Samfélagsmiðlar

Ferðamálastjóri er hlynntur aðgangsstýringu

Búist er við að ferðamönnum á Íslandi fjölgi áfram. Verulegur hluti þeirra fer svonefndan „Gullna hring" á Suðurlandi. Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, segir að styrkja þurfi innviði á helstu viðkomustöðum en ákvarðanir um aðgangsstýringu hafi áhrif á það hversu þörfin sé mikil.

Ferðamenn bíða þess að gjósi

Gullni hringurinn er um 210 kílómetra akstursleið sem liggur um og við marga áhugaverða og fagra staði á Suðurlandi. Hún liggur frá Reykjavík um Mosfellsheiði í þjóðgarðinn á Þingvöllum og þaðan um Lyngdalsheiðarveg að Laugarvatni og upp Biskupstungnabraut að Geysi og Gullfossi. Síðan er ekið að Reykholti, komið við í Friðheimum. Þaðan haldið niður Grímsnes að Kerinu og síðan ekið yfir Ölfusá og í átt að Hellisheiði og yfir hana til Reykjavíkur. Margar aðrar útfærslur eru í boði, t.d. að fara Suðurstrandarveg og kanna ný hraun á Reykjanesskaga – eða fara lengra í austurátt, meðfram svartri ströndinni. Það er ekki að undra að mikill fjöldi erlendra ferðamanna sé á þessum slóðum. Þarna er margt að sjá og margs njóta – og hægt er að fara um þessar slóðir í dagsferðum út frá Reykjavík. Túristi ræðir um Gullna hringinn við ferðamálastjórann, Arnar Má Ólafsson.

Arnar Már Ólafsson

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri – MYND: ÓJ

Er vitað hversu margir ferðamenn fara á ári hverju um Gullna hringinn?

„Nei, ekki með vissu. Við erum með nokkra teljara sem tengjast svæðum á Gullna hringnum. Það er ekki greinanlegt fyrir okkur hvort einstaklingar séu að skoða einn áfangastað á leiðinni eða séu á hringnum. Meðalfjöldi á dag í júlí í fyrra sem fór inn um aðalinngang á Geysissvæðið var um 4.800. Júlí var fjölmennasti mánuðurinn í fyrra. Nú í ár fóru í júlí um 5.800 manns inn um sama inngang. Við Gullfoss á efra svæði í fyrra töldum við 2.200 einstaklinga á dag í júlí, en nú í ár voru þeir 3.100. Það sem af er ári hafa um 794.000 ferðamenn farið inn um aðalinngang að Geysisvæðinu og rúmlega 510.000 ferðamenn inn um efra svæðið við Gullfoss.“

Mannfjöldi gengur niður Almannagjá

Ferðamenn ganga niður Almannagjá – MYND: ÓJ

Þéttar raðir fólks við Strokk – MYND: ÓJ

Við Gullfoss – MYND: ÓJ

Er Gullni hringurinn vel heppnuð markaðssetning að þínu áliti?

Gullni hringurinn er í raun einstök dagsferð. Þingvellir, með alla sína náttúrufegurð, sögu og jarðfræði – en sumir segja að þetta sé jafnvel besti staðurinn í heiminum til að sjá flekaskil svona greinilega. Svo eru það Geysir og Gullfoss, jöklasýn á góðum dögum og mikil náttúrufegurð. Einstök náttúra, menning, eldur og ís, þetta er allt þarna!

Svo má bæta við hinum ýmsu heimsóknum við þessa hefðbundnu segla og útfæra daginn með ýmsum hætti. þannig að það eru í raun til margar útgáfur að Gullna hringnum.  Þetta er einnig mjög vel heppnuð ,,vara“ að því leytinu til að hún er gríðarlega vel þekkt og stór hluti þeirra sem sækja landið heim vilja fara Gullna hringinn. Fjöldinn skapar svo aftur áskoranir sem við þekkjum og hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu.“

Ferðamenn á gangi milli þjónustumiðstöðvar og hverasvæðis við Geysi. Þjóðbraut liggur um hlaðið – MYND: ÓJ

Eru gestir hæfilega margir á þessum stöðum: Þingvöllum, Geysi og Gullfossi – eða kannski of margir?

„Það er dálítið snúið að svara þessari spurningu með einföldum hætti. Erum við t.d. að hugsa svarið út frá sjónarmiði ferðamannanna sjálfra eða Íslendinga? Erum við að hugsa svarið út frá þeim innviðum sem eru til staðar á þessum svæðum. Við hjá Ferðamálastofu höfum verið að skoða hversu ánægðir ferðamenn eru með hina ýmsu þætti á Íslandi. Almennt eru menn mjög ánægðir með dvölina á Íslandi og einungis 2% ferðamanna segja að ferðin hafi ekki staðist væntingar, og það getur verið af ýmsum orsökum. Varðandi fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum, þá sagði tæpur fjórðungur árið 2022 að þeir séu of margir, 43% töldu þá passlega marga og um 33% voru hlutlausir. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi sama könnun okkar fyrir árið í ár kemur út.

Það sem er jákvætt er að sjá hversu hátt meðmælaskor Íslands var hátt í fyrra. Þar komum við sérlega vel út í alþjóðlegum samanburði. Það verður einnig fróðlegt að sjá hvernig árið ár kemur út í þessu.“

Við Strokk – MYND: ÓJ

Þarf að styrkja innviði meira á þessum vinsælu ferðamannastöðum – líklega þeim vinsælustu á landinu?

„Já, það þarf að styrkja innviði á öllum þessum svæðum ekki síst í ljósi þess að við spáum frekari fjölgun ferðamanna á næstu árum. Það sem hefur þó áhrif á þessa umræðu eru þær ákvarðanir sem verða teknar varðandi hugsanlega fjöldastýringu á þessum svæðum. Þær ákvarðanir geta haft áhrif á hversu mikil þörf er á styrkingu innviða.“

Þú nefnir hugmyndir um stýringu um fjölda á vinsælum ferðamannastöðum. Ertu sjálfur hlynntur aðgangsstýringu t.d. að Þingvöllum, Geysi og Gullfossi?

„Varðandi þessa staði sem þú nefnir þá er stutta svarið: Já.“

Sjónarspil við Gullfoss – MYND: ÓJ

Fleira segir ferðamálastjóri ekki í bili um þessa mikilvægu spurningu – hvort stýra eigi meira aðgangi að helstu ferðamannastöðum okkar. Það er m.a. viðfangsefni stýrihóps ferðamálaráðherra um samkeppnishæfni og verðmætasköpun – en líka í Þingvallanefnd og meðal stjórnenda þjóðgarðsins.

Ég sá ekki marga Íslendinga þegar ég fór um þessar slóðir nýverið – veit að þeir geta auðvitað horfið í fjöldann. Er hugsanlegt að Íslendingar forðist Þingvelli, Geysi og Gullfoss yfir háönnina?

„Það er vel hugsanlegt en það er erfitt að segja til um það með vissu. Við höfum ekki tölulegar upplýsingar um þetta sem ég get vitnað í.“

Frægð Þingvalla, Geysis og Gullfoss hefur margfaldast á samfélagsmiðlum – MYNDIR: ÓJ

Hvenær fórstu sjálfur síðast Gullna hringinn? Fannst þér það gaman?

„Ég fór hann á rigningardegi í júní síðastliðnum – og já, mér fannst það í senn gaman og fróðlegt.

Það sem mér fannst samt enn meira gaman var að ég hjólaði hluta af honum um þar síðustu helgi. Veðrið var með allra besta móti. Við reyndar hjóluðum Nesjavallaleið frá Reykjavík og stoppuðum á útsýnisstað þar sem við horfðum yfir Þingvallavatn og Nesjavelli. Einstaklega fallegur staður. Þarna var varla nokkur maður á ferli. Við mættum einu frönsku pari sem var þarna á göngu sem bauð góðan dag með brosi á vör. Svo hjóluðum við áfram suður fyrir Þingvallavatn. Þar mættum við engum bíl. Við hjóluðum meðfram vatninu í norðurátt og þar var aðeins meiri umferð, samt ekki mikilli.

Þegar við svo komum inn í Þjóðgarðinn breyttist þetta. Þar tók fjöldinn á móti okkur.

Á leiðinni til baka yfir Mosfellsheiði var mjög mikil umferð.“

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …