Samfélagsmiðlar

Grikkir þurfa að tengja

Það fer ekki framhjá þeim sem gengur um miðborg Aþenu hversu margir bílar og mótorhjól eru þar á götunum. Langflest ökutækin eru knúin jarðefnaeldsneyti. Aþena er meðal menguðustu evrópskra borga, Grikkir verða að spýta í lófana ef takast á að útrýma mengandi bílum á næsta áratug.

Við Varvakeios-miðbæjarmarkaðinn í Aþenu

Aþena getur ekki státað af loftgæðum, síst í miðborgin um miðjan dag í sumarhita. Maður andar léttar uppi á Akrópólishæð og niðri í Plaka-hverfinu, þar sem menn reyna þó stöðugt að troða sér í gegn akandi. Þessi borg sem hefur haft svo mikil áhrif í sögu mannkyns og getur státað af svo mörgu er númer 269 af 375 á loftmengunarlista evrópskra borga og stórbæja. Staðir sem aftast eru á listanum eru með minnstu loftgæðin. Reykjavík var í sjöunda sæti á síðasta listanum – í hópi staða með hreinasta loftið. Íbúar í Aþenu og svæðinu í kring eru um 3,1 milljón en á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi búa aðeins 243 þúsund manns.

Ástandið hefur þó verið að skána í Aþenu, eins og víðar, en það miðar of hægt. Og þótt Aþena sé í hópi borga Evrópu þar sem mengun er töluverð eða mikil þá teljast loftgæðin viðunandi nema fyrir þá sem veikir eru fyrir. Þá ræður veðurlag og umferðarþungi dagsins auðvitað miklu um loftgæðin – að ekki sé talað um hvort skógar- eða kjarreldar logi í fjöllunum í kringum borgina eins og síðasta sumar. Þá þurftu hundruð manna að yfirgefa heimili sín og átökin við eldana reyndu mjög á alla innviði. Vonandi þurfa Grikkir ekki að fást við slíka elda í sumar.

Raftengdir almenningsvagnar og mótorhjól í Aþenu – MYND: ÓJ

Túristi jók á loftslagsvanda Aþeninga og pantaði leigubíl til að flytja sig á flugvöllinn snemma morguns á laugardegi. Bílstjórinn hét Theodore, skrafhreifinn náungi á miðjum aldri. Hann lætur sig dreyma um Íslandsferð að vetri til. Ekki kemur til greina fyrir atvinnubílstjóra að leggjast í ferðalög um hábjargræðistímann. Theodore hafði lesið sér til um Ísland og þekkti til íslensks fótbolta. Það gerði reyndar líka þjónn sem vildi lokka Túrista inn á veitingahús í Plaka-hverfinu með því að telja upp íslensk fótboltalið: „Valur, Fram, KR…“.

Theodore undir stýri. Greið leið framundan á flugvöllinn – MYND: ÓJ

Gulur Skoda-bílinn flutti Túrista hratt og örugglega út á flugvöllinn við Aþenu sem kenndur er við stjórnmálaskörunginn og forsætisráðherrann Eleftherios Venizelos, föður nútíma Grikklands.

Við vorum það snemma á ferð að umferð var ekki ýkja mikil. Eftir samræður um heita hveri, íslenskt veðurlag, fótbolta og fleira var Theodore inntur eftir því hvernig rafbílavæðingunni miðaði í Aþenu. Hann dæsti og hristi svo höfuðið:

„Það vantar stæði þar sem hægt væri að setja upp hleðslustöðvar og við íbúðahúsin flest er ekkert pláss.“

Þannig svaraði Theodore staðhæfingu Túrista um að hann hefði ekki séð marga rafbíla í borginni. Theodore hljómaði ekki sérlega bjartsýnn fyrir hönd þeirra sem vilja koma bílum knúnum jarðefnaeldsneyti af götum og vegum upp úr 2030. 

Nýlegar rafhleðslustöðvar á flugvellinum í Aþenu – MYND: Heimasíða Aþenuflugvallar

Það virðist enn langt að bíða þess að almenningur geti skipt gömlu bílunum út fyrir nýja rafbíla. Leigubílaflotinn virðist allur knúinn bensíni og dísil. Þetta hefur auðvitað áhrif á loftgæði í miðborginni og vinnur gegn markmiðum alþjóðasamfélagsins um orkuskipti til að hægja á loftslagsbreytingum.

Þótt hægt miði þá eru grísk stjórnvöld með áætlun og hvata til að hraða rafbílavæðingunni. Grikkir eru ekki botnsætinu í evrópsku rafbílavæðingunni en þeir eru meðal þeirra þjóða sem skemmst eru komnar. Þetta gæti breyst hratt – og verður raunar að gera það. 

Annatími í miðborginni – MYNDIR: ÓJ

Grikkir er enn mjög háðir jarðefnaeldsneyti, gasi og olíu, í orkubúskap sínum en hlutur endurnýjanlegrar orku fer stækkandi. Nú er um þriðjungur rafmagns í landinu framleiddur með endurnýjanlegum orkugjöfum. Stefnt er að því að árið 2030 verði hlutfall grænnar orku komið í um 60 prósent. Það er til lítils að fjölga rafbílum ef rafmagnið á þá er framleitt með óvistvænum hætti. 

Hestvagn með farþega á göngugötunni Dionysiou Areopagitou neðan Akrópólis – MYND: ÓJ

Árið 2022 voru seldir 8 þúsund rafbílar í Grikklandi. Það eru ekki margir bílar í landi þar sem búa meira en 10 milljónir manna en er þó umtalsverð fjölgun frá því fyrir heimsfaraldur þegar heildarsala ársins var innan við þúsund rafbílar. Hlutfall rafbíla í landinu í fyrra var aðeins 7,9 prósent af heildinni. Hleðslustöðvar fyrir almenning eru mjög fáar, eins og Theodore, leigubílstjóri, staðfesti. 

Stundum kemst maður ekki leiðar sinnar – MYND: ÓJ

Árið 2021 hétu Grikkir því eins og aðrar Evrópusambandsþjóðir að banna árið 2030 sölu bíla knúna jarðefnaeldsneyti og stuðla þannig að brotthvarfi þeirra af götunum um fimm árum síðar.  Fólki býðst styrkur til kaupa á nýjum rafbíl samkvæmt áætlun sem nefnd er Ég hreyfist með rafmagni en vandinn er þar eins og annars staðar sá sami: Það er aðeins á færi þeirra sem eiga peninga fyrir að geta nýtt sér opinbera styrki til bílakaupa. 

Enn um sinn verða gömlu bensíndrifnu bílarnir algeng sjón í miðborg Aþenu. Sá veruleiki breytir því hinsvegar ekki að Aþena er heillandi borg sem gaman er að heimsækja – og andrúmsloftið er einstakt.

Göngugötur eru yndislegar. Þessi er í Psirri-hverfinu – MYND: ÓJ

———

Flugfélagið Play greiddi flugmiða blaðamanns Túrista til Aþenu

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …