Samfélagsmiðlar

Eldgosabær Íslands

„Það yrði auðvitað áfall fyrir Reykjanesskaga í heild ef Suðurstrandarvegur færi undir hraun. Vegurinn tengir okkur við Suðurland og margir nýta hann," segir Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Grindavíkur. Hún segir að bæta þyrfti aðstöðu fólks við gönguleiðina að eldgosinu.

Eldgosið við Litla-Hrút

Þá er „fjörið“ byrjað aftur hjá ykkur Grindvíkingum. Hefur umferð verið mikil í bænum og næsta nágrenni?

„Umferðin hefur verið töluverð um bæinn – og var það áður en eldgosið hófst. Reykjanesskaginn hefur stimplað sig inn sem ein helsta náttúruperla landsins en fyrri eldgos hjálpuðu til við þá markaðssetningu. Ég hef forvitnast um það á veitingastöðunum hvort þau finni fyrir aukinni umferð eftir að fór að gjósa og það er sannarlega þannig.“ 

Kristín María við eldgosið á þriðja degi – MYND: Kristín María Birgisdóttir

Hefur álagið verið svipað og í fyrri gosunum – einhver ný vandamál komið upp?

„Álagið í þessu gosi er öðruvísi. Slökkvilið og björgunarsveitir hafa slökkt gróðurelda en framan af hafði almenningur minna aðgengi. Þetta var ekki svona í fyrri eldgosum enda kom það fyrsta upp að vetri til. Þannig að það má segja að þetta sé nýtt vandamál. Gönguleiðirnar í fyrri gosunum voru allt öðruvísi: Meiri hækkun, grýttari leiðir og torfærari. Þessi leið sem nú er farin er beinn en mjög langur slóði með minniháttar hækkun. Þau vandamál sem komu upp í fyrri eldgosum voru óhöpp og minniháttar slys, sem engu að síður ollu álagi á viðbragðsaðila.“ 

Þú nefndir í viðtali við Túrista fyrr í sumar að þið hefðuð viljað sjá betri aðstæður fyrir ferðafólkið sem vill komast að gosinu. Það hefur ekki mikið gerst og nú eru miklar umræður um það hvaða leiðir eigi að fara og hvernig fólk eigi að nálgast gosið. Hefði mátt undirbúa þetta betur – af því að töluverðar líkur voru á að aftur gysi fljótlega?

„Það er í rauninni ekkert sjálfgefið að sjá eldgos. Helsti vandinn sem ég hef rætt eru salernismálin en Grindavíkurbær hefur boðið upp á salernisaðstöðu í Kvikunni, menningarhúsinu okkar, gegn vægu gjaldi. Það þyrftu, að mínu mati, að vera ferðaklósett þar sem gönguleiðin hefst. Fólk er hvatt til að næra sig fyrir göngu og drekka vatn. Það gefur augaleið að því þarf síðan að skila. Þessi 10 km langa gönguleið er á miklu berangri og erfitt er að skjótast á bak við þúfu til að pissa.

Viðbragð í fyrsta gosinu var að mínu mati eins gott að það gat orðið að hálfu ríkis og sveitarfélags varðandi aðgengismálin og stígagerð. Leiðir voru stikaðar eftir því hvernig best var að komast, oft miðað við vindáttir. En alltaf vantaði klósettin. 

Nú er búið að láta vita af styttri gönguleið í gegnum Krókamýri á Vigdísarvöllum, sem ég er sjálf mjög mótfallin að fólk fari. Þetta er beitarhólf, fallegt gróið svæði með lækjarsprænu. Það verður fljótt að eyðileggjast þegar fólk fer að flykkjast þangað.“ 

Hvaða hlutverki gegnir Grindavíkurbær í því sem snýr að eldgosinu?

„Grindavíkurbær er ekki landeigandi en fer með skipulagsvald á svæðinu. Okkar sveitir hafa verið í viðbragðsstöðu, bæði Björgunarsveitin Þorbjörn og svo Slökkvilið Grindavíkur og lögreglan. Í fyrri gosum vorum við að útbúa vegvísa fyrir fólk að bílastæðum áður en þau voru gerð klár. Nú er þetta eins og Bogi Adolfsson sagði: Við tökum upp fyrra plan!“

Dulúðug birta við Litla-Hrút – MYND: Kristín María Birgisdóttir

Hvaða áhrif hefði það á bæinn ef hraunið rennur yfir Suðurstrandarveg?

„Það yrði auðvitað áfall fyrir Reykjanesskaga í heild ef Suðurstrandarvegur færi undir hraun. Vegurinn tengir okkur við Suðurland og margir nýta hann. Miklir þungaflutningar fara þarna um – flutningur á fiski. Svo er þetta mikilvæg leið fyrir ferðafólk. Ef hraun rennur yfir veginn þá vonumst við auðvitað eftir því að hann verði opnaður að nýju að gosi loknu. Við höfum aðeins notið þessara greiðu samgangna í rúman áratug. Suðurstrandarvegur var formlega tekinn í notkun 2011. Maður veit auðvitað ekki hvað hægt verður að gera ef hraunið nálgast veginn – hvort hægt verður að beina því frá honum. Við viljum auðvitað geta farið þessa leið yfir á Suðurland í stað þess að fara í gegnum höfuðborgarsvæðið, og stressið sem því fylgir, en við höfum líka aðra leið úr bænum – um Reykjanesbraut.“

Grindavík er að stimpla sig inn sem „eldgosabær.“ Það er væntanlega tækifæri í því í kringum ferðaþjónustu í bænum?

„Já, Grindavík er sannarlega orðin eldgosabær Íslands. Ferðaþjónustan á Reykjanesi er að mínu mati ein heild og svæðið hefur upp á allt að bjóða. Jafnvel þó við höfum flesta veitingastaði á landinu miðað við höfðatölu þá eru kannski gistimöguleikar fleiri í Reykjanesbæ. Við viljum fá fólk til okkar á Reykjanesskagann, hafa það lengur og hvetja það til að njóta náttúrunnar, afþreyingarinnar og matarins á svæðinu. Við erum UNESCO-vottaður jarðvangur, allur Reykjanesskaginn, og það hafa sannarlega verið tækifæri í þeirri markaðssetningu. Það eru sjö ár síðan við fengum þessa vottun og síðan hefur gosið þrisvar sinnum!“

Þið eruð að undirbúa nýja sýningu í Kvikunni sem fjalla á um eldvirkni og viðbrögð við henni. Þetta nýja eldgos ætti að ýta við ykkur!

„Eldgosið ýtir við mörgu og þessi samfélagsmiðstöð um náttúruvá er eitthvað sem er algjörlega nauðsynleg á svæðið og á sama tíma verður sýningin þar áhugaverð og fræðandi. Það er á fullu verið að hanna sýninguna og það verður gaman þegar hægt verður að opna í Kvikunni, sem er svo viðeigandi nafn á húsinu okkar.“ 

Það er upplifun að sjá eldgos. Kristín María bendir á gíginnMynd í eigu KMB

Hvernig þótti þér sjálfri að sjá gosið? Hegðaði fólk sér vel?

„Upplifunin verður aldrei eins og þegar ég sá fyrsta gosið. Sem var algjörlega truflað. En þetta er alltaf gaman og svo magnað að sitja með kaffibolla og horfa á eldgos! Ég fór gangandi á þriðja degi. Þetta var löng ganga en þess virði þegar þangað var komið. Fólk hegðaði sér ekki í samræmi við tilmæli. Það verður svo mikil hjarðhegðun, einhver fer nær og þá fylgir sá næsti á eftir. Svo fer einhver upp að gígnum og þá hugsar sá næsti að það hljóti nú að vera í lagi fyrst þessi á undan fór. Við höldum aldrei öllu í skefjum nema með því að loka svæðinu. Fólk verður að átta sig á því að það er þarna á eigin ábyrgð.“ 

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …