Samfélagsmiðlar

Ólympíuumstang hrekur bóksala af Signubökkum

Allir sem komið hafa til Parísar þekkja bóksalana og kassana þeirra meðfram bökkum Signu. Nú hafa yfirvöld tilkynnt bóksölunum að fjarlægja verði kassana af öryggisástæðum fyrir setningu Ólympíuleikanna næsta sumar.

Ferðafólk kannar varninginn í bókakössum á Quai de Montebello. Byggingakranar gnæfa yfir laskaða Notre Dame-kirkjuna.

Kassabóksalarnir eru ósáttir og segja starfsemi þeirra hluta af borgarmynd Parísar, sem verður varla á móti mælt. Þeir eru hluti af landslaginu en eiga að víkja fyrir mannskaranum sem mun safnast saman á bökkum Signu, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir með sögulegum hætti 26. júlí næsta sumar.

Þá verður að vera búið að tæma, taka í sundur og fjarlægja 570 kassa, sem margir eru lúnir og komnir vel til ára sinna. Flestir eru kassarnir á vinstri bakkanum. Borgaryfirvöld segja að þetta hafi áhrif á 60 prósent bóksalanna á bökkum Signu. 

Kassarnir á Signubökkum freista bókafólks – MYND: ÓJ

Kassabóksalarnir á Signubökkum (Les Bouquinistes de la Seine) búa að langri hefð og margir njóta þess að spjalla við þá, gramsa dálítið í kössunum þeirra – og hugsanlega finna einhverjar gersemar: notaðar bækur, blöð, tímarit, ljósmyndir, frímerki, forna mynt, minjagripi og dót af ýmsu tagi. Bóksalarnir eru stoltir af sínu starfi og tilheyra virðulegum samtökum bóksala í París. Forseti samtakanna segir að ferðafólk vilji sjá bóksalana á Signubökkum – alveg eins og Eiffelturninn og Notre Dame – en nú vilji yfirvöld fela þá á meðan á leikunum stendur. 

Í yfirlýsingu lögreglu segir á hinn bóginn að sölukassar bóksalanna séu innan öryggissvæðis í kringum opnunarathöfnina og því augljóst að þá verði að fjarlægja. Áhorfendur og öryggi þeirra eru í fyrirrúmi. Skipuleggjendur Ólympíuleikanna búast við a.m.k. 600 þúsund manns við setningarathöfnina, þegar keppendur og fulltrúar þáttökuþjóða koma siglandi á bátum niður ána. Verður þetta í fyrsta skipti að almenningur hefur svo beinan aðgang að setningarhátíð Ólympíuleika sem jafnan fer fram á lokuðum leikvangi. Mikil vinna er lögð í að tryggja öryggi á þessum fjölsótta viðburði og munu um 35 þúsund manns annast eftirlit, þjálfað lögreglulið, hermenn og öryggisverðir. 

Tölvugerð loftmynd af fyrirhugaðri setningarathöfn á Signu – MYND: Paris 2024 – Florian Hulleu

En kassabóksalarnir eru sársvekktir og móðgaðir, líður eins og þeir fái ekki að vera með í góðu partíi. Að auki segjast þeir hafa áhyggjur af því að þetta umstang allt eigi eftir að skemma viðkvæma, aldargamla trékassana. Kassarnir séu afar vandmeðfarnir og hætt sé við að þeir bresti rétt eins og sjálfsvirðing bóksalanna sjálfra þegar að þessari stórhátíð kemur. 

Borgaryfirvöld í París segjast hafa átt fund með kassabóksölunum og boðist til að standa straum af kostnaði við flutning á kössunum og bæta fyrir allt tjón sem hugsanlega verður á þeim. Reynt er að lægja öldur með því að gefa ádrátt um að þegar búið verði að koma kössunum fyrir að nýju með einhverjum tilfæringum og úrbótum gæti fengist viðurkenning UNESCO á menningarlegu mikilvægi kassabóksalanna við Signu.

Óljóst er hvort setja megi bókakassana upp strax eftir setningarathöfnina eða hvort þeir verði útilokaðir þar til leikunum lýkur 9. ágúst. Borgin virðist gera ráð fyrir að kassarnir verði ekki á sínum stað þessa ólympíudaga því bóksölunum hefur verið boðið að setja þá upp á sérstökum útibókamarkaði við Bastillutorg. Bóksalarnir fussa við þeirri hugmynd. Þeir ætla ekki að una neinum hreppaflutningum.

Tengt efni:

Búist er við að leiguverð íbúða í París hækki um 85 prósent á meðan á Ólympíuleikunum stendur

Nýtt efni

Margir sem eru að basla í ferðaþjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu horfa öfundaraugum til Suðurlands, sem nýtur nálægðar við Keflavíkurflugvöll og Reykjavík - og státar af áfangastöðum sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja og hafa verið mjög vel kynntir síðustu áratugi.   Það er stöðugur straumur ferðamanna um Suðurland, meðfram „gullströndinni,“ sem hótelhaldarinn fyrir austan nefndi svo - …

Löngu áður en hið svokallaða „Bulletproof“ kaffi leit dagsins ljós settu Tíbetar smjörklípu út í morgunteið sitt til að byrja daginn á rjúkandi og næringarríkan hátt. Í köldu háfjallalofti Himalaja-fjallanna hefur þessi salti, rjómakenndi og hitaeiningaríki drykkur orðið að daglegri hefð sem er ómissandi í matarmenningu þjóðarinnar.Á máli heimamanna nefnist drykkurinn „po cha,“ sem einfaldlega …

Í nærri fimmtán hafa Icelandair og bandaríska flugfélagið Jetblue átt í samstarfi sem gerir viðskiptavinum þeirra kleift að kaupa tengiflug með hinu félaginu á einum miða og innrita farangur alla leið. Þannig getur farþegi sem ætlar héðan til Orlando í sumar keypt farið alla leið hjá Icelandair þó flogið sé með Jetblue seinni legginn, frá …

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …