Samfélagsmiðlar

„Úti er ævintýri“

Stjórn Niceair hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, stofnandi félagins og stjórnandi, greindi frá þessu í kvöld: „Það er orðið ljóst að ekki reyndist unnt að bjarga því sem eftir var af Niceair eftir margra vikna lífróður."

Vél Niceai í aðflugi til Akureyrar

Vél Niceair í aðflugi til heimabæjarins - Akureyrar

Niceair starfaði í 10 mánuði og hélt úti áætlunarflugi frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife, auk þess sem farið var í stakar ferðir til annarra staða. Fyrsta ferðin var farin í byrjun júní 2022 en í vor var draumurinn úti í bili um beina flugtengingu Akureyrar við útlönd árið um kring.

Frumkvöðullinn Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, sem allir fyrir norðan kalla einfaldlega Lúlla, játar sig sigraðan á Facebook-síðu sinni í kvöld. Færslan ber yfirskriftina „Úti er ævintýri” og þar lýsir Þorvaldur Lúðvík leiðarlokum Niceair:

Flugvél Niceair

Flugvél Niceair – MYND: Niceair

„Ég reyndi til hins ítrasta að fá fjárfesta að verkefninu og bjarga því sem bjargað varð, taka skref til baka til að taka flugið í vetur eða næsta vor. Áætlaður kostnaður við þann biðleik hljóp á 90 -135 milljónum. Síðan þyrfti að endurfjármagna þegar flug myndi hefjast á nýjum forsendum. Undanfarnar vikur var lögð mikil vinna í að ræða við fjárfesta utan hluthafahópsins, en oftar en ekki endaði samtalið á að þið hljótið að redda þessu sjálf fyrir norðan. Það reyndist svo ekki ganga eftir.“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson fyrir framan Gránufélagshúsin á Akureyri – MYND: ÓJ

Þorvaldur Lúðvík telur augljóslega að beint flug milli Akureyrar og annarra Evrópulanda sé enn raunhæfur möguleiki. En hann segir að þessi skakkaföll hafi stöðvað Niceair:

1. Ekki voru til staðar flugheimildir hjá samstarfsaðila milli Íslands og Bretlands, eins og hafði verið. boðað.

2. Samstarfsaðili lenti í vanskilum við eiganda vélarinnar og hún var gerð upptæk.

Án flugvélar verða ekki til tekjur hjá flugfélagi, bendir Þorvaldur Lúðvík réttilega á:

„Það er ekkert launungarmál að við höfðum verið að leita eftir meira fjármagni hjá fjárfestum undanfarna mánuði. Voru ýmis mið reynd, en í lokin tókst okkur þó að tryggja fjármagn til þess að fara inn í sumarið, m.a. með fulltyngi Byggðastofnunar, en það varð allt að engu þegar okkar samstarfsaðili missti vélina sem þýddi að við vorum flugvélalaus með fullt af farþegum út um allt um páskana. Engan veginn gekk að fá aðra vél á þessum tíma, né síðar. Veruleg umframeftirspurn er nú eftir flugvélum og leiguverð hefur hækkað skarpt, sem kannski skýrir þann leik sem síðar fór í gang þegar HiFly greiddi ekki af vélinni “okkar”.

Með falli Niceair hafa margir orðið fyrir áfalli. Þorvaldur Lúðvík gerir sér grein fyrir því og segir á Facebook:

„Það er mjög þungbært að hugsa til þess að almenningur verði fyrir fjártjóni og hluthafar sjái á bak miklum fjármunum, sem voru notaðir til að búa til gott félag sem veitti góða þjónustu, en entist ekki líf til að komast upp úr sandkassanum.

Það er einnig þungbært að sjá á bak vinnustað sínum og samstarfsfólki, á sama tíma og það verður endanleg niðurstaða að draumur minn og mjög margra annarra, er úti að sinni.

Ég hafði ástríðu og hjarta í þetta verkefni, en ástæður þrots má að flestu leyti rekja til sviksamlegra viðskipta erlends samstarfsaðila okkar, sem gerði okkur ókleyft að halda áfram, þótt vitanlega hafi verið gerð mistök hér heima líka.

Ég lagði líf og sál, ómældan svita og andvökunætur í að láta þetta ganga upp.

Þessum kafla er lokið hjá mér.“

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …