Því hefur verið haldið fram að verðmætustu ferðamennirnr komi frá Sviss enda eyði þeir mestu. Síðar kom í ljós að íslenskir auðmenn með svissnesk greiðslukort skekktu þá útreikninga. Það eru nefnilega ekki bara svissneskir túristar sem borga fyrir íslenska vörur og þjónustu með svissneskum frönkum.
Engu að síður má reikna með að ferðamenn frá Sviss eyði meiru en margir aðrir enda verðlagið hér á landi ekki ósvipað því sem gerist og gengur í Alpalandinu. Svisslendingar eru vanir að borga mikið fyrir hitt og þetta.
En nú er verðlagið kannski farið að hafa neikvæð áhrif á strauminn frá Sviss því talning Ferðamálastofu og Isavia sýnir að ferðamönnum frá Sviss fækkar hratt hér á landi. Í júlí fóru aðeins 2 þúsund Svisslendingar í gegnum vopnaleitina í Leifsstöð þar sem talning á ferðamönnum fer fram. Samdrátturinn nemur sextíu prósentum frá því í júlí í fyrra og 70 prósentum í samanburði við júlí 2017.
Fækkunin það sem af er ári er líka mikil því fyrstu sjö mánuðina voru aðeins taldir 10 þúsund Svisslendingar í Leifsstöð. Á sama tíma í fyrra voru þeir nærri 13 þúsund og á árunum fyrir heimsfaraldur komu hingað á bilnu 12 til 17 þúsund Svisslendingar frá janúar og fram í júlí eins og sjá má hér fyrir neðan.
Samt tvöfalt fleiri flugferðir
Sú spurning vaknar hvort talning á svissneskum vegabréfum í Leifsstöð hafi farið út af sporinu en frá haustinu 2019 er þjóðerni hvers einasta farþega ekki skoðað heldur stuðst við úrtök. Þessi breyting var gerð í kjölfar niðurskurðar hjá Isavia.
Ef við skoðum flugumferðina frá Sviss þá er ljóst að hún hefur aukist verulega. Í júlí sl. var til að mynda á boðstólum 83 áætlunarferðir héðan til Sviss. Þær voru 40 á sama tíma árið 2017 samkvæmt ferðagögnum Túrista. Framboðið hefur sem sagt tvöfaldast á sama tíma og svissnesku ferðamönnunum fækkar um 70 prósent.
Miklu fleiri gistinætur
Gistináttatölur Hagstofunnar ná til ekki til júlí sl. en fyrstu sex mánuði ársins keyptu Svisslendingar miklu fleiri gistingar á íslenskum hótelum en nokkru sinni fyrr. Í það minnsta á fyrri helmingi ársins en gistináttatölur fyrir júlí liggja ekki fyrir.
Eyða fleiri frönkum
Notkun svissneskra greiðslukorta hefur líka aukist umtalsvert á Íslandi en það verður sífellt minna að marka þær tölur. Ekki bara vegna Íslendinganna með svissnesku kortin heldur líka þeirrar staðreyndar að fjöldi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur fært viðskipti sín til erlendra færsluhirða. Þar með telst sú velta ekki með í gagnagrunni Rannsóknarseturs verslunarinnar.