Samfélagsmiðlar

„Þetta finnst gestum okkar alveg magnað“

Jarðhitasýningin við Hellisheiðarvirkjun gæti dregið að hátt í 100 þúsund gesti á þessu ári. „Það er svo gaman að sjá þá nýsköpun og þróun sem á sér stað á svæðinu og skemmtileg áskorun að endurspegla starfsemina á aðgengilegan hátt fyrir fjölbreyttan hóp gesta," segir Laufey Guðmundsdóttir, sýningarstjóri.

Gestir Jarðhitasýningar horfa á samspil náttúru og nýtingar

Magnað þróunar- og nýsköpunarstarf fer fram við Hellisheiðarvirkjun. Þar sem stöðugt er unnið að því að bæta nýtingu orkunnar og fanga koltvísýring og brennisteinsvetni og umbreyta í stein. Þetta hefur vakið heimsathygli og ferðafólk hópast á Jarðhitasýninguna til að fræðast um þetta starf á tímum loftslagsógna. Laufey Guðmundsdóttir er sýningarstjóri:

Laufey Guðmundsdóttir, sýningarstjóri, í Hellisheiðarvirkjun – MYND: Páll Jökull Pétursson

Hafa vinsældir sýningarinnar farið vaxandi? 

„Já sannarlega hefur Jarðhitasýningin náð sambærilegum vinsældum og hún var búin að ná á stærstu árunum fyrir Covid-19. Jarðhitasýningin var lokuð stóran hluta af 2020 og 2021. Við fundum strax fyrir örum vexti og auknum fyrirspurnum þegar takmörkunum var aflétt vorið 2022. Gestafjöldinn í ár er nú þegar kominn í um 50 þúsund gesti – miðað við 54 þúsund allt árið í fyrra. Ég reikna með að heildar gestafjöldi verði tæplega 100 þúsund í lok árs.“

Rútur koma og fara allan daginn – MYNDIR: ÓJ

Ég fór á sýninguna og tók eftir því að fyrir utan stóðu margar rútur. Inni á sýningunni var fjöldi gesta, flestir erlendir, og allir virtust mjög áhugasamir. Er stöðugur straumur gesta á sýninguna?

„Þegar þú heimsóttir sýninguna þá voru stórir hópar í húsi. Á sumrin er fjöldi hópa af skemmtiferðaskipunum á leið um Gullna hringinn. Einnig koma fjölmargir erlendir skólahópar til okkar og er Jarðhitasýningin oft fyrsti viðkomustaður á leið um landið. Auk þess koma almennir ferðahópar og hópar tengdir ráðstefnum eða öðrum viðskiptaferðum. Stærstu mánuðirnir hjá okkur júní, júlí, ágúst – og út september. Á veturna koma skólahóparnir sterkir inn, svo er spurning hvort það jafnist ekki út gestafjöldinn yfir vetrarmánuðina þegar Asíumarkaður opnast aftur almennilega.“

Við móttökuna á Jarðhitasýningunni – MYNDIR: ÓJ

Hvað vekur helst athygli gestanna? Ég sá að margir voru áhugasamir um Carbfix.

„Við fræðum gestina um jarðfræði Íslands og af hverju við höfum svona gott aðgengi að þeim auðlindum sem heita vatnið og jarðhitinn eru. Gestum finnst þetta magnað hvernig við nýtum jarðvarmann til að hita upp híbýlin okkar sem og að framleiða 30% alls rafmagns á Íslandi með jarðhitanum. Við fáum oft þessa athugasemd: Við myndum vilja geta hitað upp okkar húsnæði með jarðvarma. Það sem vekur mikinn áhuga hjá gestunum er hversu lítið við þurfum að greiða fyrir aðgang að heitu vatni og rafmagni miðað við það sem gerist í heimalandi þeirra. Við fundum sérstaklega fyrirauknum áhuga á orkuvinnslunni þegar orkukrísan skall á í Evrópu vegna Úkraínustríðsins.

Hellisheiðarvirkjun – MYND: ÓJ

Einnig tölum við mikið um aðgerðir í loftslagsmálum, eins og föngun CO2 (koltvísýringur) og H2S (brennisteinsvetni) með aðstoð Carbfix-tækninnar, en sú tækni var einmitt þróuð hér á Hellisheiðinni. Nú er verið að byggja enn stærri skrúbbturn, þar sem gastegundirnar eru leystar upp í vatni fyrir niðurdælingu, það verkefni heitir Steingerður (Silverstone). Þegar Steingerður verður komin í gagnið árið 2025 þá munum við fanga um 95% af öllum koltvísýringi, sem Carbfix dælir svo aftur niður í jörðina og umbreytir í stein þannig að hann geymist varanlega. Hellisheiðarvirkjun verður þá fyrsta jarðvarmavirkjun í heiminum sem verður kolefnishlutlaus. Þegar því markmiðið verður náð mun sambærilegur skrúbbturn verða reystur við Nesjavallavirkjun fyrir árið 2030 og verða þá báðar jarðvarmavirkjanir Orku náttúrunnar kolefnishlutlausar.

Áhugasamir gestir fræðast um orkunýtinguna og loftslagsverkefnin – MYNDIR: ÓJ

Þetta er ekki eina hringrásin sem við segjum frá hér á Jarðhitasýningunni, einnig er mikið lagt upp úr landgræðslunni við allar framkvæmdir, þar sem jarðveginum er flett ofan af framkvæmdarstað. Þegar framkvæmdum er lokið er hann lagður aftur á svo að ekki sjáist röskun á jarðveginum. Svo er mikil starfsemi í Jarðhitagarði ON, þar sem fyrirtæki með starfsemi sem hefur sjálfbærni er að leiðarljósi, geta tengst auðlindastraumum Hellisheiðarvirkjunar. Þar starfa nú þegar GeoSilica, sem nýtir skiljuvatnið til að framleiða steinefnabætiefni, og VAXA Technologies, sem eru að rækta smáþörunga. Sú starfsemi hefur neikvætt kolefnisspor, sem er frábær viðbót í baráttunni við loftslagsmálin, og svo er fyrirtækið Climeworks með CO2 loftsugur, þar sem þau eru að fanga koltvísýringinn úr andrúmsloftinu og senda til Carbfix, sem dælir því niður í jörðina aftur.

Eins og þú sérð þá tengjast fyrirtækin og starfsemi þeirra hvert öðru og þar með erum við að búa til litlar hringrásir sem allar miða að sjálfbærni. Þetta finnst gestum okkar alveg magnað!“

Stöðugur straumur fólks inn og út af Jarðhitasýningunni – MYND: ÓJ

Hvernig fólk sækir sýninguna?

„Það er mjög fjölbreyttur hópur sem kemur til okkar – og á öllum aldri, allt frá fjölskyldum með lítil börn og upp í eldri borgara sem eru á ferðalagi. Einnig er hópagerð gestanna mjög fjölbreytt. Tæp 3,5% erlendra gesta sem koma til landsins koma við hjá okkur á Jarðhitasýningunni. Um 25% þeirra eru skólahópar, 25% lausatraffík, 25% af skemmtiferðaskipum, 20% almennir hópar og um 5% Carbfix hópar, gestir samstæðunnar og aðrir sérhópar. Langstærsti hluti gesta koma frá Bandaríkjunum og Bretlandi eða tæp 55%, Þjóðverjar eru um 7%, Frakkar rúm 3% og Íslendingar eru aðeins um tæp 5%.

Við myndum gjarnan vilja fá fleiri Íslendinga til að koma við, ég held bara að okkur finnist aðgengi að heitu vatni og rafmagni svo sjálfsagt að við hugsum ekkert um það hvernig það er framleitt. En alltaf finnst mér gaman að fá Íslendingana í heimsókn og sjá hversu stoltir þeir eru eftir að hafa fræðst um þessa frábæru tækni og nýsköpun sem á sér stað hjá okkur og ekki síst hversu framarlega við Íslendingar erum í orkuvinnslunni.“

Góð aðstaða er í móttökusalnum – MYND: ÓJ

Hefur vaxandi þungi í umræðum um loftslagsmál aukið áhuga á sýningunni?

„Já, ég myndi telja það. Þar koma fyrirtækin eins og Carbfix og Climeworks sterk inn. Þeirra aðferðir við föngun og varanlega förgun CO2 vekja mikinn áhuga og umræðu. Einnig hvernig sífellt er verið að vinna að því að nýta betur og sóa minna með nýsköpun innan starfsemi virkjana Orku náttúrunnar og þeim fyrirtækjum sem tengjast starfseminni.“

Margir næla sér í bol – MYND: ÓJ


Hefur sýningin breyst mikið og eru einhverjar breytingar framundan?

„Já, Jarðhitasýningin er í sífelldri þróun, sýningin endurspeglar starfsemina á svæðinu hverju sinni því er mikilvægt að uppfæra hana í takt við það. Við erum með nokkur verkefni í vinnslu nú þegar og margt á hugmyndarstigi. Það er svo gaman að sjá þá nýsköpun og þróun sem á sér stað á svæðinu og skemmtileg áskorun að endurspegla starfsemina á aðgengilegan hátt fyrir fjölbreyttan hóp gesta. Sem dæmi um verkefni sem við erum nýbúin að uppfæra er veggur um landgræðsluna og upplifunarrýmið Agndofa þar sem þú getur slakað á í „náttúru“ Hengilsins á óhefðbundinn hátt með því að horfa á myndefni af fjölbreyttu landslagi Hengilsins með tónverki og sérhannaði ilmi sem magnar upp upplifunina.
Við erum svo að vinna í sérstöku barnarými í samstarfi við teiknarann Ninnu Þórarinsdóttur sem við stefnum á að opna formlega í september. Þar erum við að teikna upp framleiðsluferlið og einfaldar
jarðfræðiútskýringar sérstaklega með börn í huga. Það verður skemmtileg viðbót við sýninguna. Einnig erum við að vinna í því að nýta þrívíddar viðhaldskerfi sem virkjanir eru nýbúnar að taka upp hjá sér með því að koma fyrir snertiskjám fyrir inn á svölunum inn í vélarsal og þannig gefa gestum kost á að skoða túrbínurnar og annað sem er þar inni í gegnum kerfið. Eins og staðan er nú þá geta gestir aðeins séð inn í túrbínusalinn í gegnum glervarðar svalir vegna hættu á gasmengun.“

Túristi þakkar fyrir sig og kveður Hellisheiðarvirkjun á rafknúna bílnum, sem fékk straum frá virkjuninni liðna nótt.

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …