Ein stærsta flugsamsteypa Evrópu, International Airlines Group, eða IAG, á flugfélögin British Airways, Iberia, Aer Lingus og Vueling. Á miðju sumri fagnar hún mjög góðri afkomu og segir horfur jákvæðar. Mikil spurn er eftir flugferðum og bókunarstaðan í áætlunarferðum á þessum þriðja ársfjórðungi er komin í 80 prósent.
Þetta kom fram í hálfárs uppgjöri IAG sem birt var í gær. Samsteypan fagnar ekki aðeins góðri afkomu í alþjóðaflugi heldur líka á heimamörkuðum á Bretlandseyjum og Spáni. Tekjur á hvern farþega hækkuðu um nærri 20 prósent á öðrum fjórðungi og almennt batnaði afkoman í öllum þáttum starfseminnar um 13 prósent. Góð bókunarstaða gefur samsteypunni fyrirheit um batnandi afkomu fram á haust.
Svipaða sögu er að segja af annarri stórri samsteypu, Air France-KLM, sem kynnti líka afkomutölur sínar á föstudag. Eftirspurn er mikil og afkoman batnaði um 12 prósent við þessi góðu rekstrarskilyrði á öðrum ársfjórðungi.
MYND: Iberia
Nokkuð öðru máli gegnir um sum bandarísku flugfélögin sem hafa þurft að þola versnandi afkomu að undanförnu. Það á sérstaklega við flugfélögin sem starfa mest á innanlandsmarkaði, eins og Southwest og Alaska Airlines. Skýringin er þó ekki lítil farmiðasala heldur samanburðurinn við metafkomuna í fyrra þegar allt fór á fullt eftir heimsfaraldur. Flugfélögin Amercan Airlines, Delta og United njóta hinsvegar öll mikillar spurnar eftir flugmiðum til útlanda og endurspeglast það í afkomutölum það sem af er ári.
Þegar þetta er allt tekið saman, þá blasir við mikil gróska í flugi í Evrópu og Bandaríkjunum. Sömu sögu er að segja úr hótelrekstri. Stórar keðjur fagna góðri afkomu og segja bókunarstöðu fína. Ferðaþyrstur almenningur lætur verðhækkanir ekki stöðva sig. Fólk er enn að bæta upp fyrir innilokunina í heimsfaraldrinum.
MYND: British Airways
En á sama tíma og vel er bókað í sumarleyfisferðir þá er vöxturinn hægari í viðskiptaferðum. IAG og aðrar flugsamsteypur segja að enn vanti töluvert upp á að fyrirtæki og viðskiptamenn kaupi flugferðir í sama mæli og fyrir heimsfaraldur. British Airways hefur t.d. aðeins endurheimt tæp 70 prósent af fjölda viðskiptaferða ársins 2019. Talsmenn IAG vonast þó enn til að ná 85 prósenta hlutfalli fyrir árið í heild. F yrirtækin virðast því gætnari en almenningur hvað varðar flugmiðakaup á óvissutímum í efnahagslífinu en breytt viðhorf eftir Covid-19 hafa líka vafalaust áhrif. Margir vöndust fjarfundum og fagna því að geta sleppt stuttu viðskiptaferðunum og meðfylgjandi vafstri – og leiðinlegri bið á flugvöllum.
Flugfélögin stigu inn í sumarvertíðina með nokkurn ugg í brjósti. Öllum var ofarlega ofarlega í huga vandræðin sem voru á mörgum evrópskum flugvöllum sumarið 2022, þegar verkföll og skortur á starfsfólki setti áætlanir ítrekað úr skorðum. Ástandið hefur ekki verið mikið betra það sem af er þessu sumri. Á öðrum ársfjórðungi voru aðeins 57 prósent brottfara British Airways á áætlun og þetta var litlu betra hjá Aer Lingus, eða 64 prósent. Ferðavefurinn Skift segir að ekki sé hægt að kenna starfsmannaskorti um vandræðin eins og í fyrrasumar heldur sé um að ræða samþætt vandamál tengd viðhaldi, aðföngum og vandkvæðum í flugumferðarstjórn í Evrópu. Ástandið hafi þó verið miklu betra á Spáni. Stundvísi Iberia var 90 prósent á öðrum ársfjórðungi.