Áætlun borgaryfirvalda í Lundúnum um að gera strangar kröfur um litla losun frá ökutækjum í stórborginni er nefnd ULEZ (Ultra Low Emission Zone). Ekki er með beinum hætti þrengt að bílum vegna losunar á koltvísýringi (CO2) og áhrifa hennar á hlýnun andrúmsloftsins heldur er baráttunni beint að skaðlegum áhrifum köfnunarefnisoxíðs (nituroxíðs, NOx). Um leið er auðvitað fækkað bílum sem hafa mest loftslagsáhrif.
Losun á NOx má ekki fara yfir 0,08 grömm á hvern ekinn kílómetra. Þeir sem aka bílum sem losa yfir þessum mörkum þurfa að sæta því að greiða 12,50 punda gjald, eða mengunarskatt, hvern dag sem ekið er innan borgarmarka, eða sem svarar rúmum 2.000 krónum. Þessi aðgerð hefur mætt mikilli andstöðu og er sérstaklega gagnrýnd vegna þess að hún komi illa við þá sem berjast í bökkum á tímum mikilla verðhækkana.
ULEZ-áætlunin var kynnt til sögunnar 2019 og náði þá aðeins til lítils hluta miðborgar Lundúna. Síðan var gildissvæðið víkkað út 2021 en í dag nær það yfir öll kjördæmi Stór-Lundúnasvæðisins, eins og kynnt er á samgöngusíðu borgaryfirvalda. Við bætast hverfi með samtals um 5 milljónir íbúa, sem eiga færri kosta völ í samgöngum en þeir sem búa nær miðborginni en þurfa líka að búa við mikla bílamengun.
Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna – MYND: Heimasíða borgarstjóra
Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, er einbeittur í þeirri fyrirætlun að losa borgina við mengandi bíla. Hann segir að útvíkkun svæðis sem leyfir litla losun muni fækka dauðsföllum vegna veikinda sem tengja megi til loftmengunar – og um leið sé baráttunni gegn loftslagsbreytingum lagt lið. Andstæðingar borgarstjórans og gagnrýnendur áætlunarinnar segja að 12,50 punda mengunargjald á þær þúsundir sem enn aki gömlum og mengandi bílum muni hafa slæm efnahagsleg áhrif.
Segja má að stefna Sadiq Khan og Verkamannaflokksins í Lundúnum endurspegli átök víða um heim á milli umhverfislegra langtímasjónarmiða og efnahagslegra skammtímasjónarmiða. Spurningin er hvaða stjórnmálamenn hafi þrek til að axla þungan af nauðsynlegum en sársaukafullum ákvörðunum sem varða lífsgæði og heilsu fólks til framtíðar – en þrengja til skamms tíma hag þeirra sem hafa ekki ráð á að kaupa nýjan bíl. Khan viðurkenndi í viðtali á BBC í dag að útvíkkun ULEZ væri sársaukafull en nauðsynleg. Áður hefur hann sagt að íbúar í fátækustu hverfum borgarinnar þurfi að þola mesta loftmengun. Í viðtalinu á BBC sagði borgarstjórinn: „Útvíkkun ULEZ er hluti af baráttu okkar gegn loftmengun í borginni og gegn loftslagsbreytingum um leið og við tökumst á við félagslegt óréttlæti.“
Borgaryfirvöld fullyrða að losun 9 af hverjum 10 bílum í borginni sé undir settum mengunarmörkum en margir hafa dregið í efa að það standist. Óánægja og reiði margra hefur birst í því að miklum fjölda eftirlitsmyndavéla ULEZ-kerfsins hefur verið stolið eða þær skemmdar. Brugðist hefur verið við þessu með því að setja einfaldlega upp nýjar myndavélar. Í úthverfunum sem ULEZ nær nú til verða 2,750 vélar sem skrá þá bíla sem innheimt verður af mengunargjald.
Miklar umræður eru í Bretlandi um þá leið sem Verkamannaflokkurinn fer í höfuðborginni í baráttunni við loftslagsbreytingar. Andstaða við stefnuna er talin skýra að hluta af hverju Verkamannaflokkurinn tapaði naumlega fyrir Íhaldsflokknum í aukakosningum á stórborgarsvæðinu á dögunum – þrátt fyrir miklar óvinsældir íhaldsstjórnarinnar í landinu.
Brautin framundan er vafalaust grýtt fyrir Sadiq Khan og aðra þá sem sjá að ekki verður lengur þolað að fólk búi við hættulega loftmengun og að lítið sé aðhafst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Umferðin við Piccadilly – MYND: ÓJ