Samfélagsmiðlar

Rafbílabyltingin þarf margfalt fleiri hleðslustöðvar

Skortur á hleðsluinnviðum og hátt framleiðsluverð tefur rafbílavæðinguna. Í Evrópusambandslöndunum þyrfti að setja upp 14 þúsund nýjar rafhleðslustöðvar í hverri viku til að markmiðum um kolefnishlutleysi verði náð og þær verður að setja upp miklu víðar - líka í fátækari löndunum. Framleiðslukostnaður vð rafbíla fer hinsvegar lækkandi.

Vaxandi þungi er í umræðunni um það hvernig Evrópubúum á að takast að ná metnaðarfullum markmiðum sínum um kolefnishlutleysi eftir rúman aldarfjórðung, eða árið 2050. Losunin fer nefnilega enn vaxandi á öllum sviðum athafnalífsins nema í samgöngum. Nýir bílar losa minna en gamlir og rafbílum fjölgar ört – en þó tæplega nógu ört ef markmiðið um að hætta sölu mengandi bíla árið 2035, eftir aðeins 12 ár, á að nást.

Rafbílar eru enn of dýrir og hleðslustöðvar alltof fáar. Í Evrópusambandslöndum voru rafbílar um 12 prósent af heildarsölu bíla á síðasta ári, miðað við 9,1 prósent 2021 og aðeins 1,9 prósent 2019. Bílar sem notast við blöndu orkugjafa, blendingar og tengiltvinnbílar, voru rúmur helmingur seldra bíla innan Evrópusambandsins á síðasta ársfjórðungi 2022. Þetta hefur áhrif: dregur úr heildarlosun og bætir andrúmsloftið fyrir vegfarendur og íbúa.

MYND: My Energy / Unsplash

Þessi umskipti í bílasölu tryggja Evrópu forystu í heiminum. Það eru engir komnir jafn langt. Kínverjar geta þó státað af hröðum umskiptum sem er ekki síst að þakka öflugum rafbílaframleiðendum í landi þeirra. Samkvæmt skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið KcKinsey birti í nóvember síðastliðinn fer fjórðungur rafbílaframleiðslunnar fram í Evrópusambandslöndum og þangað er líka fluttur stór hluti heimsframleiðslu slíkra bíla – ekki síst frá Kína. Skýrsluhöfundar bentu á að framsýnir bílaframleiðendur og viljugir neytendur gætu til samans komið Evrópu í leiðandi stöðu í heiminum í rafbílavæðingunni, skapað fjölda nýrra starfa og hraðað því að markmiðunum um kolefnishlutleysi náist.

Hinsvegar er bent á það í nýjasta hefti The Economist að helsta hindrunin er sem fyrr skortur á hleðsluinnviðum. Fjölgun hleðslustöðva heldur ekki í við fjölda rafbíla á götunum. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum evrópskra bílaframleiðenda (ACEA) fjölgaði rafbílum næstum þrefalt meira en rafhleðslustöðvum á árabilinu 2016 til 2022. Og svo aftur sé vitnað til McKinsey þá munu rafbílar ekki að fullu nýtast til að ná markmiðinu um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 nema að rafhleðslustöðvum fjölgi mjög á næstu árum.

Það verður raunar að umbylta hleðsluinnviðum. Þeim verður að fjölga snarlega úr 300 þúsund í 3,4 milljónir – og verða 6,8 milljónir árið 2030. The Economist hefur eftir ACEA að þetta feli í sér að setja verði upp 14 þúsund nýjar hleðslustöðvar í hverri viku í Evrópusambandslöndum til ársins 2030. Nú bætast aðeins við um 2 þúsund á viku. Þá verður Evrópusambandið jafnframt að stuðla að því að þessar hleðslustöðvar dreifist betur um aðildarlöndin, greiðsluleiðir verði samræmdar betur, og hraðhleðslustöðvum fyrir flutningabíla verði fjölgað til muna. Til að lesendur átti sig á þörfinni á meiri dreifingu hleðsluinnviða skal bent á að um helmingur allra hleðslustöðva innan Evrópusambandsins er nú í Hollandi og Þýskalandi. Rúmenía er miklu stærra of fjölmennara land en Holland. Þar eru hinsvegar aðeins 0,4 prósent hleðslustöðva innan Evrópusambandsins. Þetta misvægi skýrist af miklum tekjumun. Þar sem fólk er með hæstu tekjurnar eru rafbílar algengastir.

MYND: Promotheus / Unsplash

Það sem gæti hinsvegar breytt heildarmyndinni hratt er fjölgun ódýrra rafbíla – ekki síst frá Kína. The Economist hefur eftir Daniel Röska hjá rannsóknafyrirtækinu Bernstein Research að það styttist í að bílaframleiðendur geti framleitt rafbíla á sama verði og þá sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Hann nefnir ártölin 2025 og 26 í þessu sambandi. Enn munar töluverðu á framleiðslukostnaði. Lengra er í að hleðsluinnviðir verði fullnægjandi. Jafnvel þó að Evrópusambandið hafi ákveðið að stuðla að verulegri fjölgun hleðslustöðva meðfram þjóðvegum þá eru ekki horfur á að það gerist nógu hratt. Til að hraða þessari breytingu gætu bílaframleiðendur sjálfir tekið í auknum mæli ráðist í uppbyggingu hleðslustöðva. Tesla tók forystuna og í ársbyrjun tilkynnti Mercedes að fyrirtækið hugðist setja upp 10 þúsund hleðslustöðvar fyrir lok áratugarins.

Það munar um þetta en í raun er þörf á byltingu í uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla. Enn eru það aðallega þeir efnameiri í norðanverðri Evrópu, sem aðgang hafa að hleðslu heima við, sem knýja rafbílavæðinguna. 

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …