Samfélagsmiðlar

„Viljum að sérstaða Vestfjarða skíni í gegn“

Ísafjörður er meðal fjölsóttustu ferðamannastaða landsins eftir að komur skemmtiferðaskipa urðu tíðar. Vestfirðir eru þó enn utan meginstraums erlendra ferðamanna. Tækifærin blasa hinsvegar við fyrir vestan. Meðal þeirra sem fjalla um ferðamál í sínu starfi er Sölvi Guðmundsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.

Sölvi Guðmundsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.

„Ég hóf störf hjá Vestfjarðastofu, sem sér um rekstur Markaðsstofu Vestfjarða, í mars 2022, og tók við stöðu forstöðumanns Markaðsstofunnar í nóvember síðastliðnum. Ég hef starfað í ferðaþjónustu nánast alla mína starfsævi, byrjaði 2007 sem flúðaleiðsögumaður fyrir sunnan. Síðan þá hef ég sinnt ýmsum ólíkum verkefnum í ferðaþjónustu í einkageiranum, verið ævintýraleiðsögumaður, komið að öryggismálum, rekstri og skipulagningu ferða. Þegar Covid-19 brast á tókum við fjölskyldan þá ákvörðun að flytja vestur á firði. Hér er ég niður kominn og líkar mjög vel.“

Við Litlabæ í Skötufirði – MYND: ÓJ

Hvað felst í þínu starfi? 

„Starf Markaðsstofu Vestfjarða er ótrúlega fjölbreytt. Markaðsstofurnar voru upphaflega stofnaðar til að sinna kynningarstarfi fyrir landshlutann og það er enn mjög stór þáttur í okkar vinnu. Við höldum úti vefsíðunni Westfjords.is og sinnum samfélagsmiðlum, vinnum með blaðamönnum, almannatengslastofum út í heimi, mætum á vinnustofur og ferðasýningar. Frá stofnun áfangastaðastofanna árið 2021 hefur Markaðsstofan sinnt því hlutverki.  Það felur m.a. í sér útgáfu og gerð svokallaðra áfangastaðaáætlana en það er svæðisbundið stefnumótunarskjal fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þá sinnum við hagsmunagæslu fyrir ferðaþjóna og sveitarfélögin á Vestfjörðum og erum í nánu samstarfi við þau og aðra sem sinna ferðamálum á Íslandi. 

Ferðafólk rýnir í Vestfjarðakort – MYND: ÓJ

Það eru nokkur verkefni sem eru í forgrunni núna: Við erum á fullu við að markaðssetja og kynna Vestfjarðaleiðina, sem er ferðaleiðin um Vestfirði og Dali, 950 km löng leið – stútfull af möguleikum til  upplifunar,  njóta menningar og einstakrar náttúrufegurðar. 

Þá erum við líka að vinna hörðum höndum að því að laða að nýja fjárfesta inn á svæðið. Hér býr margt öflugt fólk með hugmyndir sem tengjast ferðaþjónustu, en þar má t.d. nefna hótel á Bíldudal og í Hólmavík – og í Önundarfirði eru hugmyndir uppi um hótel annars vegar og hins vegar sjóböð.“

Komið að gististað á Hólmavík – MYND: ÓJ

Hver eru helstu verkefnin sem blasa við Vestfirðingum í ferðamálum?

„Eins og annars staðar á landinu er skortur á gistingu. Við finnum svo sannarlega fyrir því. Þeir hótelrekendur sem ég hef sett mig í samband við á svæðinu segja að það sé svo gott sem fullbókað hjá þeim yfir sumarmánuðina. Þess vegna er lykilatriði að laða að fjárfestingar í uppbyggingu hótela á Vestfjörðum. 

Af því sögðu þá þurfum við að ná að lengja ferðamannatímabilið á svæðinu, til að bæta nýtingu. Hjá Íslendingum virðist ríkja sú goðsögn að það sé svo langt til Vestfjarða, hér séu torfærir vegir og alltaf vont veður. Það er áskorun út af fyrir sig að vinda ofan af þessu, því Íslendingar eru jú okkar fyrstu meðmælendur. Þessar ranghugmyndir byggjast á fornum sögum um vegina á Vestfjörðum.

