur vaxið frekar en hitt og horfum við mjög björtum augum til framtíðar Play,“ sagði Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, í samtali við Túrista um fjárfestinguna.

Í dag eiga sjóðir í rekstri Íslandsssjóða 9,73 prósent hlut í Play en stærsti hluthafinn, Leika fjárfestingar, fer fyrir 10,87 prósentum. Næststærsti hluthafinn er sjóðastýringafyrirtækið Stefnir með samtals 10,32 prósent sem skiptist á tvo sjóði.

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …