Samfélagsmiðlar

Rafbílabyltingin þarf margfalt fleiri hleðslustöðvar

Skortur á hleðsluinnviðum og hátt framleiðsluverð tefur rafbílavæðinguna. Í Evrópusambandslöndunum þyrfti að setja upp 14 þúsund nýjar rafhleðslustöðvar í hverri viku til að markmiðum um kolefnishlutleysi verði náð og þær verður að setja upp miklu víðar - líka í fátækari löndunum. Framleiðslukostnaður vð rafbíla fer hinsvegar lækkandi.

Vaxandi þungi er í umræðunni um það hvernig Evrópubúum á að takast að ná metnaðarfullum markmiðum sínum um kolefnishlutleysi eftir rúman aldarfjórðung, eða árið 2050. Losunin fer nefnilega enn vaxandi á öllum sviðum athafnalífsins nema í samgöngum. Nýir bílar losa minna en gamlir og rafbílum fjölgar ört – en þó tæplega nógu ört ef markmiðið um að hætta sölu mengandi bíla árið 2035, eftir aðeins 12 ár, á að nást.

Rafbílar eru enn of dýrir og hleðslustöðvar alltof fáar. Í Evrópusambandslöndum voru rafbílar um 12 prósent af heildarsölu bíla á síðasta ári, miðað við 9,1 prósent 2021 og aðeins 1,9 prósent 2019. Bílar sem notast við blöndu orkugjafa, blendingar og tengiltvinnbílar, voru rúmur helmingur seldra bíla innan Evrópusambandsins á síðasta ársfjórðungi 2022. Þetta hefur áhrif: dregur úr heildarlosun og bætir andrúmsloftið fyrir vegfarendur og íbúa.

MYND: My Energy / Unsplash

Þessi umskipti í bílasölu tryggja Evrópu forystu í heiminum. Það eru engir komnir jafn langt. Kínverjar geta þó státað af hröðum umskiptum sem er ekki síst að þakka öflugum rafbílaframleiðendum í landi þeirra. Samkvæmt skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið KcKinsey birti í nóvember síðastliðinn fer fjórðungur rafbílaframleiðslunnar fram í Evrópusambandslöndum og þangað er líka fluttur stór hluti heimsframleiðslu slíkra bíla – ekki síst frá Kína. Skýrsluhöfundar bentu á að framsýnir bílaframleiðendur og viljugir neytendur gætu til samans komið Evrópu í leiðandi stöðu í heiminum í rafbílavæðingunni, skapað fjölda nýrra starfa og hraðað því að markmiðunum um kolefnishlutleysi náist.

Hinsvegar er bent á það í nýjasta hefti The Economist að helsta hindrunin er sem fyrr skortur á hleðsluinnviðum. Fjölgun hleðslustöðva heldur ekki í við fjölda rafbíla á götunum. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum evrópskra bílaframleiðenda (ACEA) fjölgaði rafbílum næstum þrefalt meira en rafhleðslustöðvum á árabilinu 2016 til 2022. Og svo aftur sé vitnað til McKinsey þá munu rafbílar ekki að fullu nýtast til að ná markmiðinu um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 nema að rafhleðslustöðvum fjölgi mjög á næstu árum.

Það verður raunar að umbylta hleðsluinnviðum. Þeim verður að fjölga snarlega úr 300 þúsund í 3,4 milljónir – og verða 6,8 milljónir árið 2030. The Economist hefur eftir ACEA að þetta feli í sér að setja verði upp 14 þúsund nýjar hleðslustöðvar í hverri viku í Evrópusambandslöndum til ársins 2030. Nú bætast aðeins við um 2 þúsund á viku. Þá verður Evrópusambandið jafnframt að stuðla að því að þessar hleðslustöðvar dreifist betur um aðildarlöndin, greiðsluleiðir verði samræmdar betur, og hraðhleðslustöðvum fyrir flutningabíla verði fjölgað til muna. Til að lesendur átti sig á þörfinni á meiri dreifingu hleðsluinnviða skal bent á að um helmingur allra hleðslustöðva innan Evrópusambandsins er nú í Hollandi og Þýskalandi. Rúmenía er miklu stærra of fjölmennara land en Holland. Þar eru hinsvegar aðeins 0,4 prósent hleðslustöðva innan Evrópusambandsins. Þetta misvægi skýrist af miklum tekjumun. Þar sem fólk er með hæstu tekjurnar eru rafbílar algengastir.

MYND: Promotheus / Unsplash

Það sem gæti hinsvegar breytt heildarmyndinni hratt er fjölgun ódýrra rafbíla – ekki síst frá Kína. The Economist hefur eftir Daniel Röska hjá rannsóknafyrirtækinu Bernstein Research að það styttist í að bílaframleiðendur geti framleitt rafbíla á sama verði og þá sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Hann nefnir ártölin 2025 og 26 í þessu sambandi. Enn munar töluverðu á framleiðslukostnaði. Lengra er í að hleðsluinnviðir verði fullnægjandi. Jafnvel þó að Evrópusambandið hafi ákveðið að stuðla að verulegri fjölgun hleðslustöðva meðfram þjóðvegum þá eru ekki horfur á að það gerist nógu hratt. Til að hraða þessari breytingu gætu bílaframleiðendur sjálfir tekið í auknum mæli ráðist í uppbyggingu hleðslustöðva. Tesla tók forystuna og í ársbyrjun tilkynnti Mercedes að fyrirtækið hugðist setja upp 10 þúsund hleðslustöðvar fyrir lok áratugarins.

Það munar um þetta en í raun er þörf á byltingu í uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla. Enn eru það aðallega þeir efnameiri í norðanverðri Evrópu, sem aðgang hafa að hleðslu heima við, sem knýja rafbílavæðinguna. 

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …