Samfélagsmiðlar

Rætt er hvernig ákvarða megi hámarksfjölda gesta á Þingvöllum

Stjórnendur þjóðgarðsins á Þingvöllum velta fyrir sér hvernig ákvarða megi hámarksfjölda gesta. Í júnímánuði einum fóru 135 þúsund manns á salerni umhverfis Almannagjá, á þessum söguríka og mikilvæga náttúrureit sem nýtur verndar UNESCO sem heimsminjar.

Ferðamenn á Hakinu

Það var mjög mikill fjöldi fólks í þjóðgarðinum þegar Túristi renndi í hlað á sólskinsmorgni. Rútur fylltu bílastæðið við þjónustumiðstöðina og raunar öll stæði fyrir neðan Hakið líka. Straumur fólks rann niður Almannagjá og um alla stíga og palla. Erlendir ferðamenn voru í yfirgnæfandi meirihluta. Þingvellir eru vinsælasti áfangastaður þeirra á Íslandi. Það er nóg að gera hjá starfsfólki þjóðgarðsins. Einar Á.E. Sæmundsen er þjóðgarðsvörður.

Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður – MYND: ÓJ

Stefnir í enn eitt metsumarið?

„Það hefur verið mjög mikið af fólki á ferðinni í sumar og til dæmis í júlí hefur á milli 6 til 7 þúsund manns gengið um Almannagjá á hverjum degi. Við höfum gönguteljara sem ná aftur til 2017 sem sýna að tölurnar fyrir tímabilið frá 1. júní – 1. ágúst 2023 er nánast á pari við sumarið 2019. Þannig að árið 2023 stefnir í að vera svipað og  2019.  Hvað svo gerist á næsta ári vitum við ekki en ef það verður áframhaldandi fjölgun þá má búast að 2024 verði metárið miðað við okkar teljara.“

Ferðafólk á mögnuðum útsýnisstað – MYNDIR: ÓJ

Umferð fólks um svæðið gekk vel, sýndist manni, en erum við komin að efri mörkum varðandi
fjölda?

„Þrátt fyrir þennan fjölda þá hefur gengið almennt vel í sumar. Ástæðan er að við sáum þetta fyrir og skipulögðum okkur vel og réðum til okkar mikið af góðu starfsfólki og lögðum áherslu á það í kynningu í vor við það að sumarið yrði stórt og mikið álag. Allir voru vel undirbúnir og skipulagið gott. Við settum upp tímabundnar breytingar á bílastæðum í sumar sem verða fram á haust sem hafa komið vel út og hjálpað til.  Það hefur gengið vel á Hakinu þar sem greint var í sundur milli stærri og minni hópferðabíla og öllum einkabílum gert að leggja á stærsta bílastæðinu.  

Á stæðinu við þjónustumiðstöðina – MYND: ÓJ

Með þessu hefur umferðin gengið betur og nánast undantekningarlaust verið ánægja með þetta. Í byrjun reyndi þetta aðeins á skilning bílstjóra og leiðsögumanna en nánast allir hafa hlýtt þessu og almenn ánægja ríkt. Þegar leið á sumarið og hópferðum fjölgaði opnuðum við tímabundið inn á syðsta hluta grasflatarinnar við stærra bílastæðið neðan við Almannagjá fyrir minni hópferðabíla. Það er þó alger tímabundin ráðstöfun og ekki til framtíðar. Varðandi efri mörk þá eru innviðir enn sem komið að miklu leyti að anna fjölda ferðamanna en alltaf má ræða þol okkar gagnvart fjölda ferðamanna á hverri stundu.  Fjöldi ferðamanna á Þingvöllum er alltaf í hámarki milli 9 og 11 og svo aftur seinnipartinn. Eftir klukkan 17 og fram á kvöld þá eru mun færri á svæðinu.

Stöðugur straumur liggur niður Almannagjá – MYND: ÓJ

Umferðarsvæði ferðamanns sem heimsækir Þingvelli er töluvert stærra en margra annarra áfangastaða. Má því segja að svæðið hafi meiri rýmd en margir aðrir áfangastaðir þar sem aðdráttaraflið er á minna svæði og því sýnileg þröng ferðamanna meiri. Þrátt fyrir að umferðarsvæði ferðamanna á Þingvöllum sé stærra og svæðið af þeim sökum beri fleiri ferðamenn þá hafa vaknað spurningar og umræða hjá Þingvallanefnd og stjórnendum þjóðgarðsins hvernig hægt sé að ná að ákvarða hámarksfjölda. 

Eitt af þeim verkefnum sem við erum með í gangi núna er upplifunarkönnun sem hefur verið endurtekin undanfarin ár síðan 2020 þegar hún var framkvæmd á lágpunkti. Við endurtekin svör væntum við þess að sjá mögulega þanþol ferðamanna gagnvart fjölda. Það er þó einnig mjög teygjanlegt þar sem hópar ferðamanna eru mjög margir frá mismunandi svæðum og hafa mismunandi þolmörk gagnvart fjölda.
Hluti af okkar aðgerðum til að stýra umferð og fjölda mun tengjast framtíðaruppbyggingu ofan við Almannagjá og stjórnun umferðar niður að þingstaðnum forna. Það þarf að horfa á þetta heildrænt til
að geta unnið vel með þetta.“

Fólk fyllir palla og stíga – MYNDIR: ÓJ

Væri ástæða til að jafna betur t.d. komur rúta með farþega úr skemmtiferðaskipum?

„Í mörg ár hafa rútur lagt af stað frá skipshlið í tvær áttir þ.e. í stefnu á Mosfellsheiðina og með stefnu á Hellisheiðina. Hugmyndin í upphafi var sannarlega til að reyna að minnka tímabundið álag en eftir því sem skipum fjölgar í höfnum við Faxaflóa verður fjöldinn bara meiri á sama tíma og mannskari á Hakinu og niður Almannagjá. Ef hægt væri að brjóta þetta upp enn fremur væri það til bóta. Á skipadögum þetta sumarið eru stundum þrjú eða fleiri skemmtiferðaskip í höfn. Slíkt veldur eðlilega því að margir eru á staðnum í einu sem kallar á þröng á þingi en ekki síst á bílstæðum. Fyrir utan mannmergð þá er ein stærsta áskorunin ekki síst hvernig skuli koma svo mörgum rútum fyrir á sömu stundu og tryggja að flæðið sé skilvirkt og gestir séu öruggir. Þetta samtal þarf að dýpka og fara betur yfir til að ná utan um þennan hóp innan ferðaþjónustunnar.“ 

Við Öxarárfoss – MYND: ÓJ

Fræðst um Þingvelli – MYND: ÓJ

Veldur þessi stöðugi gestagangur skemmdum á svæðinu?

„Þrátt fyrir allan þennan fjölda þá vil ég fullyrða að hann valdi ekki beinum skemmdum á svæðinu þar sem innviðir eru þróaðir og gönguleiðir mjög skýrar og afmarkaðar og hending að við sjáum fólk þar sem það á ekki að vera. Einnig höfum við verið með mjög virka landvörslu og starfsmenn sem fylgjast einnig með. Sérstakur álagsvaldur eru rekstur salerna. Í júní einum fóru 135 þúsund manns á salerni umhverfis Almannagjá. Fjöldinn veldur þó sérstöku álagi þar sem svæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns með ströngustu kröfum til verndunar grunnvatns  á Íslandi. Öllu sem til fellur er safnað saman og því er ekið til Reykjavíkur til förgunar og líklega verður í ár milli 1,5 – 2 milljónum lítra ekið til Reykjavíkur.“

Bílar fyrir neðan Almannagjá – MYNDIR: ÓJ

Þegar við ræddum saman í fyrrasumar þá nefndir þú hugmyndir í deiliskipulagi um að láta bílana hverfa úr augsýn frá Hakinu. Þeir sjást enn. Er einhver hreyfing á þessu máli?

„Nú á næstu vikum verður sett í opinbert skipulagsferli deiliskipulag sem styður við þessar breytingar.  Þetta mun ekki raungerast nema í langhlaupi en líklega má sjá slíkar breytingar mögulega byrja að einhverju leyti á næsta ári ef vel gengur að koma upp aðstöðu fyrir ofan Almannagjá í kjölfar samþykkts deiliskipulags. En sú hugmynd að láta bílana víkja meira fyrir neðan er góð og gild og gegnum gangandi í þessu deiliskipulagi. Það er margt enn óútfært í smáatriðum t.d. hvernig verði með rútuumferð og slíkt. Stefnt er að því að það verði innri samgöngur sem skutla gestum til og frá bílastæðum fyrir ofan. Það er í mjög anda við alla þróun á sambærilegum áningarstöðum erlendis. Það er einfaldlega ekki hægt að halda áfram að búa til bílastæði fyrir neðan og bæta við þau. Plássið er fyrir ofan til að vinna með bílastæði og unnið verður nánar og frekar útfærslum á því hvernig umferð til framtíðar verður vel fyrir komið.“

Ferðafólk á útsýnispallinum á Hakinu – MYNDIR: ÓJ

Hvað viltu segja um viðskiptamódelið „Gullna hringinn“? Er það vel lukkað að öllu leyti?

„Gullni hringurinn er sannarlega ákveðið viðskiptamódel og fyrir hefðbundinn ferðamann sem kemur í fyrsta sinn til landsins góður áfangastaður fyrir mismunandi upplifanir. Hægt er að heimsækja sögustað og jarðfræðiundur,  hverasvæði og risastóran foss sem er greinilega mjög góð uppskrift upplifun fyrir ferðamann á einum degi. Fjöldinn sem fer þessa leið hefur vaxið í samræmi við fjölgun ferðamanna.  Undanfarin misseri hefur þróast samstarfsvettvangurinn Gullna Hringborðið þar sem eru helstu hagaðilar opinberir aðilar og einkaaðilar sem tengjast Gullna hringnum sem hafa hist til að ræða áskoranir og tækifæri sem blasa við á komandi árum með fjölgun ferðamanna.“

Gestir njóta veitinga við þjónustumiðstöðina – MYND: ÓJ

Komið að brottför – MYND: ÓJ

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …