Icon of the Seas, sem heldur í jómfrúarferð sína í janúar 2024, er engin smásmíði: 250.800 tonn, 365 metra langt, með rými fyrir allt að 5.610 farþega. Þetta er fyrsta skipið af þremur sem smíðuð verða hjá Meyer Turku.
Öll verða Icon-skipin í lúxusflokki skemmtiferðaskipa og í fremstu röð hvað varðar tæknibúnað. Þau verða með nýjustu framdrifstækni og vélar sem knúnar verða fljótandi náttúrugasi, sem verður í tveimur stórum geymum um borð. Með þessu móti er dregið úr losun koltvísýrings miðað við hefðbundin skip í þessum flokki. Hægt verður að raftengja skipið í höfn og það nýtir vel alla umframorku, hita og vatn.
Meyer Turku-skipasmíðastöðin – MYND: Meyer Turku
Þegar Icon of the Seas var sjósett undir lok síðasta árs, tilbúið til frágangs og innréttinga, var því lýst hversu flókið og margslungið verk væri framundan. Óvenjulega margir afþreyingarmöguleikar yrðu um borð í þessu glæsiskipi. Farþegar geta varið tíma sínum á átta afþreyingarsvæðum, þar á meðal í vatnagarði, „Aqua Dome,“ þar sem farþegar geta dvalið á daginn í friðsælli vin og horft til hafs – en á nóttunni færist þar fjör í leikinn og í boði verður skemmtidagskrá á sviði í upplýstum vatnagarði.
Tim Meyer (t.v.) og Michael Bayley fagna sjósetningunni í desember síðastliðinn – MYND: Meyer Turku
Tim Meyer, forstjóri Meyer Turku, sagði þegar Icon of the Seas var sjósett, að skipið væri öndvegissmíði sem reyndi mjög á tæknilega getu stöðvarinnar og færði finnskan skipasmíðaiðnað upp á nýtt stig. Michael Bayley, forstjóri og stjórnarformaður Royal Caribbean International, sagði af sama tilefni að skipið markaði tímamót í framboði fyrirtækisins á skemmtisiglingum fyrir fjölskyldufólk. Heimahöfn Icon of the Sea verður í Miami í Flórída og er fyrirhugað að það sigli um Karíbahaf.
Næsta skip í þessum Icon-flokki fyrir Royal Caribbean verður væntanlega sjósett í Turku árið 2025 og þriðja skipið árið eftir.