Það voru 57 þúsund farþegar sem nýttu sér ferðir Play til og frá Bandaríkjunum á fyrsta fjórðungi ársins og 156 þúsund farþegar flugu með Icelandair. Á þessu tímabili hélt Play úti ferðum til þriggja bandarískra flugvalla og Icelandair var með ferðir tólf.
Félögin voru þó aðeins í alvöru samkeppni á flugvellinum í Boston á þessu þriggja mánaða tímabili. Icelandair hélt nefnilega aðeins úti ferðum til Baltimore í byrjun janúar og í New York er útgerð félaganna ólík. Icelandair flýgur þar til tveggja stærstu flugvalla borgarinnar á meðan Play heldur úti ferðum til lítils flugvallar fjarri Manhattan.
Og það var einmitt í Boston sem bæði flugfélög voru með verstu sætanýtinguna á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt tölum frá bandarískum flugmálayfirvöldum.
Að jafnaði voru aðeins 67 af hverjum 100 sætum hjá Icelandair skipuð farþegum í ferðum félagsins til og frá Boston í janúar, febrúar og mars. Hlutfallið var að jafnaði 79 prósent á öllum hinum flugleiðum félagsins vestanahafs þessa þrjá fyrstu mánuði ársins.
Í Boston var sætanýtingin hjá Play 71 prósent en aftur á móti 74 prósent að meðaltali í fluginu frá New York og Baltimore. Hafa ber í huga að sætanýting segir ekki alla söguna um gang mála hjá flugfélögunum en eru þó ein vísbending um stöðuna.
Sem fyrr segir byggja útreikningar hér að ofan á tölum frá bandarískum yfirvöldum en hér á landi ríkir algjör leynd um svona upplýsingar og hefur Túristi árangurslaust reynt að fá því breytt.