Samfélagsmiðlar

Mengandi bílar á öllu stórborgarsvæði Lundúna þurfa framvegis að greiða sérstakt gjald

Frá og með 29. ágúst þurfa allir sem aka mengandi bílum á öllu stórborgarsvæði Lundúna að greiða sérstakt gjald. Markmið borgaryfirvalda er að draga út veikindum og forðast ótímabær dauðsföll sem nú eru rakin til losunar skaðlegra efna frá útblæstri bíla.

Áætlun borgaryfirvalda í Lundúnum um að gera strangar kröfur um litla losun frá ökutækjum í stórborginni er nefnd ULEZ (Ultra Low Emission Zone). Ekki er með beinum hætti þrengt að bílum vegna losunar á koltvísýringi (CO2) og áhrifa hennar á hlýnun andrúmsloftsins heldur er baráttunni beint að skaðlegum áhrifum köfnunarefnisoxíðs (nituroxíðs, NOx). Um leið er auðvitað fækkað bílum sem hafa mest loftslagsáhrif.

Losun á NOx má ekki fara yfir 0,08 grömm á hvern ekinn kílómetra. Þeir sem aka bílum sem losa yfir þessum mörkum þurfa að sæta því að greiða 12,50 punda gjald, eða mengunarskatt, hvern dag sem ekið er innan borgarmarka, eða sem svarar rúmum 2.000 krónum. Þessi aðgerð hefur mætt mikilli andstöðu og er sérstaklega gagnrýnd vegna þess að hún komi illa við þá sem berjast í bökkum á tímum mikilla verðhækkana.

ULEZ-áætlunin var kynnt til sögunnar 2019 og náði þá aðeins til lítils hluta miðborgar Lundúna. Síðan var gildissvæðið víkkað út 2021 en í dag nær það yfir öll kjördæmi Stór-Lundúnasvæðisins, eins og kynnt er á samgöngusíðu borgaryfirvalda. Við bætast hverfi með samtals um 5 milljónir íbúa, sem eiga færri kosta völ í samgöngum en þeir sem búa nær miðborginni en þurfa líka að búa við mikla bílamengun.

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna – MYND: Heimasíða borgarstjóra

Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, er einbeittur í þeirri fyrirætlun að losa borgina við mengandi bíla. Hann segir að útvíkkun svæðis sem leyfir litla losun muni fækka dauðsföllum vegna veikinda sem tengja megi til loftmengunar – og um leið sé baráttunni gegn loftslagsbreytingum lagt lið. Andstæðingar borgarstjórans og gagnrýnendur áætlunarinnar segja að 12,50 punda mengunargjald á þær þúsundir sem enn aki gömlum og mengandi bílum muni hafa slæm efnahagsleg áhrif.

Segja má að stefna Sadiq Khan og Verkamannaflokksins í Lundúnum endurspegli átök víða um heim á milli umhverfislegra langtímasjónarmiða og efnahagslegra skammtímasjónarmiða. Spurningin er hvaða stjórnmálamenn hafi þrek til að axla þungan af nauðsynlegum en sársaukafullum ákvörðunum sem varða lífsgæði og heilsu fólks til framtíðar – en þrengja til skamms tíma hag þeirra sem hafa ekki ráð á að kaupa nýjan bíl. Khan viðurkenndi í viðtali á BBC í dag að útvíkkun ULEZ væri sársaukafull en nauðsynleg. Áður hefur hann sagt að íbúar í fátækustu hverfum borgarinnar þurfi að þola mesta loftmengun. Í viðtalinu á BBC sagði borgarstjórinn: „Útvíkkun ULEZ er hluti af baráttu okkar gegn loftmengun í borginni og gegn loftslagsbreytingum um leið og við tökumst á við félagslegt óréttlæti.“

Borgaryfirvöld fullyrða að losun 9 af hverjum 10 bílum í borginni sé undir settum mengunarmörkum en margir hafa dregið í efa að það standist. Óánægja og reiði margra hefur birst í því að miklum fjölda eftirlitsmyndavéla ULEZ-kerfsins hefur verið stolið eða þær skemmdar. Brugðist hefur verið við þessu með því að setja einfaldlega upp nýjar myndavélar. Í úthverfunum sem ULEZ nær nú til verða 2,750 vélar sem skrá þá bíla sem innheimt verður af mengunargjald.

Miklar umræður eru í Bretlandi um þá leið sem Verkamannaflokkurinn fer í höfuðborginni í baráttunni við loftslagsbreytingar. Andstaða við stefnuna er talin skýra að hluta af hverju Verkamannaflokkurinn tapaði naumlega fyrir Íhaldsflokknum í aukakosningum á stórborgarsvæðinu á dögunum – þrátt fyrir miklar óvinsældir íhaldsstjórnarinnar í landinu.

Brautin framundan er vafalaust grýtt fyrir Sadiq Khan og aðra þá sem sjá að ekki verður lengur þolað að fólk búi við hættulega loftmengun og að lítið sé aðhafst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Umferðin við Piccadilly – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Það er mat Standard & Poor's að Grikkland hafi loks bundið enda á skulda- og bankakreppuna sem reið yfir landið fyrir 15 árum síðan. Hin gríska skuldakreppa gekk nærri evrusamstarfinu á sínum tíma en úr var að Grikkland fékk 50 milljarða króna lán úr stöðugleikasjóði Evrópusambandsins. Sú upphæð fór í einskonar gríska bankasýslu sem lagði …

Umtalsverður samdráttur hefur orðið í vínútflutningi Nýsjálendinga að undanförnu. Verð hefur lækkað og minna selst á mikilvægustu markaðssvæðum. Áhugi á nýsjálenskum vínum náði hámarki um mitt árið 2023 en leiðin hefur legið niður á við síðustu mánuði, eins og tölur frá uppgjörsárinu sem lauk í júní sýna glögglega. Verðmæti nýsjálenskra vína minnkaði um 12,2% frá …

Stjórnendur Play gera ekki ráð fyrir að fjölga þotunum í flotanum á næsta ári en það er engu að síður þörf á nýjum flugmönnum. Play hefur því auglýst til umsóknar lausar stöður flugmanna og rennur fresturinn til að sækja um út í byrjun desember. Ekki liggur fyrir hversu margir verða ráðnir samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. …

Nýr forsætisráðherra Frakklands, Michel Barnier, er ekki sáttur við stöðu innflytjendamála í landinu og vill herða tökin. Endurspeglar hann þar stöðugt háværari umræðu í landinu um fjölda innflytjenda. Meginþunginn í stefnuræðu Barnier á þinginu fyrr í vikunni var á stöðu efnahagsmála, hvernig stöðva þyrfti skuldasöfnun, skera niður útgjöld og hækka skatta. En hann ræddi líka …

Í lok október þyngist flugumferðin milli Íslands og Bretlands enda fjölmenna Bretar hingað til lands yfir vetrarmánuðina. Breska flugfélagið Easyjet hefur verið stórtækast í flugi milli landanna tveggja á þessum árstíma en félagið hefur nú skorið niður áætlunina þónokkuð frá síðasta vetri. Til viðbótar við þennan niðurskurð á Keflavíkurflugvelli þá hefur Wizz Air fellt niður …

Toyota Motor hefur ákveðið að fresta framleiðslu rafbíla í Bandaríkjunum vegna þess að dregið hefur úr eftirspurn. Viðskiptavefur Nikkei greinir frá því að framleiðslan hefjist ekki fyrr en á fyrri hluta árs 2026. Framleiðandinn á að hafa greint birgjum nýverið frá því að það drægist að hefja smíði fyrsta rafbílsins, þriggja sætaraða sportjeppa, í verksmiðju …

Hið konunglega hollenska flugfélag, KLM, boðar aðgerðir til að ná niður kostnaði til að vega upp á móti almennum verðlagshækkunum. Í tilkynningu segir að þetta hafi í för með sér samdrátt í fjárfestingum, einfaldara skipulag, aukna kröfu um framleiðni og almennar sparnaðaraðgerðir. „Flugvélarnar okkar eru fullar en framboðið er enn þá minna en það var …

Á miklum óvissutímum fyrir botni Miðjarðarhafs vegna stríðsátaka, sem hafa mikil áhrif á flugsamgöngur, tilkynnir bandaríska flugfélagið Delta Air Lines um samstarf við Saudia Airlines, þjóðarflugfélag Sádi-Arabíu. Markmiðið er að fjölga ferðamöguleikum á milli Bandaríkjanna og Miðausturlanda. Um er að ræða samkomulag (codeshare agreement) um að deila áætlunum og útgefnum flugmiðum. Viðskiptavinir geta þá framvegis …