Það er langt síðan vísindamenn vöruðu við því sem við erum að upplifa. Hitamet eru slegin hvert af öðru og horfur eru á að enn eigi ástandið eftir að versna víða. Hitabylgja þjarmar að íbúum og ferðafólki í sunnanverðri Evrópu og er búist við að hitinn komist í 45 gráður eða meira víða á Spáni, Ítalíu og Grikklandi. Miklir hitar eru líka framundan á Balkanskaga, í Portúgal, Frakklandi og víðar í álfunni.
Sólhlífar eru gagnlegar á opnum svæðum, eins og á gönguleiðinni til og frá Mont Saint-Michel í Frakklandi – MYND: ÓJ
Þessir miklu hitar hafa auðvitað margvísleg alvarleg áhrif á náttúru og samfélög. Ferðafólk getur lagað sig að þessum aðstæðum í fáeina daga, haldið sig á skuggsælum stöðum yfir heitasta tíma dagsins, reynt að kæla sig og drekka mikið vatn. Einhverjir íslenskir ferðamenn heita því vafalaust að halda sig í svalanum og súldinni heima næsta sumar.
Heitur dagur í París og fólk leitar í skuggann – MYND: ÓJ
Varla hefur nokkur gaman af því að skoða sig um á Akrópólis í Aþenu eða í Forum Romanum í Róm ef hitinn er yfir 40 gráður. Yfirvöld í Aþenu sáu sér ekki annað fært en að loka Akrópólis yfir heitasta tíma dagsins. Það bann gildir enn. Yfirvöld hafa skipulagt margháttuð viðbrögð við afleiðingum hitans á ferðafólk, vatnsflöskum er dreift og birtar upplýsingar um viðbrögð við aðsvifi vegna ofhitnunar. Lokun Akrópólis hefur þó valdið óánægju meðal ferðafólks sem komið er langan veg – einmitt til að fara upp á hæðina.
Það sem allir vilja sjá: Akrópólis – MYND: ÓJ
Þessi ógnarhiti setur margt úr skorðum og reynir á þolgæði margra en það á eftir að koma betur í ljós hver varanleg áhrif þessara loftslagsbreytinga eiga eftir að verða á lífshætti og ferðavenjur. Umræður um loftslagsmál og átök um stefnuna í þeim eiga líka eftir að harðna. Stöðugt meira af koltvísýringi í andrúmsloftinu og öflugir vindar sem flytja hver af öðrum með sér heitt loft yfir álfuna skapa aðstæður sem maðurinn hefur ekki þurft að búa við – og sjálfin Jörðin ekki heldur – í meira en 100 þúsund ár.