Samfélagsmiðlar

Ryanair ætlar að verða næststærst í Kaupmannahöfn og er með laust pláss fyrir Íslandsflug

Forstjóri Ryanair boðar sókn á danska markaðnum.

Þotur Ryanair eru nú algengari sjón við norrænar flugstöðvar en hafa þó ekki tekið stefnuna á Keflavíkurflugvöll.

Í farþegum talið er Ryanair stærsta flugfélag Evrópu og áfangastöðum félagsins hefur fjölgað hratt síðustu misseri í takt við stækkandi flugflota. Þetta írska lágfargjaldafélag hefur meðal annars sótt fram á hinum Norðurlöndunum en Ísland er eitt fárra landa í Evrópu sem Ryanair flýgur ekki til.

Útsendarar flugfélagsins hafa engu að síður komið hingað til lands og metið aðstæður, meðal annars á Akureyri fyrir áratug síðan. Spurður um þá vettvangsferð sagði blaðafulltrúi Ryanair, í svari til Túrista, að lág flugvallagjöld væru forsenda fyrir nýjum áfangastöðum.

Stjórnendur Ryanair hafa nefnilega verið harðir í samningaviðræðum við flugmálayfirvöld. Þeir hafa þó áttað sig á því að eina leiðin til að stækka er að bjóða upp á flug frá nokkrum af stærstu og dýrustu flugvöllum Evrópu. Og um leið bjóða starfsmönnum betri kjör.

Með þessari breytingu hefur leiðin opnast fyrir aukin umsvif Ryanair á hinum Norðurlöndunum. Félagið hefur til að mynda gert kjarasamninga í Danmörku sem lengi var óhugsandi.

Á síðasta ári kom félagið fyrir nokkrum þotum á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi og flýgur nú þaðan til ríflega 40 áfangastaða. Michael O´Leary, forstjóri Ryanair samsteypunnar, var svo mættur til Kaupmannahafnar í gær þar sem hann sagði frá áformum um að opna þar starfsstöð. Til að byrja með yrðu þoturnar bara tvær en forstjórinn bætti því við að félagið stefndi á að verða næststærsta flugfélagið á Kaupmannahafnarflugvelli innan skamms.

Í dag eru SAS og Norwegian í efstu tveimur sætunum og Ryanair í því þriðja. Starfsemi írska félagsins í Kaupmannahöfn byggir hins vegar eingöngu á flugi þangað frá öðrum borgum. Þar með getur Ryanair ekki boðið upp á morgunflug frá dönsku höfuðborginni eða flugi þangað seint um kvöld.

Á því verður breyting nú í vetur en írski forstjórinn bætti því þó við að boðaðar gjaldskrárhækkanir á Kaupmannahafnarflugvelli gætu haft áhrif á þessi áform.

Engu að síður hefur Ryanair nú þegar sett í sölu morgunflug frá Kaupmannahöfn til Spánar, Ítalíu, Portúgal, Bretlands og Ungverjalands og á ennþá eftir að bæta töluverðu við dagskrána.

Blaðafulltúrar Ryanair svara þó ekki fyrirspurn Túrista um hvort Íslandsflug frá Kaupmannahöfn sé meðal þeirra kosta sem koma til greina en markaðurinn fyrir flug milli Íslands og Danmerkur er merkilega stór. 73 þúsund farþegar flugu á milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar í síðasta mánuði. Aðeins fimm aðrar flugleiðir voru vinsælli meðal farþega í Kastrup flugvelli í þeim mánuði.

Samkeppnin er líka hörð því þotur Icelandair fljúga allt að fjórum sinnum á dag til Kaupmannahafnar og Play og SAS halda úti daglegum ferðum. Það myndi því líklega kallast offramboð ef Ryanair myndi bæta sér í slaginn en þá er spurning hvort sú staða myndi bitna á öðrum en írska flugfélaginu. Það er nefnilega einhver ástæða fyrir því að félagið er það stærsta í Evrópu.

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …