Töluverð vinna hafði farið í að koma á tengslum við Condor-flugfélagið og vekja athygli forráðamanna á þeim möguleikum sem fælust í beinum flugtengingum til Akureyrar og Egilsstaða. Fögnuðurinn var því mikill meðal Norðlendinga og Austfirðinga í júlí á síðasta ári þegar Condor staðfesti að áætlunarflug frá Frankfurt til þessara tveggja staða hæfist um miðjan maí á þessu ári og stæði fram í október. Bent var á að með þessum flugtengingum sköpuðust nýjar forsendur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni og íbúum þar opnuðust nýir ferðamöguleikar með tengingu við einn best tengda flugvöll Evrópu.
Ákvörðun Condor um að hefja flug til Akureyrar og Egilsstaða var tilkynnt 13. júlí í fyrra og Túristi birti viðtöl við þá sem komu að viðræðum við þýska flugfélagið. „Þetta breytir öllu,“ sagði verkefnisstjóri ferðamála hjá Austurbrú. Mikil vinna var að baki og nú hófst undirbúningur fyrir komu Condor.
Ítarlega var farið yfir aðdraganda þessarar ákvörðunar Condor um að hefja beint áætlunarflug norður og austur í viðtali í við Jónu Árnýju Þórðardóttur, þáverandi framkvæmdastjóra Austurbrúar og núverandi bæjarstjóri í Fjarðabyggð, sem birtist í október 2022:
„Ég vænti þess að sumarið 2023 verði gott en hef grun um að sumarið 2024 verði enn betra.“
Jóna Árný Þórðardóttir, Clea Braun frá Condor, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair á Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna 2022 – MYND: Urður Gunnarsdóttir
Það varð ferðaþjónustufólki áfall þegar tilkynnt var 27. mars, rúmum einum og hálfum mánuði áður en Íslandsflugið átti að hefjast, að fallið hefði verið frá þeim áformum. Í fréttatilkynningu sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla:
„Því miður gekk verkefnið með Condor ekki upp í ár en við bindum vonir við að af millilandaflugi milli Þýskalands og Norður- og Austurlands verði árið 2024. Það eru margir þættir sem leiddu til þessar niðurstöðu, markaðssetningin erlendis hófst ekki nógu snemma til að ná flugi fyrir árið í ár og breyttar markaðsforsendur áttu einnig sinn þátt í að svona fór. Áhugi flugfélaga á millilandaflugi til Norður- og Austurlands fer stöðugt vaxandi, við finnum það mjög sterkt á ferðakaupstefnum og vinnustofum erlendis.”
Þessi „stöðugt vaxandi“ áhugi á millilandaflugi til Norður- og Austurlands, sem Sigrún Björk nefndi, virðist þó ekki að finna í Frankfurt. Túristi hefur reynt að fá upplýst um áform Condor varðandi flug næsta sumar til Akureyrar og Egilsstaða. Í morgun svaraði Johanna Tillmann, talskona Condor:
„Okkur er skylt að staðfesta að Ísland verður því miður ekki hluti af væntanlegri sumaráætlun Condor.“