Það eru tveir mánuðir liðnir frá því að Icelandair greindi frá undirritun viljayfirlýsingar um á kaup á 13 farþegaþotum frá Airbus og kauprétt að 12 til viðbótar. Evrópski flugvélaframleiðandinn hefur hins vegar ekki ennþá birt tilkynningu um flugvélaviðskiptin.
Þar á bæ bíða menn eftir undirrituðum kaupsamningi áður en viðskiptunum verður „fagnað“ líkt og Túristi greindi frá í lok apríl.
Þá fengust þau svör að nokkrar vikur væru í undirskrift.
Spurð um stöðu mála aí dag þá segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, talskona Icelandair, að samningagerðin sé í fullum gangi. „Við stefnum að því að ljúka þeirri vinnu í þessum ársfjórðungi.“
Ef það gengur eftir má reikna með að bæði Icelandair og Airbus sendi frá sér tilkynningar fyrir lok þessa mánaðar um þennan tímamótasamning. Icelandair hefur nefnilega ekki áður keypt þotur af evrópska framleiðandanum heldur haldið tryggið við Boeing.
Þegar Icelandair gerði samning við Boeing, árið 2012, um kaup á fjölda Max-þota þá sektaði Fjármálaeftirlitið flugfélagið á þeim forsendum að tilkynna hefði átt um samninginn þremur dögum fyrr en gert var.
Því höfnuðu stjórnendur Icelandair og sögðu að tilkynning hafi verið birt í Kauphöllinni nokkrum mínútum eftir að stjórnarfundi lauk þar sem tekin var ákvörðun um að ganga til samninga við Boeing.
Að þessu sinni má segja að stjórnendur Icelandair hafi tilkynnt um samkomulagið við Airbus löngu áður kaupsamningur var undirritaður.