Samfélagsmiðlar

Rafbílar á heimspólitísku taflborði

Kínverskir bílaframleiðendur ætla að láta reyna á hversu langt Vesturlönd eru tilbúin að ganga í verndarstefnu sinni. Heimamarkaðurinn í Kína dugar ekki lengur og því þurfa framleiðendur þar ekki síst að auka hlut sinn sölu dýrari tegunda rafbíla í Bandaríkjunum og Evrópu.

Rafknúna glæsikerran HiPhi Z frá Sjanghæ

Bílaframleiðendurnir kínversku hafa náð góðu forskoti á vestræna stórframleiðendur eins og Tesla og Volkswagen á heimamarkaði sínum. Ástæðan er ekki síst sterk aðfangakeðja. Kínverjarnir eru sjálfir ráðandi í framleiðslu á flestu því sem þarf til að smíða, útbúa og setja saman rafbíl. Þeir hafa getað annað eftirspurn óslitið á meðan framleiðendur víða annars staðar hafa lent í vandræðum.

Nú þegar hægt hefur á bílasölu í alþýðulýðveldinu er framleiðendum þar nauðugur einn kostur að sækja af meiri þrótti út á við. Það gæti hinsvegar dregið úr sóknarmættinum að á Vesturlöndum er vaxandi tortryggni og andúð í garð kínverskra stjórnvalda. Bandaríkjastjórn reynir hinsvegar þessa dagana að draga úr spennunni og var Kínaferð utanríkisráðherrans Anthony Blinken til merkis um þá viðleitni. 

Rafkerran HAN frá BYD – MYND: BYD

Skoðum aðeins nánar stöðuna í Kína. Um þriðjungur seldra bíla þar eru rafknúnir. Það varð markverð breyting á síðustu tveimur mánuðum 2022 þegar landsmenn keyptu í fyrsta skipti fleiri kínverska bíla en vestræna. Ástæðan var einfaldlega sú að þeir sóttust aðallega eftir góðum rafbílum og töldu þessa með kínverskum merkjunum a.m.k. jafn góða og þá með merkjum Tesla og allra hinna vestrænu framleiðendanna. Auk þess að mikillar velvildar neytenda á heimamarkaði var sókn kínverskra bílaframleiðenda dyggilega studd af stjórnvöldum. Nú er minni stuðning að hafa þaðan, verðstríð geisar og hægt hefur á kaupum almennings eftir stöðuga söluaukningu síðustu misserin. Sala á rafbílum næstum tvöfaldaðist á síðasta ári. Kínversku framleiðendurnir eru því vel búnir til átaka á alþjóðlegum sölumarkaði rafbíla – ef viðskiptalegar girðingar verða ekki reistar til að halda þeim úti. 

Þó hér sé rætt um nýja sókn kínverskra bílaframleiðenda á alþjóðlegum mörkuðum þá verður að hafa í huga að nú þegar selja þeir auðvitað mjög mikið af bílum á öllum markaðssvæðum. Kínverjar eru leiðandi í útflutningi rafbíla. Bandarísku Tesla-bílarnir sem framleiddir eru í Sjanghæ voru um tíundi hluti þeirra bíla sem fluttir voru til annarra landa á síðasta ári en næstu níu bílategundirnar á þeim lista báru kínversk vörumerki.

HiPhi Z frá Human Horizons í Sjanghæ – MYND: Eyosias G/Unsplash

Meðal þess sem hefur hjálpað kínversku framleiðendunum er stefna stjórnvalda sem kennd er við Belti og braut. Hún miðar að því að styrkja tengslin við mörg nærliggjandi ríki og skapa forsendur fyrir aukinni efnahagslegri og pólitískri framsókn Kínverja í heiminum. Reuters-fréttastofan nefnir að í mörgum þessara samstarfslanda er að verða til rafbílamarkaður og þá liggur beinast við fyrir þau að horfa til þess hvað vinir þeirra Kínverjar framleiða. Og eftir að Vesturlönd drógu sig að mestu út úr viðskiptum við Rússa þá hafa þeir sótt nýja bíla til Kína. Þetta er allt gott og blessað í augum kínversku bílaframleiðendanna en miklu meiri ávinningur væri af því að ná öruggri fótfestu í Evrópu, ná að heilla evrópska kaupendur og selja þeim dýrari gerðir rafbíla.

Kínversku bílaframleiðendurnir standa sterkt að vígi í samkeppninni framundan. Þeir ráða yfir gríðarlega sterkri aðfangakeðju og framleiða t.a.m. um helming bílarafhlaðna í heiminum. Þar stendur BYD sterkt að vígi – framleiðir bæði rafhlöður í eigin bíla og fyrir aðrar tegundir. Það veitir forskot að ráða yfir stórum hluta aðfangakeðju rafbílaframleiðslunnar og stjórna þar með verðlagningu. Þetta lýsir stöðu BYD gagnvart framleiðendum í Evrópu og annars staðar, sem þurfa að kaupa af þeim rafhlöður.

BYD kynnir Atto 3 á bílasýningu í París – MYND: BYD

Auðvitað ætla ráðamenn í Evrópu og Bandaríkjunum ekki að gera kínverskum bílaframleiðendum það of auðvelt að hremma rafbílamarkaðinn. Sagt er frá því á stjórnmálafréttavefnum Politico að mjög sé þrýst á ráðamenn í Brussel að setja hömlur á innflutning kínverskra rafbíla. Að öðrum kosti verði evrópskir framleiðendur kafsigldir af kínverskum keppinautum þeirra. Samkvæmt Politico eru uppi ráðagerðir um að hefja rannsókn á verðmyndun kínversku bílanna og að reisa varnir gegn undirboðum í krafti niðurgreiðslna. Í Bandaríkjunum er þegar veittur slíkur stuðningur við framleiðendur rafbíla og rafhlaðna í nafni stefnu Biden-stjórnarinnar sem ætlað er að vinna á verðbólgunni og í Frakklandi hefur Macron forseti boðað aðgerðir sem verðlauni þá sem velja evrópska rafbíla.

Meðal mótleikja sem kínverskir bílaframleiðendur gætu gripið til væri einfaldlega að færa rafhlöðuframleiðslu sína til þeirra landa þar sem þeir vilja sækja fram í sölu rafbíla. Þessi þróun er þegar hafin og hafa Kínverjar fjárfest mikið í nýjum verksmiðjum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Japanar fóru þessa leið á síðustu tveimur áratugum liðinnar aldar. Þegar evrópsk stjórnvöld hugðust stemma stigu við flóði bíla frá Toyota og Nissan urðu Japanar fyrri til og komu einfaldlega á fót verksmiðjum í Evrópu. Þar með var staða þeirra tryggð. Óvíst er að kínverskum bílaframleiðendum verði hleypt jafn langt enda bætast nú við samkeppnismálin stórpólitískt alþjóðlegt valdatafl.

Róbotar að störfum í Chery-bílasmiðjunum – MYND: Chery

Fundur Anthony Blinken með kínverskum ráðamönnum skilaði engri ákveðinni niðurstöðu – nema þá helst þeirri að halda talsambandi. Reuters-fréttastofan greindi frá því eftir fund þeirra Blinken og Xi Jinping, forseta Kína, að nefnd í fulltrúadeild Bandaríkjaþings sem fjallar um varnir gegn meintri ógn frá kínverska kommúnistaflokknum ætli að beita sér fyrir því að bandarískir bílaframleiðendur verði minna háðir aðföngum frá Kína, sérstaklega rafhlöðum. Nefndarmenn halda í dag til bílaborgarinnar Detroit á fund forstjóra General Motors og Ford í þessu skyni. Formaður þessarar andkínversku þingnefndar, repúblikaninn Mike Gallagher, hefur áður lýst áhyggjum af því hversu háður Tesla-bílaframleiðandinn er orðinn Kínverjum og framleiðslugetu þeirra.

Hleðstöð Tesla í Shenzhen-héraði í Kína – MYND: Joshua Fernandez/Unsplash

Það á eftir að koma í ljós hvort General Motors og Ford láti málflutning þingmanna í þessum efnum hafa áhrif á sig. Talsmaður Ford sagði fyrirtækið deila með þingmönnum þeirri hugsun að styrkja þyrfti samkeppnisstöðu Bandaríkjamanna og búa til bandaríska aðfangakeðju. Þó eru aðeins fáir mánuðir frá því að Ford samdi sjálft við kínverska rafhlöðuframleiðandann CATL um kaup á þekkingu við framleiðslu rafhlaðna í væntanlegri verksmiðju í Michigan. Það sýnir kannski betur en margt annað að í þessu heimspólitíska tafli um framtíð rafbílaframleiðslunnar þá hafa Kínverjar sem stendur yfirhöndina.

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …