Samfélagsmiðlar

Ólympíumet í leiguokri

Búist er við að leiguverð íbúða í París hækki um 85 prósent á meðan á Ólympíuleikunum stendur. Nú er ár þar til þeir verða settir. Gert er ráð fyrir að um 11 milljónir gesta sæki leikana.

Borgarlífið í París mun hverfast um Ólympíuleikana, sem haldnir verða 26. júlí til 9. ágúst 2024.

Parísarbúar eru byrjaðir að telja niður daga, klukkustundir, mínútur – tímann fram að setningu Ólympíuleikanna í borginni fögru. Að ári liðnu hefst gamanið – eða hrollvekjan, eins og þetta umstang allt er í huga margra. Á keppnisdögunum nítján verða haldnir 329 viðburðir á 35 stöðum – þar af 20 í sjálfri miðborg Parísar. Aðrar keppnir verða háðar í úthverfum, Versölum og nokkrar hér og þar um landið.

Mikið sjónarspil verður á Signu þegar leikarnir verða settir – Tölvugerð mynd: Paris 2024

Formlega hefst þetta með opnunarhátíðinni 26. júlí 2024 á Signu en fyrstu leikirnir í handbolta, fótbolta og rúgbí verða raunar 24. júlí, en leikunum lýkur 9. ágúst með úrslitaleik í fótbolta karla á Parc des Princes. Frakkar fá þessa daga um hásumarið til að heilla heimsbyggðina. París verður í sýningarglugga sem milljarðar sjónvarpsáhorfenda um allan heim horfa á. Þetta er tækifæri til að kynna Frakkland og verða leikarnir ábatasamir fyrir marga. Um leið munu leikarnir reyna verulega á þolinmæði margra íbúa, sem eru þó ýmsu vanir hvað varðar gestagang. 

Ferðmenn njóta leiðsagnar á bakka Signu – MYND: ÓJ

Það er sagt að Parísarbúar skiptist í tvö horn: Þá sem kvíða fyrir næsta sumri þegar þúsundir og aftur þúsundir hópast til borgarinnar til að fylgjast með Óýmpíuleikunum – og hina sem ætla einfaldlega að forða sér út úr borginni en græða vel á því að leigja út íbúð sína á Airbnb. Sögur eru sagðar af fólki sem ætlar sér að þéna um 30 þúsund evrur á þessu þriggja vikna tímabili sem leikarnir standa, upphæðin svarar nú til rúmlega 4,2 milljóna króna. Hærri tölur eru líka nefndar. Ætlað er að hægt verði að leigja tveggja herbergja íbúð í hjarta Parísar, í Châtelet-hverfinu, á 1.200 evrur á sólarhring á meðan á Ólympíuleikarnir standa. Venjulegast fengjust 400-500 evrur fyrir samskonar íbúð.

Ferðamannabátur á Signu – MYND: ÓJ

Í könnun sem Deloitte gerði fyrir Airbnb og birt var í vor má ætla að leiguverð í Île-de-France, eða á Parísarsvæðinu, hækki um 85 prósent á meðan leikarnir standa og að ferðafólk verði tilbúið að borga brúsann. Þetta verða uppgrip. 

Þess er vænst að um 11 milljónir manna flykkist til Parísar þessa ólympísku sumardaga og meðal þeirra meta sem eiga eftir að falla verða á leigumarkaðnum. Efnað áhugafólk um íþróttir víðsvegar að er tilbúið að greiða nánast hvað sem er fyrir góðar íbúðir að dvelja í yfir keppnisdagana. Yfirmaður Airbnb í Frakklandi gerir ráð fyrir að um hálf milljón manna leigi sér íbúðir á þeirra vegum í París þessar þrjár vikur sem Ólympíuleikarnir teygja sig yfir. Áætlað er að bara þessi útleiga feli í sér um milljarð evra í tekjum – fyrir eigendur íbúðanna, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir og aðra. Tekjur af opinberum gjöldum gætu numið um 70 milljónum evra. 

Parísarbúi þvær bátinn. Óvíst er hvað hann getur siglt næsta sumar þegar Signa verður undirlögð af leikunum – MYND: ÓJ

Götumynd af vinstri bakkanum. 30 þúsund löggur verða á vaktinni hvern dag Ólympíuleikanna- MYND: ÓJ

Þessi stórbissniss undir merkjum Airbnb er þó síður en svo óumdeildur. Mjög hefur verið gagnrýnt í Frakklandi eins og víðar hversu slæm áhrif Airbnb hefur á leigumarkaðinn og bent er á að hann skerði möguleika venjulegs fólks að fá þak yfir höfuðið. Búast má við að gagnrýni á þetta eigi eftir að harðna í aðdraganda Ólympíuleikanna. Frakkar hafa þegar sett þá almennu reglu að ekki megi hafa íbúðir í skammtímaleigu í meira en 120 daga á ári. Í nokkrum borgum gilda enn harðari reglur, þar á meðal í Saint Malo á Bretagne, þar sem gilda kvótareglur um fjölda íbúða til skammtímaleigu.

Bruno La Maire, fjármálaráðherra, ætlar að hemja gróða Airbnb-íbúðaeigenda – MYND: BFM TV

Fjármálaráðherra Frakklands, Bruno La Maire, hefur sagt að unnið sé að því að eyða glufum í skattkerfinu sem eigendur Airbnb-húsnæðis hafa getað nýtt sér. „Ég hef átt erfitt með að skilja hvers vegna Airbnb nýtur svo góðra kjara í skattkerfinu eins og raun ber vitni. Við ætlum að gera breytingar á þessum skattareglum. Ég mun leggja fram tillögur um það,“ sagði fjármálaráðherrann nýverið í sjónvarpsviðtali. Eftir á að koma í ljós hvort það næst að breyta þessum reglum áður en Ólympíuleikarnir hefjast að ári – og þá hvaða áhrif þær breytingar hafa á leiguverð og tekjumöguleika íbúðaeigenda. 

Þær eru dýrar íbúðirnar við Place des Vosges og partíin á torginu stundum lífleg – MYND: ÓJ

Eins og nú horfir, þá má ætla að ný ólympíumet í leiguokri verði slegin í París að ári. Venjulegt fólk sem leitar að íbúð til að búa í árið um kring er ekki skóað til keppni í spretthlaupi við efnaða útlendinga sem tilbúnir eru að greiða hátt verð fyrir skammtímaleigu. Óánægja vegna þessa aðstöðumunar kraumar undir og margt á eftir að ganga á fram að leikunum þó könnun sýni að 70 prósent landsmanna séu hlynnt því að þeir séu haldnir.

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …