Niðurstaða eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um velferð hvala var að aflífun dýranna hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra. Ráðherra fékk skýrsluna í maí og var mjög þrýst á að stjórnvöld gripu til aðgerða gegn hvalveiðum Kristjáns Loftssonar.
MYND: ÓJ
Matvælastofnun fól fagráði um velferð dýra að meta hvort veiðarnar geti yfirhöfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra. Álit fagráðsins barst matvælaráðuneytinu 19. júní og niðurstaða er að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki lögum um velferð dýra. Þetta dugar ráðherra til að stöðva veiðarnar.
Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að nauðsynlegt sé í ljósi niðurstöðu fagráðsins að fresta upphafi hvalveiðivertíðarinnar til „að ráðrúm gefist til þess að kanna hvort unnt sé að tryggja að veiðarnar fari fram í samræmi við ákvæði laga um velferð dýra.“ Þannig kemur ráðherra í veg fyrir að veiðar á hvölum hefjist:
“Ég hef tekið ákvörðun um að stöðva hvalveiðar tímabundið í ljósi afdráttarlauss álits fagráðs um velferð dýra,” segir matvælaráðherra í tilkynningunni – og bætir við: „Skilyrði laga um velferð dýra eru ófrávíkjanleg í mínum huga, geti stjórnvöld og leyfishafar ekki tryggt kröfur um velferð á þessi starfsemi sér ekki framtíð.“
Ráðuneytið ætlar líka að kanna á næstu mánuðum hvort hægt sé að setja enn frekari skilyrði og takmarkanir á hvalveiðum á grundvelli laga um velferð dýra og laga um hvalveiðar.
Forystufólk í ferðaþjónunni hefur ítrekað gagnrýnt hvalveiðarnar og talað um að þær skaði orðspor landsins og þá ímynd sem verið sé að byggja upp í umhverfis- og sjálfbærnimálum. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, var afdráttarlaus í viðtali við Túrista 10. maí síðastliðinn þegar skýrsla Matvælastofnunar var birt:
„Við vonum að þessi skýrsla gefi stjórnmálamönnum, og þeim sem með þessi mál fara, kjark til að stöðva þetta – hætta bara núna! Fólk á öllum okkar markaðssvæðum fordæmir hvalveiðarnar. Þetta vinnur gegn því sem við erum að byggja upp.”
MYND: ÓJ