Samfélagsmiðlar

„Eins og fugl á símalínunni“

Gríska eyjan Hydra hefur lengi laðað til sín fólk sem sækist eftir næði og upplyftingu andans. Það er ekki löng sigling frá Piraeus til Hydru og það er sannarlega þess virði að skjótast þessa leið með ferjunni. Blaðamaður Túrista heimsótti eyna, rölti milli hvítkalkaðra húsanna í hlíðinni fyrir ofan höfnina og hugsaði dálítið til Leonards Cohen, sem átti þarna oftast góða daga.

Hydra var lengi dvalarstaður Leonards Cohen, sem líkti sér við fugl á símalínu

„Leonard kunni strax að meta Hydru – jafnvel úr fjarska, áður en ferjan lagðist að í höfninni. Allt virtist þar eins og það átti að vera: Náttúruleg og skeifulaga höfnin, hvítkölkuð húsin í hlíðinni fyrir ofan. Þegar hann tók niður sólgleraugun og pírði augun á móti sólu líktist eyjan grísku hringleikahúsi, húsin stóðu í röðum eins og hvítklæddir sitjandi öldungar. Dyr húsanna snéru að höfninni, þessu leiksviði hversdagsleikans: Bátar vögguðu letilega í höfninni, kettir sváfu á klettum, ungir menn lönduðu fiski og svampi, leðurbrúnir öldungar sátu fyrir utan krárnar, skröfuðu þar og þrösuðu. Þegar Leonard gekk í gegnum bæinn tók hann eftir því að þar voru engir bílar á ferð. Þeirra í stað voru asnar með körfu hangandi á annarri hlið að mjaka sér þunglamalegir upp og niður steinlagða stígana milli hafnarinnar og klausturs Elíasar spámanns. Þetta gæti allt eins verið myndskreyting úr barnabiblíu.“

(Sylvie Simmons: I´m Your Man – The Life of Leonard Cohen, 2012. Íslensk þýðing: ÓJ)

Klyfjaður asni fetar sig áfram í hitamollunni – MYND: ÓJ

Þannig lýsir Sylvie Simmons ævisagnarritari Leonards Cohen komu hans til eyjarinnar Hydru í Grikklandi árið 1960. Rúmum 60 árum síðar er þetta lítið breytt – og þó.

Hydra er ekki lengur fábrotið eyjarsamfélag fiskimanna. Fáir veiða fisk eða sækja svamp í hafið. Flestir þjóna ferðafólki – eða bara sjálfum sér.

Ferðamenn njóta lífsins á veitingahúsi á Hydru – MYND: ÓJ

Hydra er ekki lengur leynistaður listamanna í leit að innblæstri heldur áfangastaður þúsunda ferðamanna sem vilja komast úr ys og þys borgarsamfélaga og njóta friðar á fögrum stað. Það er Hydra enn: fögur og friðsæl – þrátt fyrir allt. 

Fögur skeifulaga byggðin á Hydru séð frá höfninni – MYND: ÓJ

Vistvænir vatnsflutningar – MYND: ÓJ

Eftir um tveggja stunda siglingu frá Piraeus, með viðkomu á einum stað, blasir Hydra við blaðamanni eins og Leonard Cohen forðum. Eftir nokkurra daga dvöl í Aþenu, með allri sinni umferð og hávaða sem fylgir stórri borg, er léttir að ganga á land á Hydru. Engir bílar þvælast fyrir gangandi fólki (síðar um daginn skýst þó sjúkrabíll út úr fylgsnum sínum að sækja einhvern sem hafði kannski misstigið sig á kletti eftir að hafa drukkið of mikið ouzo), ekki skellinöðrur, rafskútur eða reiðhjól, bara afkomendur asnanna sem Leonard Cohen sá á sínum tíma og karlar með handvagna og kerrur að flytja vatn og vörur á gistihúsin og veitingastaðina. Fiskibátarnir eru ekki lengur mest áberandi í höfninni heldur skútur og skemmtibátar ríkra Aþeninga og útlendinga.

Fyrir utan lóna snekkjur sem myndu sóma sér vel í hasarmynd frá Hollywood.  

„Já, sjómennskan…“ – MYNDIR: ÓJ

Einkennisdýr Hydru eru áðurnefndir asnar og kettir, sem eru þar um allt, sitja þolinmóðir nærri borðum veitingahúsagesta í von um að eitthvað hrökkvi til þeirra. Asnarnir þurfa að hafa meira fyrir lífinu, eru notaðir til að bera aðkomufólk í skoðunarferðum um bæinn og eyna, flytja farangur upp bratta hlíðina og varning ýmis konar. Vonandi fá þeir góða hvíld og nóg að borða eftir langan vinnudag.

Kettir og fólk á Hydru – MYNDIR: ÓJ

Á Hydru búa um 2.000 manns en um hásumar dvelur þar töluvert fleira fólk í lengri eða skemmri tíma. Þennan dag sem blaðamaður skrapp út í eyna urðu margir Bandaríkjamenn á vegi hans – hugsanlega komnir til að feta í fótspor rithöfundarins Henry Miller, sem var þarna 1939, og kanadíska söngvaskáldsins Leonards Cohen, sem dvaldi í allt um sjö ár á eyni, orti ljóð og samdi söngva. Líklega er Bird on the Wire þekktastur söngvanna sem á rætur á Hydru – þó hann hafi verið hljóðritaður í Nashville: 

Like a Bird on the Wire 

Like a drunk in a midnight choir

I have tried in my way to be free

„Eins og fugl á símalínunni.“ Svo orti Leonard Cohen í baráttunni við þunglyndið. Hugmyndin fæddist þegar hann sá fugl setjast á nýuppsetta símalínu á Hydru.

Nútíminn var kominn á grísku eyna. 

Símalínurnar sem urðu Cohen að yrkisefni – MYND: ÓJ

Er þetta Lenny? – MYND: ÓJ

Líklega hefur Sigurður A. Magnússon, rithöfundur rekist á Kanadamanninn á Hydru sumarið 1962 – óafvitandi um að þar væri á ferð væntanlegt frægðarmenni. Hann nefnir raunar að Kanadamenn væru meðal þeirra sem keypt hafi hús á Hydru. Cohen borgaði 1.500 dollara fyrir sitt hús, sem fjölskylda hans á enn.

Sigurður A. ritaði frásögn í jólablað Vikunnar 1966 og rifjar þar upp dvölina á eynni:

„Ég dvaldist mánaðartíma á Hýdru sumarið 1962 og á vitanlega góðar minningar um þá dvöl, bæði fyrir glaðværðina sem ríkti á eynni og ekki síður fyrir friðsældina sem hvílir yfir daglegu lífi eyjarskeggja. Þrátt fyrir ferðamannastrauminn hafa þeir varðveitt upprunaleik sinn og haldið í gömul lífsform. Þeir eru pjattlausir, gestrisnir, glaðlyndir, hafa lúmskt gaman af tiltækjum aðkomufólksins og kunna vel að meta peningana sem með þeim berast, en þeim er fjarri skapi að apa lífshætti þess. Af þeim sökum er líf þeirra ennþá óbrotið og nægjusamt.

Sældarlíf á Hydru – MYND: ÓJ

Meðan ferðafólkið flatmagar á sólbökuðum klettunum við sjóinn, stunda þeir sín daglegu störf einsog feður þeirra, afar og langafar hafa gert. Þeir dytta að húsum sfnum, vökva fátæklega jurtagarðana, mála báta sína og smyrja vélarnar, velta stórum tunnum með ólífuolíu um hafnarbakkann, baka brauð sín og reiða vatn í stórum brúsum á litlum ösnum frá brunnum þorpsins. 

Upphafssíða greinar Sigurðar A. Magnússonar í Vikunni 1966 – MYND: Tímarit.is

     Á kyrrlátum eftirmiddegi, þegar maður reikar um þorpið, berst tónlist útum opna glugga frá útvarpi eða grammófóni. Það eru aðallega síðustu tízkulögin, sem eru á allra vörum. Þau blandast eggjahljóðum hænsnanna í nálægum húsagörðum, en svo heyrist alltíeinu hreimfögur kvenmannsrödd sem dregur til sín athyglina. Hún er að syngja angurværan söng um piltana sem héldu fagnandi til svampaveiða og komu aldrei aftur. Hjá nálægu húsi er maður að hlaða útihús úr holum múrsteinum sem hann hefur vísast steypt sjálfur, og úr fjarska heyrast háttbundin hamarshögg — sennilega frá nýbyggingu einhvers „útlendings“.

Asnarnir og eigandinn – MYND: ÓJ

Skyndilega tekur asni að hrína einhversstaðar uppí þorpinu og um stund drukkna öll önnur hljóð í því ferlega orgi: það er einsog allur harmur þessarar langhrjáðu og þolgóðu skepnu fái útrás í hrinunum. Síðan dettur allt í dúnalogn, og eftir andartak heyrist aftur söngurinn, hamarshöggin og varphljóð hænsnanna. Þannig líður dagurinn að mestu án nokkurra ytri ummerkja þeirrar ólgu sem brýzt út með kvöldinu.“

(Sigurður A. Magnússon: Hýdra – Gríska gleðieyjan, Vikan, 8.12.1966)

Í dagsins önn – MYNDIR: ÓJ

Sigurður A. naut dvalarinnar á Hydru en minnist ekkert á Kanadamanninn unga, Leonard Cohen. Hinsvegar nefnir hann norska rithöfundarins Axels Jensen, sem hann segir að hafi ungur getið sér gott orð. Axel var annálaður drykkjurútur og ofbeldisfullur á köflum. Fyrsta eiginkona hans, Marianne Ihlen, varð ástkona Leonards Cohen og bjó með honum á Hydru-árunum ásamt syni þeirra Axels. Leonard Cohen studdi Marianne á margan hátt í lífinu og gerði hana ódauðlega í tregasöng sínum:

Now so long, Marianne,

it´s time we began to laugh and cry and cry and laugh about it all again

Hvað má bjóða ykkur? – MYND: ÓJ

Handkerrur eru þarfaþing á Hydru – MYND: ÓJ

En Hydra þarfnast svo sem engra meðmæla frá frægum útlendum listamönnum. Eyjan mælir með sér sjálf: falleg byggðin, náttúran, merk sagan og blátær sjórinn allt um kring. Fyrir okkur nútímafólkið er ekki síst dýrmætt að geta notið dagsins án hávaða og mengunar. Þegar maður fetar sig upp hlíðina eftir steinlögðum stígunum fækkar fólki á ferli:

Asninn ber húsbóndann, sem talar í síma, upp hlíðina – MYND: ÓJ

Strákar á leið á ströndina – MYND: ÓJ

Matarbúðin nærri heimili Cohen-fjölskyldunnar – MYND: ÓJ

Eyjarskeggi kemur fyrir hornið, ríðandi þreytulegum asnanum í söðli og talar við kunningja í síma. Það glamrar í skeifum. Íbúar feta sig upp brekkuna með innkaupapoka og glaðlegir strákar koma hlaupandi – sjálfsagt á leið í sjóinn að synda. Verslanir fjær höfninni eru með gömlu sniði, hafa margt að bjóða íbúum og gestum.

Gamall andi lifir í þessu plássi.

Þetta var bara fyrsta heimsóknin til Hydru.

Við höfnina á Hydru – MYNDIR: ÓJ

———

Flugfélagið Play greiddi flugmiða blaðamanns Túrista til Aþenu

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …