Neysluverðsvísitalan í Danmörku í júní var 2,5 prósentum hærri en hún var fyrir ári síðan samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu landsins. Í maí nam hækkun vísitölunnar 2,9 prósentum og hefur hún því lækkað átta mánuði í röð en vísitalan toppaði í október í fyrra þegar hún nam 10,1 prósenti.
Skýringin á lækkuninni í Danmörku skrifast helst á lægra verð á matvöru og eldsneyti.
Hagstofa Noregs birti líka upplýsingar um verðlagsþróun í morgun og þar er niðurstaðan önnur. Verðlag hækkaði nefnilega um 6,4 prósent í júní sem er viðbót um 0,3 prósent. Hærra matvöruverð er sagt helsta ástæða þess að verðlagsþróunin var með þessu hætti samkvæmt frétt DN.
Gengi gjaldmiðla landanna tveggja hefur þróast með ólíkum hætti síðustu misseri. Norska krónan er óvenju veik en sú danska er sterk en hún er bundin við evruna.