Dynjandi í Arnarfirði – MYND: Vestfjarðastofa

Raunin er hins vegar sú að búið er að gera miklar samgöngubætur hér. Nærtækast er að nefna Dýrafjarðargöng. Þá er unnið að því að ljúka því að leggja bundið slitlag á Dynjandisheiði og veg um Teigskóg. Árið 2025 verður þá hægt að aka um nánast alla Vestfjarðaleiðina á bundnu slitlagi.

Varðandi fjarlægðina, þá eru bæði Hólmavík og Reykhólar aðeins í 2,5 klukkustunda akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Það er álíka og að aka austur í Vík í Mýrdal. Vestfirðir eru vissulega stórt svæði og ef þú ætlar að njóta þeirra allra þá er gott að gefa sér góðan tíma. Hvað viðkemur veðri og færð, þá búum við jú á Íslandi. Það þarf að hafa það í huga þegar fólk er á ferð hvar sem er á landinu, hvort sem ekið er undir Eyjafjöllum, framhjá Hafnarfjalli yfir Öxnadalsheiði, eða um Steingrímsfjarðarheiði.“

Á útsýnisstað á Kambsnesi. Horft yfir Álftafjörð og út á Djúpið – MYNDIR: ÓJ

Vestfirðir hafa m.ö.o. verið nokkuð afskiptir – ekki fengið til sín meginstraum ferðafólks. Er það eitthvað til að hafa áhyggjur af?

„Það er rétt hjá þér að við höfum kannski ekki séð meginstraum ferðafólks en stór hluti þessara gesta eru til dæmis stop-over gestir sem dvelja stutt á landinu áður en þeir halda ferðalagi sínu áfram, fara í eina dagsferð frá höfuðborgarsvæðinu á Suðurland. Þetta er ekki markhópurinn fyrir Vestfirði, fólkið sem við leitumst eftir að fá er það sem er tilbúið að dvelja lengur, fólk sem gjarnan er að koma í annað sinn og er komið til þess að ferðast, upplifa og heimsækja stórbrotna náttúru. Ég tel ekki að þetta sé áhyggjuefni, frekar tækifæri til að byggja upp vandaðan áfangastað sem leggur áherslu á gæði.“

Hjólreiðar á Vestfjörðum

Hjólað á Vestfjörðum – MYND: Vestfjarðastofa

Í hverju felast helstu möguleikar Vestfjarða í ferðaþjónustu?

„Möguleikar í ferðaþjónustu eru ótal margir á svæðinu. Þeir felast í náttúrunni, kyrrðinni, ævintýraferðamennsku, útivist, dýralífinu, víðernum – og svona mætti lengi telja. Hvernig byggt er á því ræðst af ferðaþjónunum sjálfum – hvort sem er í útivist eða fágætisferðamennsku. Lenging ferðaþjónustutímabilsins opnar síðan á enn fleiri tækifæri, ekki þarf að leita langt fyrir kjöraðstæður í afþreyingartengdri vetrarferðaþjónustu, eins og skíðum eða til þess að njóta norðurljósa.“

Skemmtiferðaskip á Skutulsfirði – MYND: ÓJ

Mikið álag og mengun fylgir komum skemmtiferðaskipa. Hafið þið mótað stefnu í þessum málum?

„Við hjá Markaðsstofu Vestfjarða sjáum ekki um að móta sértæka stefnu um skemmtiferðaskip. Markaðsstofan heldur utan um gerð og útgáfu áfangastaðaáætlunar sem þjónar sem stefnumótunarplagg fyrir ferðaþjónustuna í heild, skemmtiferðaskipin eru vissulega hluti af því mengi. Sveitarfélögin sjálf, og þá sérstaklega Ísafjarðarbær vegna álags þar, þurfa að leiða sértæka stefnumótun fyrir sínar hafnir – og eru að hefja þá vinnu. Við komum til með að styðja þá vinnu. Þá er vert að nefna að fyrir liggur þingsályktunartillaga um gerð stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa. Þar er fjallað um að búa til heildstæða stefnu fyrir allt landið. Tekið er á stórum atriðum eins og mengun og ágangi.

Við hjá markaðsstofum landshlutanna fögnuðum þingályktunartillögunni en kölluðum jafnframt eftir því að samhliða mótun landsstefnu þyrfti að fara í sérstaka stefnumótun eftir landshlutum, þar sem teknir væru til skoðunar innviðir svæða o.fl. Áskoranir hvers og eins landshluta eru mjög ólíkar. Fyrir nokkrum vikum þá fengum við heimsókn frá meðlimum CLIA, alþjóðlegum samtökum skemmtiferðaskipa, en það er vilji þeirra að vinna náið með samfélögunum til að bæta upplifun heimamanna og gesta. Þá finna þau fyrir pressunni úr samfélaginu til að bæta sig í umhverfismálum og eru, og hafa verið, að taka skref í þeim efnum, eins og minnka beina losun gróðurhúsalofttegunda, setja upp hreinsibúnað fyrir útblástur og annan úrgang.“

Við Sundabakka á Ísafirði – MYND: ÓJ

Hvað telur þú að þurfi að bæta varðandi móttöku skemmtiferðaskipanna á Ísafirði?

„Það urðu ófyrirséðar tafir á framkvæmdum við höfnina. Nú er brýnast að ljúka þeim framkvæmdum og klára skipulag við höfnina til að tryggja flæði gesta, góða móttöku og brottför. Þá þarf að skoða dreifingu skipanna. Vestfirðir eru með þriðjung af strandlengju Íslands og hér eru hafnir í flestum þorpum. Þá má skoða að beina smærri leiðangursskipum til fleiri hafna á Vestfjörðum. Ef það væri gert skipulega má bæta upplifun gesta sem og efla ferðaþjóna í þeim þorpum.“

Skipafarþegar prófa ísfirskt kaffi – MYND: ÓJ

Er ástæða til að takmarka skipafjöldann á hverjum degi, viku eða mánuði?

„Þetta er ekki alveg svo einfalt. Skipin eru jafn mismunandi og þau eru mörg, fjöldi farþega í hverju skipi getur verið allt frá 100 – 3.500 manns. Þá eru þarfir gesta mismunandi eftir gerð og tegund skipa, sem þar af leiðandi krefjast misjafnlega mikils af innviðum. Það þarf hins vegar að búa til mörkin, ramma eða leikreglur um móttökuna sem tekur mið af þessum breytum sem og öðrum, sem hafa skal til hliðsjónar þegar skip eru bókuð í hafnir.“

Er auðvelt að manna störfin í ferðaþjónustunni fyrir vestan?

„Ég veit ekki betur en að það hafi gengið vel að ráða fólk í ár. Hér er mikið af flottum fyrirtækjum sem hugsa vel um starfsfólkið sitt og þrátt fyrir það að mikið af ferðaþjónunum vinni einungis yfir sumartímann, þá hefur sama starfsfólkið komið aftur mörg ár í röð.“

Hestfjörður – MYND: ÓJ

Hvaða ímynd viltu byggja upp við markaðssetningu Vestfjarða?

„Við viljum að sérstaða Vestfjarða skíni í gegn: náttúran, dýralífið, sagan, ævintýrin og menningin. Að Vestfirðir séu sjálfbær gæðaáfangastaður þar sem arðbær ferðaþjónusta er rekin í sátt við umhverfi og samfélag. Við viljum lengja ferðaþjónustutímabilið í sitt hvorn endann svo gestir geti notið alls þess góða sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða bæði í sumar- og vetrarbúning.“

Verður 2023 gott ferðaþjónustuár fyrir vestan?

„Það er kannski of snemmt að segja til um það en vísbendingarnar eru um að árið verið gott á Vestfjörðum.“

Selir við Hvítanes fanga athygli vegfarenda – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …