Icelandair flaug 206 þúsund farþegum milli Íslands og Bandaríkjanna í apríl og maí sl. á meðan 27 þúsund farþegar nýttu sér ferðir Play milli landanna tveggja þessa tvo mánuði. Hið bandaríska Delta bauð líka upp á áætlunarflug hingað í vor frá New York og Detroit og 20 þúsund farþegar flugu með því félagi.
Þetta sýna útreikningar Túrista sem byggja á gögnum frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Farþegatölur fyrir júní og júlí liggja ekki fyrir vestanhafs en gögn eins og þessi eru ekki opinber hér á landi.
Hjá Icelandair var næstum helmingur farþegahópsins á ferðalagi til og frá New York og Boston eða um 95 þúsund farþegar. Sætanýtingin í New York var þó betri því þar voru 83 af hverjum 100 sætum bókuð en nýtingin í Bostonfluginu var 79 prósent.
Óseldu sætin í apríl og maí voru aftur á móti fæst hjá Icelandair í Denver og Raleigh þar sem 85 prósent sætanna voru að jafnaði bókuð. Icelandair er ekki með neinn keppinaut í flugi frá þessum tveimur borgum til Íslands en gera má ráð fyrir að töluverður hluti af farþegum félagsins í þessum tveimur borgum séu tengifarþegar. Sá hópur hefur þá úr fleiri kostum að velja til að koma sér til Evrópu, bæði beint eða með millilendingu.
Hjá Play voru farþegarnir flestir á Baltimore-Washington flugvelli eða nærri 12 þúsund. Og þar voru þotur félagsins líka þéttsetnastar því sætanýtingin fór upp í 83 prósent. Í flugi Play frá New York, Boston og Dulles flugvelli í Washington voru óseldu sætin hlutfallslega fleiri eins og sjá má hér fyrir neðan.
Hjá Delta var sætanýtingin í Íslandsfluginu frá New York 82 prósent en bara 68 prósent í ferðunum frá Detroit.
Sem fyrr segir ná þessar tölur aðeins yfir umferðina í apríl og maí. Í júní þyngdist umferðin til muna og sérstaklega á vegum Play sem þá var komið með tíu þotur en þær voru aðeins sex sl. vetur. Bandaríska flugfélagið United hóf svo sína sumarvertíð á Keflavíkurflugvelli í júní en þó með helmingi færri ferðum en áður.