Tilskipun um stærri salerni, sem var gefin út nú í vikunni, felur í sér að allar nýjar flugvélar með 125 farþegasæti eða fleiri þurfi að hafa a.m.k. eitt salerni „sem er nógu stórt til að nýtast fötluðum einstaklingi ásamt aðstoðarmanneskju. Miðað á við að viðkomandi einstaklingar séu að vexti sem svarar 95 prósentum af fullri karlmannsstærð og svigrúm til athafna miðist við það,“
eins og segir í tilskipuninni.
Þessar framfarir í stærð salerna í mjóþotum eru þó ekki handan við hornið því miðað er við að þessi regla gildi frá 2035 um allar nýsmíðaðar flugvélar – eða þær sem pantaðar voru frá framleiðendum 12 árin á undan, frá september 2023. Reglurnar ná þó ekki til eldri véla sem þá verða enn hugsanlega í notkun.
„Ferðalög geta verið alveg nógu stressandi þó ekki bætist við áhyggjur af því að komast á klósettið. Þrátt fyrir þetta neyðast milljónir manna í hjólastól til að velja á milli þess að losa allan vökva úr líkamanum áður en haldið er í flugferð eða sleppa því algjörlega að fljúga. Við greinum stolt frá þessum nýju reglum sem tryggja eiga að salerni um borð í flugvélum verði bæði stærri og aðgengilegri og tryggt sé að ferðafólk í hjólastólum hafi sama aðgang og sé sýnd sama virðing og öðrum sem ferðast,“ sagði Pete Buttigieg, samgönguráðherra, þegar hann greindi frá tilskipuninni.
Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna – MYND: Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna
Tillögur um þessa breytingu hafa velkst í kerfinu frá 2020 en hún tekur gildi 24. september, með áðurnefndum ákvæðum um tímaviðmið.
Salerni í mjóþotum hafa minnkað á síðustu árum. Flugfélög hafa sóst eftir því að geta fjölgað farþegasætum á kostnað rýmis hvers farþega. Salernum hefur ekki verið fækkað en þau hafa minnkað. Bæði flugvélaframleiðendur og flugfélög hafa haldið því fram að salernin séu full boðleg og aðgengileg þrátt fyrir að þau hafi skroppið saman. Í einhverjum tilvikum hefur verið hægt að fjarlæga skilrúm milli tveggja aðliggjandi salerna svo fatlaðir komist þar að í hjólastól. Samkvæmt gildandi reglum í Bandaríkjunum um breiðþotur skal vera eitt salerni í vélinni fyrir fólk í hjólastól.
Fyrirhuguð regla um stærra salerni í mjóþotum mun gilda um flugvélar eins og Boeing 737 og Airbus A320, sem Icelandair og Play hafa í sinni þjónustu.
Horft inn í flugstjórnarklefa Airbus a321neo-vélar Play-flugfélagsins. Salerni á vinstri hönd – MYND: ÓJ