Samfélagsmiðlar

Franska ríkisstjórnin tekur dýrtíðina föstum tökum

Vaxandi dýrtíð er áhyggjuefni í Frakkland eins og víðar en stjórnvöld láta ekki innantóm orð duga í baráttu gegn henni. Nú hótar fjármálaráðherrann stórframleiðendum matvæla efnahagslegum refsiaðgerðum ef þeir standa ekki við samkomulag um að lækka verð um 10 prósent.

Frönsk matvöruverslun

Franska ríkisstjórnin hefur á síðustu mánuðum gripið til fjölmargra ráðstafana til að hemja verhækkanir í landinu. Í febrúar náði Bruno La Maire, fjármálaráðherra, samkomulagi við stærstu keðjur matvælaverslana um að hafa á boðstólum vörur á besta fáanlega verði á komandi mánuðum. Þá var verðbólga í Frakklandi 7,2 prósent. Ákveðið var að í júní yrði staðan endurmetin og ákveðið hvort samið yrði að nýju um aðgerðir gegn verðbólgu. Fjármálaráðherrann sagði að ljóst væri að umræddar aðgerðir myndu kosta verslanakeðjurnar háar fjárhæðir.

Fljótlega brustu þó á nýjar hækkanir á verði matvæla. Í mars hækkaði matvælaverð í Frakklandi að meðaltali um 10 prósent. Framleiðendur og heildsalar sögðu að verið væri að bregðast við hækkun tilkostnaðar undangengið ár vegna launaþróunar og afleiðinga stríðsins í Úkraínu. Afleiðingin varð sú að Frakkar mættu vaxandi verðbólgu einfaldlega með því að minnka matarkaup sín, sem eru auðvitað stórtíðindi í þessu landi sælkeranna.  Á sama tíma batnaði stórlega afkoma stórframleiðenda matvæla. Við það ætlaði franska ríkisstjórnin ekki að una. 

Hluti af þeim vörum sem Unilever, Nestlé, Pepsico, Kraft Heinz og Danone selja í Frakklandi

Tilkynnt var í gær um samkomulag frönsku ríkisstjórnarinnar við 75 stóra matvælaframleiðendur um 10 prósenta lækkun á mörg hundruð vöruflokkum strax í næsta mánuði. Fjármálaráðherrann, Bruno La Maire, segir að hart verði gengið eftir því að lækkunin skili sér ella hljóti framleiðendurnir verra af. Ráðherrann hótar efnahagslegum refsiaðgerðum og að hann muni nafngreina þau fyrirtæki sem brjóti samkomulagið við frönsku þjóðina. Meðal matvælafyrirtækjanna sem um ræðir eru Unilever, Nestlé, Pepsico, Kraft Heinz og Danone. 

„Verð á tilteknum vöruflokkum lækkar strax í júlí. Fylgst verður með því að það gangi eftir og þeim fyrirtækjum sem óhlýðnast verður refsað,“ sagði Bruno La Maire, fjármálaráðherra, í viðtali á fréttastöðinni BFM TV í gær eftir fund með fulltrúum matvælaiðnaðarins. Meðal matvæla sem lækka eiga í verði eru pasta, kjúklingar og matarolía. Ráðherrann sagði að ef þau 75 fyrirtæki sem framleiða 80 prósent af því sem Frakkar borða daglega stæðu ekki við fyrirheit um lækkun myndi hann nefna þau opinberlega – þeim til háðungar og skammar. Þessu gætu hann lofað.

Bruno La Maire, fjármálaráðherra Frakklands, í viðtalinu á BFM-fréttastöðinni – SKJÁMYND: BFM TV

Víða um lönd beita stjórnvöld sér lítt gagnvart framleiðendum og seljendum til að hemja verðbólgu. Þannig er þessu ekki farið í Frakklandi og betri árangur hefur náðst þar en víðast í baráttunni við verðbólguna. Hún mælist nú innan við 6 prósent á ársgrundvelli.

Ríkisstjórnin hefur brugðist hart við því að lækkun á mörgum tegundum hráefna hefur ekki skilað sér sem lækkun á framleiddum vörum. Þvert á móti hafa verðhækkanir farið langt fram úr því sem búist hafði verið við. Fjármálaráðherrann hefur áður hótað sérstökum skatti til að sækja óviðeigandi hagnað matvælaframleiðenda sem létu ekki neytendur njóta verðlækkana á hráefnum. Neytendur ættu í nógu basli fyrir vegna hækkandi orkureikninga. Ef áætlun fjármálaráðherrans gengur eftir á matvöruverðið að lækka hratt að nýju á komandi vikum.

MYND: Mathias Reding/Unsplash

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …