Á fjórða tug flugmanna Play sótti um störf hjá Icelandair í febrúar sl. og voru sjö þeirra ráðnir, allt flugstjórar eins og Túristi greindi frá á sínum tíma. Hluti þeirra umsækjenda sem ekki komst að fyrir sumarvertíðina fékk boð um sæti á sérstökum biðlista hjá Icelandair.
Þar af var hópur flugmanna frá Play og í gær fengu 18 þeirra símtal frá Icelandair þar sem þeim var boðið að hefja störf félaginu samkvæmt heimildum Túrista. Þeir sem ætla að þiggja atvinnutilboðið þurfa að segja upp hjá Play í dag ætli þeir að vera lausir allra mála áður en þjálfunin hefst hjá Icelandair í október og nóvember.
Stjórnendur Play brugðust við stöðunni með því að boða alla flugmenn félagsins til fundar í gærkvöld klukkan 21 en áður hafði verið ráðgert að setjast niður með flugmönnum nú í kvöld. Í fundarboði kemur aðeins fram að nýjar upplýsingar verði til umræðu.
Hærri laun og ferðir út á flugvöll
Eins og áður hefur komið fram eru laun áhafna Icelandair nokkru hærri en þekkist hjá Play. Hæstu grunnlaun flugmanns hjá Play nema 590 þúsund krónum en hjá Icelandair eru þau 860 þúsund krónur.
Akstursstyrkir, dagpeningar og fleira bætast við þessar upphæðir hjá flugfélögunum báðum en vinnuálagið hjá áhöfnum Icelandair mun almennt vera minna en hjá keppinautnum. Félagið býður jafnframt upp á sætaferðir til og frá Keflavíkurflugvelli á meðan áhafnir Play þurfa sjálfar að koma sér út á flugvöll.
ASÍ gagnrýndi kjörin
Þessi launamunur skýrir að hluta þá staðreynd að einingakostnaður flugfélagins er lægri hjá Icelandair. Stjórnendur Play hafa lagt mikla áherslu á hinn lága einingakostnað í fjárfestakynningum og sagt hann gefa félaginu forskot í samkeppninni.
Í þessu samhengi má rifja upp að þegar Play var að hefja flug sumarið 2021 þá gagnrýndi þáverandi ASÍ kjarasamninga flugfreyja og -þjóna hjá Play. Var meðal annars vísað til þess að samið hafði verið um laun löngu áður en nokkur var ráðinn til starfa en viðsemjandi Play var stéttarfélag sem áður hafði samið fyrir hönd flugmanna Wow Air. Flugfreyjur og -þjónar þess félags höfðu verið í Flugfreyjufélagi Íslands líkt og starfssystkini þeirra hjá Icelandair.
Play er með 10 þotur í flota sínum og á bilinu 120 til 140 flugmenn nú í sumar en sem fyrr segir hafa 18 þeirra fengið boð um að færa sig yfir til Icelandair.