Gistinætur á íslenskum hótelum í maí sl. voru samtals 410 þúsund talsins og hafa þær aldrei áður verið þetta margar í maí. Árið 2018, þegar hingað komu fleiri ferðamenn en dæmi eru um, þá voru hótelnæturnar í maí aðeins 318 þúsund og fengu þá reykvísk hótel 54 prósent af fjöldanum.
Í nýliðnum maí var hlutdeild Reykjavíkur aðeins 49 prósent og er þetta í fyrsta sinn sem hótelin á höfuðborgarsvæðinu eru ekki með meirihluta gistináttanna í maí.
Yfir sumarmánuðina, þegar ferðamannastraumurinn er mestur, þá eru gistinæturnar á landsbyggðinni fleiri en í höfuðborginni en sem fyrr segir hefur það ekki áður gerst í maí. Í þeim mánuði árið 2017 voru reykvísk hótel til dæmis með 58 prósent af markaðnum.
Það eru tvær skýringar á þessari breytingu.
Í fyrsta lagi gista Íslendingar orðið mun oftar á íslenskum hótelum en áður var. Nítján af hverjum 100 gistinóttum í maí voru skrifaðar á íslenskan gest en hlutfallið var aðeins 12 til 14 prósent í maí árin 2018 og 2019. Og þar sem meirihluti íbúa landsins býr á höfuðborgarsvæðinu þá njóta hótel á landsbyggðinni þess þegar Íslendingar ferðast um landið og kaupa sér gistingu.
Í öðru lagi þá eru vísbendingar um að erlendir ferðamenn dreifi sér betur um landið á vorin. Af öllum þeim gistinóttum sem útlendingar keyptu hér í maí þá fékk landsbyggðin 47 prósent af viðskiptunum. Í maí í fyrra var hlutfallið aðeins 41 prósent og 42 prósent árið 2019.