Meðal fyrstu áfangastaða kínverskra ferðamanna eftir heimsfaraldur var Tæland, sem fagnaði endukomu þeirra. Hinsvegar blasir nú við þrátt fyrir góða byrjun verði heildarfjöldi kínverskra ferðamanna í Tælandi á þessu ári minni en vonir voru bundnar við.
Tælendingar voru mjög bjartsýnir í ársbyrjun og töldu líkur á að tvöfalt fleiri erlendir ferðamenn kæmu til landsins miðað við í fyrra eða um 30 milljónir manna. Nú er talið hæpið að það markmið náist.
Ferðamálayfirvöld í Tælandi leita nú leiða til að bæta upp tekjumissinn vegna fjarveru Kínverjanna með því að lokka aðrar þjóðir til þessa rómaða ferðamannalands og er helst horft til markaða í Miðausturlöndum. Vonast er til að um 400 þúsund gestir frá Miðausturlöndum komi til Tælands á þessu ári, flestir frá Sádi-Arabíu eða um 150 þúsund. Forsendur fyrir þessum árangri eru bein diplómatísk samskipti og beint áætlunarflug.
Ao Nang í Tælandi – MYND: Unsplash / Sara Dubler
Thai Airways hóf í ágúst í fyrra áætlunarflug milli Bangkok og Jeddah í Sádi-Arabíu. Þessi tenging gagnaðist báðum löndum verulega. Alþjóðaflugvellirnir í Sádi-Arabíu eru tengivellir ferðamanna frá Kína, Suðaustur-Asíu og Ástralíu í Miðausturlöndum – og allra þeirra sem stefna til Mekka. Á móti var efnuðum Sádi-Aröbum auðvelduð ferðalög til Tælands. Strendurnar þar freista Sádanna.
Þetta marðsáták hefur gengið vel. Sádi-Arabía er orðin stærra markaðssvæði Tælendinga en Sameinuðu furstadæmin. Sádi-Arabar eru eftirsóttur ferðamannahópur, fólk með mikil fjárráð og eyðir töluverðu fé á dvalarstöðum sínum. Búist er við að Tælandsferðum frá Miðausturlöndum eigi enn eftir að fjölga þegar líður lengra á sumarið og dvalartími gesta lengist.