Stjórnendur Lufthansa vilja teygja sig býsna langt til að skapa vinnufrið og hafa boðið flugliðum, öllum sem rétt hafa á því að stýra flugförum þeirra, 18 prósenta grunnhækkun í þremur áföngum, sem að viðbættum eingreiðslu og bónusgreiðslu vegna verðbólgu sem lofað var á síðasta ári, leiða til þess að kaupgreiðslur til flugstjóra hækka um 25 prósent á þremur árum og flugmenn fá 33 til 50 prósenta hækkun á sama tímabili, samkvæmt innanhúss minnisblaði sem Reuters-fréttastofan vitnar til.
MYND: Lufthansa
Um 5.200 flugmenn Lufthansa og Lufthansa Cargo greiða atkvæði um tilboðið næstu daga. Atkvæðagreiðslunni lýkur 10. ágúst.
Rekstrarstjóri Lufthansa segir í minnisblaðinu að þessar launahækkanir verði mjög íþyngjandi og minnki sveigjanleika í rekstri félagsins. Engu að síður megi réttlæta þessar hækkanir með því að í þeim felist tækifæri til að tryggja vinnufrið. Samtök þýskra flugmanna hafa ekki látið neitt hafa eftir sér um tilboðið.
Ef samkomulag næst geta farþegar Lufthansa treyst því að engin röskun verði á flugi vegna verkfalla flugmanna næstu þrjú árin. Þetta útspil forráðamanna Lufthansa lýsir trú á því að áframhaldandi vöxtur verði í flugsamgöngum næstu árin. Mestu varðar þá að tryggja sem mestar tekjur yfir sumartímann þegar umferð er mest. Vinnudeilur eru meðal þess sem helst getur raskað áætlunum flugfélaga.