Samfélagsmiðlar

Franska ríkisstjórnin tekur dýrtíðina föstum tökum

Vaxandi dýrtíð er áhyggjuefni í Frakkland eins og víðar en stjórnvöld láta ekki innantóm orð duga í baráttu gegn henni. Nú hótar fjármálaráðherrann stórframleiðendum matvæla efnahagslegum refsiaðgerðum ef þeir standa ekki við samkomulag um að lækka verð um 10 prósent.

Frönsk matvöruverslun

Franska ríkisstjórnin hefur á síðustu mánuðum gripið til fjölmargra ráðstafana til að hemja verhækkanir í landinu. Í febrúar náði Bruno La Maire, fjármálaráðherra, samkomulagi við stærstu keðjur matvælaverslana um að hafa á boðstólum vörur á besta fáanlega verði á komandi mánuðum. Þá var verðbólga í Frakklandi 7,2 prósent. Ákveðið var að í júní yrði staðan endurmetin og ákveðið hvort samið yrði að nýju um aðgerðir gegn verðbólgu. Fjármálaráðherrann sagði að ljóst væri að umræddar aðgerðir myndu kosta verslanakeðjurnar háar fjárhæðir.

Fljótlega brustu þó á nýjar hækkanir á verði matvæla. Í mars hækkaði matvælaverð í Frakklandi að meðaltali um 10 prósent. Framleiðendur og heildsalar sögðu að verið væri að bregðast við hækkun tilkostnaðar undangengið ár vegna launaþróunar og afleiðinga stríðsins í Úkraínu. Afleiðingin varð sú að Frakkar mættu vaxandi verðbólgu einfaldlega með því að minnka matarkaup sín, sem eru auðvitað stórtíðindi í þessu landi sælkeranna.  Á sama tíma batnaði stórlega afkoma stórframleiðenda matvæla. Við það ætlaði franska ríkisstjórnin ekki að una. 

Hluti af þeim vörum sem Unilever, Nestlé, Pepsico, Kraft Heinz og Danone selja í Frakklandi

Tilkynnt var í gær um samkomulag frönsku ríkisstjórnarinnar við 75 stóra matvælaframleiðendur um 10 prósenta lækkun á mörg hundruð vöruflokkum strax í næsta mánuði. Fjármálaráðherrann, Bruno La Maire, segir að hart verði gengið eftir því að lækkunin skili sér ella hljóti framleiðendurnir verra af. Ráðherrann hótar efnahagslegum refsiaðgerðum og að hann muni nafngreina þau fyrirtæki sem brjóti samkomulagið við frönsku þjóðina. Meðal matvælafyrirtækjanna sem um ræðir eru Unilever, Nestlé, Pepsico, Kraft Heinz og Danone. 

„Verð á tilteknum vöruflokkum lækkar strax í júlí. Fylgst verður með því að það gangi eftir og þeim fyrirtækjum sem óhlýðnast verður refsað,“ sagði Bruno La Maire, fjármálaráðherra, í viðtali á fréttastöðinni BFM TV í gær eftir fund með fulltrúum matvælaiðnaðarins. Meðal matvæla sem lækka eiga í verði eru pasta, kjúklingar og matarolía. Ráðherrann sagði að ef þau 75 fyrirtæki sem framleiða 80 prósent af því sem Frakkar borða daglega stæðu ekki við fyrirheit um lækkun myndi hann nefna þau opinberlega – þeim til háðungar og skammar. Þessu gætu hann lofað.

Bruno La Maire, fjármálaráðherra Frakklands, í viðtalinu á BFM-fréttastöðinni – SKJÁMYND: BFM TV

Víða um lönd beita stjórnvöld sér lítt gagnvart framleiðendum og seljendum til að hemja verðbólgu. Þannig er þessu ekki farið í Frakklandi og betri árangur hefur náðst þar en víðast í baráttunni við verðbólguna. Hún mælist nú innan við 6 prósent á ársgrundvelli.

Ríkisstjórnin hefur brugðist hart við því að lækkun á mörgum tegundum hráefna hefur ekki skilað sér sem lækkun á framleiddum vörum. Þvert á móti hafa verðhækkanir farið langt fram úr því sem búist hafði verið við. Fjármálaráðherrann hefur áður hótað sérstökum skatti til að sækja óviðeigandi hagnað matvælaframleiðenda sem létu ekki neytendur njóta verðlækkana á hráefnum. Neytendur ættu í nógu basli fyrir vegna hækkandi orkureikninga. Ef áætlun fjármálaráðherrans gengur eftir á matvöruverðið að lækka hratt að nýju á komandi vikum.

MYND: Mathias Reding/Unsplash

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …