Play setur stefnuna Frankfurt nú í vetur líkt og búist hafði verið við. Þar með hafa farþegar á leið héðan til þýsku borgarinnar val um áætlunarferði Icelandair, Lufthansa og Play. Ekki liggur fyrir hvort Play haldi ferðunum til Frankfurt áfram næsta sumar en það mun skýrast síðar á árinu samkvæmt talsmanni félagsins.
Frá byrjun desember og fram í apríl mun Play bjóða farþegum í Frankfurt upp á beint flug til Íslands og tengiflug yfir til Norður-Ameríku. Alveg eins og Icelandair gerir en með ferðunum til Frankfurt þá eykst samkeppni íslensku flugfélagana ennþá meira og þeir eru fáir áfangastaðirnir sem Play mun stija eitt að nú í vetur.
Vetraráætlun félagsins gerir nefnilega ráð fyrir reglulegum ferðum til 22 borga og þar af eru 18 þeirra einnig hluti af leiðakerfi Icelandair. Félögin tvö gera reyndar út frá ólíkum flugvöllum í New York og London en áfangastaðurinn er samt sá sami.
Vetraráætlun Wow Air var álíka umsvifamikil veturinn 2016 til 2017 og áætlun Play er fyrir komandi vetur. Þá voru áfangastaðir Wow Air 21 talsins og þar af var félagið í samkeppni við Icelandair á 12 stöðum. Skýringin á því að samkeppni íslensku félaganna núna er miklu harðari liggur ekki bara í vali Play á áfangastöðum heldur líka breytingum hjá Icelandair. Það félag flaug til að mynda ekki til Berlínar, Baltimore eða Dublin fyrir sjö árum síðan heldur fór þangað á eftir Wow Air. Möguleikar Play á að vera í friði fyrir keppinautnum eru því færri. Alla vega ef félagið sér tækifæri í að blanda sér í slaginn á stærstu flugvöllunum en síðustu tvær áfangastaðir sem bæst hafa við vetraráætlun félagsins eru einmitt Amsterdam og Frankfurt.