Bretar stefna áfram að því að hætta sölu nýrra bíla sem ganga fyrir bensíni og dísilolíu árið 2030 en slakað verður á kröfur um minna kolefnisfótspor heimila í landinu. Þetta var haft eftir Michael Gove, ráðherra húsnæðis- og samræmingarmála í bresku ríkisstjórninni, í vikunni.
Allt eins hafði verið búist við að ríkisstjórnin myndi varpa umhverfisstefnu sinni fyrir róða eftir að Íhaldsflokkurinn hélt þingsæti í fyrrverandi kjördæmi Boris Johnson, Uxbridge og Suður-Ruislip, úthverfum í vestanverðri höfuðborginni, í aukakosningum í síðustu viku – m.a. með því að sækja hart að metnaðarfullri loftslagsstefnu borgaryfirvalda í London, undir forystu Verkamannaflokksmannsins, Sadiq Khan, borgarstjóra.
Ljóst er að ef hnikað verður frá áður mótaðri umhverfisstefnu myndi það skapa óvissu og hættu fyrir þau fjölmörgu bresku fyrirtæki sem vinna að umhverfisvænum lausnum tengdum rafbílavæðingu og húshitun – á sama tíma og Evrópusambandið og Bandaríkin vinna að því að stórauka fjárfestingar á þeim sviðum. En það er á brattan að sækja í Bretlandi að gera kröfur um nýjar fjárfestingar í þágu umhverfisins á tímum verðbólgu og versnandi afkomu almennings.
Michael Gove – MYND: Breska stjórnarráðið
Gove var í útvarpsviðtali í vikunni og svaraði þar játandi spurningu um hvort staðið yrði við bann við sölu á nýjum bensín- og dísilbílum frá 2030. Um leið sagði hann mikilvægt að heimilin stefndu áfram að koelfnishlutleysi en ríkisstjórnin þyrfti að fara betur í saumana á sumum tillögum um leiðir til þess. Hann sagði ljóst að við núverandi efnahagsaðstæður væri þrengt að heimilunum og ekki væri hægt að leggja meiri byrðar á þau. Endurskoða þyrfti tímaáætlun aðgerða til að minnka kolefnisfótspor orkunýtingar heimila, sem fela m.a. í sér kröfur um nýja orkusparandi tækni og búnað.
Áður hafði forsætisráðherrann, Rishi Sunak, sagt að honum þætti markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2050 vera mikilvægt en að hann vildi ekki gera neitt til að auka byrðar fólks á verðbólgutímum. Gove tók í sama streng, ríkisstjórnin yrði að stefna áfram að kolefnishlutleysi en mætti ekki auka svo byrðar á fólki að það slægi í bakseglin.
Sýnir þetta að leiðin að settum umhverfismarkmiðum er þyrnum stráð. Stjórnmálamenn eru gjarnir á að gefa afslátt af fyrri markmiðum – eftir því hvernig vindar blása á pólitískum vettvangi.